Vertíð Bjarni Ólafsson AK á loðnuveiðum veturinn 2017.
Vertíð Bjarni Ólafsson AK á loðnuveiðum veturinn 2017. — Ljósmynd/Daði Ólafsson
Uppsjávarskipin Hákon EA og Bjarni Ólafsson AK fara í næstu viku til loðnuleitar ásamt rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni.

Uppsjávarskipin Hákon EA og Bjarni Ólafsson AK fara í næstu viku til loðnuleitar ásamt rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni. Ætlunin er að ná mælingu á loðnustofninum í janúar og aftur í fyrri hluta febrúar og verða niðurstöðurnar notaðar til grundvallar fiskveiðiráðgjöf vetrarvertíðarinnar, en enginn kvóti hefur verið gefinn út. Í febrúar verða einnig tvö veiðiskip með Árna Friðrikssyni við mælingar.

Samkvæmt samkomulagi Hafrannsóknastofnunar við Samtök fyrirtækja í sávarútvegi koma veiðiskip að þessum rannsóknum í samtals 30 daga, tvö skip í senn. Kostnaður útgerða sem af þessu hlýst er um 60 milljónir og leggur Hafrannsóknastofnun fram 30 milljónir. Ráðherra og ráðuneyti styðja þetta samkomulag, segir í frétt stofnunarinnar.

Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson er á leið í slipp með bilaða vél og er að auki óhentugt í loðnuleit vegna smæðar sinnar. Þess utan er skipið ekki með fellikjöl þannig að það er fljótt slegið út í bergmálsmælingum ef eitthvað er að veðri og sjólagi, segir í fréttinni. aij@mbl.is