Uppgangur Heimsvísitala hlutabréfa hækkaði um tugi prósenta.
Uppgangur Heimsvísitala hlutabréfa hækkaði um tugi prósenta. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is „Að baki er viðburðaríkt ár á fjármálamörkuðum og tilefni til að fagna góðri niðurstöðu fyrir hönd sjóðfélaga.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

„Að baki er viðburðaríkt ár á fjármálamörkuðum og tilefni til að fagna góðri niðurstöðu fyrir hönd sjóðfélaga.“ Þetta segir Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins, þegar hann er inntur viðbragða nú þegar uppgjör fyrir fjárfestingarleiðir sjóðsins fyrir árið 2019 liggur fyrir.

Langstærsta fjárfestingarleiðin, Frjálsi 1, skilaði 12,4% raunávöxtun og 15,4% nafnávöxtun á árinu. Í þeirri leið er um helmingur eigna sjóðsins varðveittur eða um 140 milljarðar króna í eigu um 50 þúsund sjóðfélaga.

„Það er ánægjulegt að greina frá því að á árinu 2019 skilaði fjárfestingarleiðin Frjálsi 1, sinni hæstu raunávöxtun frá árinu 2003.“ Þá bendir hann á að Frjálsi áhætta, sem er mun minni fjárfestingarleið, með fjármuni frá um 250 sjóðfélögum í stýringu, hafi skilað 13,7% raunávöxtun eða 16,7% nafnávöxtun á árinu.

„Það er næsthæsta ávöxtun sem sú leið hefur skilað frá stofnun leiðarinnar 2008.“

Aðrar leiðir skiluðu minni ávöxtun. Þannig nam ávöxtunin á sjóðnum Frjálsi 2 10,4% að nafnvirði og 7,5% raunávöxtun og Frjálsi 3 skilaði 6,2% nafnávöxtun og 3,4% raunávöxtun.

Erlend hlutabréf hækkuðu mest allra eignaflokka

„Þrátt fyrir tíðindi á alþjóðasviðinu á borð við viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína og útgöngu Bretlands úr ESB skilaði heimsvísitala hlutabréfa 25,2% hækkun mælt í Bandaríkjadal sem jafngildir 30,2% í íslenskum krónum vegna veikingar hennar,“ segir hann.

Þá bendir Arnaldur á að ávöxtun hér heima hafi einnig reynst góð.

„Á innlendum skuldabréfamarkaði gekk mjög vel á árinu en helstu drifkraftar voru lækkandi raunvaxtastig og lækkun á verðbólguálagi sem leiddi til hækkunar á virði skuldabréfa.“

Þannig reyndist ávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa á bilinu 5,3% til 23% og ávöxtun verðtryggðra bréfa 3,7% til 8,9%.

„Lengstu skuldabréfin gáfu bestu ávöxtunina og óverðtryggð skuldabréf gerðu almennt betur en verðtryggð vegna lækkunar á verðbólguálagi,“ segir Arnaldur til nánari skýringar. Innlendi hlutabréfamarkaðurinn tók einnig við sér þegar líða tók á árið eftir fremur dapurt gengi misserin á undan að sögn Arnaldar.

„Viðsnúningur átti sér stað á markaðnum eftir erfitt árferði en úrvalsvísitala hlutabréfa hækkaði um 31,4% á árinu. Hækkun vísitölunnar orsakaðist þó að miklu leyti af gengisþróun Marel sem vegur stóran hlut í vísitölunni,“ segir Arnaldur.

Eignir Frjálsa lífeyrissjóðsins námu um 285 milljörðum króna í lok síðasta árs samkvæmt óendurskoðuðu uppgjöri.