[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sverrir Guðjónsson er fæddur 10. janúar 1950 í Reykjavík. „Ég ólst upp í miðborginni og æfði íþróttir af kappi og keppti með unglingalandsliðinu í knattspyrnu.

Sverrir Guðjónsson er fæddur 10. janúar 1950 í Reykjavík. „Ég ólst upp í miðborginni og æfði íþróttir af kappi og keppti með unglingalandsliðinu í knattspyrnu.“

Sverrir gekk í Austurbæjarskólann, hann lauk stúdentsprófi frá MR og BEd gráðu frá KHÍ. Hann kenndi um 12 ára skeið við opna grunnskólann í Fossvogi, en var síðan í London 1988-1991 og stundaði „post graduate“ nám í tónlist og kontratenórsöng. Hann lauk einnig þriggja ára kennaranámi í Alexandertækni við North London Teachers' School. „Alexandertæknin hefur fylgt mér allar götur síðan og hef ég starfað töluvert með leikurum og sviðslistafólki, og kenndi Alexandertækni í Listaháskólanum um nokkurra ára skeið.“

Sverrir kom fyrst fram sem söngvari á Hellissandi, þá sjö ára að aldri. „Þangað fórum við á hverju sumri og dvöldum hjá Hansborgu ömmu á Grund. Síðar var ég fenginn til þess að syngja á Arnarhóli 11 ára gamall 17. júní, í beinni útsendingu Ríkisútvarpsins. Var þá byrjaður í söngnámi hjá Sigurði Demetz. Ég söng inn á tvær vinsælar hljómplötur 12 og 13 ára gamall og í kjölfarið vann ég með hinum ýmsu píanistum, auk þess að syngja með hljómsveit föður míns á dansiböllum.

Síðar langaði mig að kynnast ólíkum stílum í tónlist og starfaði með þjóðlagatríóinu Þremli, Kór Langholtskirkju, hljómsveitinni Pónik og stórhljómsveit Gunnars Þórðarsonar á Broadway (1983-1986). Það var á þessu tímabili sem kontratenórröddin kom til sögunnar.“ Sverrir söng einnig í söngleikjunum Chicago (1985) og Vesalingunum (1987-1988) í Þjóðleikhúsinu.

Eftir heimkomuna úr náminu frá Lundúnum 1991 söng Sverrir og vann náið með ýmsum tónlistarhópum. Má þar nefna Musica Antiqua sem gaf út Amor (1996), Caput sem gaf út Stokkseyri (2000) og Voces Thules sem gaf út Þorlákstíðir (2006) og Sturlungu Battle of Iceland (2009). Sólógeisladiskur Sverris, Grafskrift/Epitaph, var gefinn út af alþjóðlega fyrirtækinu OpusIII/Naive í París og hlaut „critic's choice“ hjá Gramophone Magazine í London. Einnig má nefna að þau hjónin stofnuðu veitingastaðinn Sólon Íslandus ásamt fleiri listamönnum og ráku staðinn til ársins 2000.

„Minnisstætt er hið magnaða óperuverkefni Fjórði söngur Guðrúnar eftir Hauk Tómasson, sem var sett upp í stórri skipakví, þegar Kaupmannahöfn var menningarborg Evrópu (1996). Verkið sló rækilega í gegn og var sýnt sex sinnum í viku, í heilan mánuð. Í kjölfarið var óperan hljóðrituð í samstarfi við tónlistarhópinn Caput og hlaut síðar Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs.

Japan hefur ætíð verið mér ofarlega í huga, enda við hjónin bæði Zen Búddistar. Árið 2005 leitaði Min-on fyrirtækið til mín með það í huga að bjóða 15 íslenskum listamönnum til Japans með tveggja tíma sýningu, sem færi til 15 borga. Ég tók að mér að halda utan um þetta verkefni og nefndi hópinn Borealis Ensemble. Undirbúningurinn tók marga mánuði og í 2.000 manna sali var alls staðar uppselt.“ Á undanförnum 15 árum hefur Sverrir starfað mjög náið með kvikmyndagerðarmanninum Jacques Debs í París og heimildamyndin Walking on Sound byggist á samstarfi hans við japanska listamanninn og goðsögnina, Stomu Yamash'ta.

„Á þessu tímabili fékk ég mikinn áhuga á því að vinna með heildarsvið raddarinnar í gegnum ýmiss konar raddhljóð, yfirtóna, barkasöng og raddgjörninga. Má þar nefna krefjandi verkefni eins og Spa in Heaven eftir Camillu Söderberg, raddinnsetninguna Andi fyrir Listasafni ASÍ og Listahátíð í Reykjavík. Einnig SOLAR 5 í samstarfi við Huga Guðmundsson, Hilmar Jensson, Matthías Hemstock og videó-listamanninn Joshue Ott, sem var sýnt í Hörpu og tilnefnt til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2014. Raddverkið Harpa Ófelíu sem ég samdi utan um texta Shakespears, hlaut fyrstu verðlaun hjá UK Radio and Drama Festival 2018. Einnig radd-og hljóðverkið RAGNARÖK – The Prophecy í samstarfi við tónskáldið Sten Sandell, sem hlaut drama-verðlaun hjá Prix Marulic Festival 2019. Þessa stundina er það Draugasagan um Djáknann á Myrká eftir Huga Guðmundsson, undir merkjum Listar fyrir alla og menntamálaráðuneytisins. Við heimsækjum grunnskóla víðs vegar um land og fæ ég hið ánægjulega hlutverk sögumannsins.“

Um þessar mundir er Sverrir að undirbúa útgáfu á tvöföldum vínil, í takmörkuðu, handstimpluðu upplagi, sem hefur verið í undirbúningi á undanförnum árum og nefnist Rökkursöngvar. „Hér er um samstarf við leiðandi íslensk tónskáld að ræða, sem hafa samið tónlist sérstaklega fyrir mitt kontratenór-raddsvið. Rökkursöngvar mynda ímyndað ferðalag á mörkum ljóss og myrkurs, í átt til dögunar og vonar og rammast inn af vögguvísunni Litfríð og ljóshærð, sem ég söng inn á vinsæla hljómplötu, þá barn að aldri. Þeir sem vilja nálgast plötuna næla sér í eintak af plötunni á karolinafund.com eða á netfangi Sverris, artcentrum@centrum.is.“

Strákarnir mínir fljúga með mig til Osló á afmælisdaginn þar sem eldri sonurinn býr með barnabörnin. Þeir eru búnir að setja upp dagskrá fyrir helgina. Mín eina ósk var snóker sem ég hef leikið með mínum æskufélögum frá unga aldri.“

Fjölskylda

Eiginkona Sverris er Elín Edda Árnadóttir, f. 23.8. 1953, leikmynda- og búningahöfundur og myndlistarmaður. Foreldrar Elínar: Edda Ágústsdóttir, f. 28.10. 1934, vann á saumastofu búningadeildar Þjóðleikhússins, og Árni Þór Árnason, f. 24.4. 1930, d. 5.5. 2003, véltæknifræðingur. Stjúpfaðir var Kristján Samúel Júlíusson, f. 14.11. 1923, d. 12.5. 2006, trésmiður og tæknimaður hjá Þjóðleikhúsinu.

Synir Sverris og Elínar eru 1) Ívar Örn Sverrisson, f. 7.2. 1977, leikari og leikstjóri í Osló. Börn hans með Örnu Ösp Guðbrandsdóttur, arkitekt og fv. maka, eru Arngrímur Ívarsson, f. 6.9. 2003, og Eyrún Sara Ívarsdóttir, f. 21.6. 2007; 2) Daði Sverrisson, f. 9.12. 1978, umhverfishagfræðingur og píanóleikari, starfar hjá Landsvirkjun. Maki: Eyrún Edda Hjörleifsdóttir, kvikari og þýðandi. Börn þeirra eru Sólrún Eldjárn Daðadóttir, f. 17.10. 2012, og Arnaldur Eldjárn Daðason, f. 12.1. 2017.

Systkini Sverris sammæðra eru Sigríður Sigurðardóttir, f. 20.8. 1942, fv. handboltastjarna; og Svanhildur Sigurðardóttir, f. 12.7. 1944, danskennari hjá Dansskóla Heiðars Ástvaldssonar. Systir Sverris samfeðra er Sigríður Hansborg Lílý Guðjónsdóttir, f. 22.6. 1944, býr á Akranesi og starfaði á skrifstofu Tónlistarskólans.

Foreldrar Sverris voru Guðjón Matthíasson, f. 30.4. 1919, d. 14.12. 2003, harmonikkuleikari og hljómsveitarstjóri, og Jakobína Guðríður Guðmundsdóttir, f. 19.6. 1910, d. 2.3. 1985, verkakona og húsmóðir. Þau voru í sambúð og bjuggu í Reykjavík.