Malbygg Bergur Gunnarsson og bræðurnir Andri Þór og Ingi Már Kjartanssynir mæta með átta tegundir af bjór til leiks á bjórhátíð í Kaupmannahöfn.
Malbygg Bergur Gunnarsson og bræðurnir Andri Þór og Ingi Már Kjartanssynir mæta með átta tegundir af bjór til leiks á bjórhátíð í Kaupmannahöfn. — Morgunblaðið/RAX
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Við erum auðvitað mjög ánægðir. Þetta verður mjög skemmtilegt,“ segir Andri Þór Kjartansson, einn eigenda brugghússins Malbygg.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Við erum auðvitað mjög ánægðir. Þetta verður mjög skemmtilegt,“ segir Andri Þór Kjartansson, einn eigenda brugghússins Malbygg.

Malbygg hefur fengið boð um þátttöku á einni þekktustu bjórhátíð í heimi, bjórhátíð Mikkeller í Kaupmannahöfn. Hátíðin kallast MBCC og er haldin ár hvert í maí. Andri og félagar hans þekkja vel til hátíðarinnar enda hafa þeir sótt hana sem gestir mörg undanfarin ár. Nú verða þeir í nýju hlutverki og ásamt um eitt hundrað öðrum brugghúsum víðsvegar að úr heiminum munu Malbygg-menn kynna sinn áhugaverðasta bjór.

„Þetta er sú hátíð sem okkur hefur mest langað að fara á með Malbygg enda eru jafnan mörg stór nöfn þarna,“ segir Andri en brugghúsinu hefur einnig verið boðið á fleiri hátíðir í ár. Í lok mars tekur Malbygg þátt í bjórhátíð í Bergen í Noregi og í nóvember er ferðinni heitið á Billy's Craft Beer Fest í Antwerpen í Belgíu.

Fagna tveggja ára afmæli

Malbygg fagnar í næsta mánuði tveggja ára afmæli en bjór brugghússins hefur notið mikilla vinsælda meðal bjóráhugafólks á Íslandi. Svo mikilla að bæta þurfti við 3.000 lítra gerjunartanki til að anna eftirspurn. Í vor kemur svo í ljós hvort tegundir eins og Massaður kjúklingur, Sopi, King Kong eða Bjössi bolla falla í kramið á alþjóðasviðinu. Búast má við því að hátt í þrjú þúsund gestir sæki hátíðina sem stendur í tvo daga. Henni er skipt í fjóra hluta og þurfa Malbyggs-menn að mæta með átta tegundir af bjór til leiks.