Páll Kristinn Pálsson fæddist í Kaupmannahöfn 11. janúar 1990. Hann lést 28. desember 2019.

Foreldrar hans eru Elsa María Ólafsdóttir, f. 20. desember 1963, og Páll Kristinn Pálsson, f. 22. apríl 1956. Systkini hans eru Tryggvi Þór, f. 13. desember 1983, Ólafur Sölvi, f. 21. mars 1984, og Margrét Kristín, f. 15. febrúar 1985. Börn Ólafs Sölva eru Emil, f. 3. september 2014, og Mía Ólafs, f. 23. apríl 2018. Sambýlismaður Margrétar er Helgi Valberg Jensson, f. 25. ágúst 1978. Fyrir á Margrét soninn Pál Sölva Róbertsson, f. 3. ágúst 2013. Fyrir á Helgi þau Arnór, f. 24. apríl 2009, og Thelmu Sigríði, f. 13. október 2012.

Páll Kristinn ólst upp í Kaupmannahöfn fyrstu þrjú ár ævi sinnar en síðar í Reykjavík. Hann bjó hjá foreldrum sínum til ársins 2003 en þá fluttist Páll á sambýlið í Árlandi 9 þar sem hann bjó til ársins 2009 þegar hann fluttist á sambýlið í Hólmasundi 2.

Páll stundaði grunnskólanám í Lyngási og Safamýrarskóla og lauk síðan stúdentsprófi frá sérdeild Fjölbrautaskólans í Ármúla árið 2010. Í framhaldinu sótti hann ýmis námskeið hjá Fjölmennt og tók síðan þátt í vinnu og virkni fyrir fullorðna í Bjarkarási.

Útför Páls Kristins fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 10. janúar 2020, klukkan 15.

Þriggja mánaða veiktist hann Palli bróðir minn af sjúkdómi sem aldrei tókst að fá greindan en hafði í för með sér súrefnisskort til heilans sem aftur leiddi til þess að hann fór í gegnum lífið sem fjölfatlaður einstaklingur. Þrátt fyrir að það sé hlutskipti sem enginn óskar sér og sínum kenndi það okkur sem stóðum honum næst í senn auðmýkt og gleði fyrir lífinu.

Það er ekki sjálfsagður hlutur að fæðast heilbrigður eða halda heilsunni. Líkamlegar takmarkanir Palla giltu þó ekki um persónuleika hans. Hann var lífsglaður, hamingjusamur og kátur drengur. Hann átti aðeins tvær vikur eftir í þrítugasta afmælisdaginn sinn þegar hann dó og því tæpast hægt að kalla hann dreng lengur en Palli var alltaf strákslegur og til í hressilegt sprell og tusk. Hann hafði ríkulegan húmor og átti það jafnvel til að hlæja að óförum annarra þegar sá gállinn var á honum.

Palli elskaði trommuslátt og söng og þá sérstaklega háu tónana og skríkti oftar en ekki þegar lag sem var honum að skapi var á fóninum. Palli elskaði líka vatnið og leið einkar vel þegar hann fékk að fljóta um einn og sjálfur með höfuðkút í ylvolgum sundlaugum.

Palli elskaði þó fjölskylduna sína og vini mest. Hann var sjaldan eins glaður og þegar hann var umkringdur sínu fólki og náði þá oftast hvað mestri slökun. Hann hafði mikla þörf fyrir nánd og fannst ekkert betra en gott knús. Hann var einnig alla tíð vinsæll meðal frændfólks og vina og þar af leiðandi oft heimsóttur á sambýlið. Móðurleggur hans á það til að vera mjög hávær og oftar en ekki var hann búinn að heyra í liðinu úti á bílaplani þegar þau voru að koma í heimsókn. Rak hann þá gjarnan upp hátt og snjallt gól til að lýsa ánægju sinni. Það gerðist líka oft þegar hann sótti aðrar samkomur og tónleika og vakti þá iðulega mikla kátínu meðal viðstaddra.

Í minningunni skipar lagið Beautiful Boy eftir John Lennon sérstakan sess í lífi okkar Palla bróður míns. Þegar ég kom heim úr skólanum síðla dags og Palli bjó enn heima sátu þeir feðgar oftar en ekki saman í stofusófanum; pabbi að spila á gítar og syngja lagið fyrir drenginn sinn, sem sat í fangi hans og hlustaði hugfanginn. Það kom alltaf einstök værð yfir Palla þegar hann heyrði þetta lag. Þannig mun ég alltaf minnast þín elsku Palli minn.

Þín systir,

Margrét Kristín Pálsdóttir (Magga Stína).

Fallin er frá ung hetja, Páll Kristinn Pálsson. Þegar Palli litli fæddist var hann eins og flest önnur börn, heilbrigður og augasteinn fjölskyldu sinnar. Fljótlega eftir fæðingu verður hann veikur af ókunnum orsökum, sem veldur því að hann verður fatlaður. Framtíðin varð því önnur hjá Palla litla og fjölskyldu hans en ráð var fyrir gert.

Það er alltaf erfitt að skilja hvernig annað fólk lifir. En sérstaklega er það erfitt þegar lífið færir fólki í hendur það verkefni að sinna og lifa með fötluðum einstaklingi á hverjum degi. Í fangið á fólki er lagt líf manneskju sem er algerlega ósjálfbjarga og á allt sitt undir því að verða sinnt í stóru sem smáu. Hvernig fer fólk að þessu?

Við þessar aðstæður tefldi fjölskylda Palla, og Palli sjálfur, fram mannkostum sínum í þeirri skák sem lífið er. Og þar var af nægu af taka. Þar má fyrst nefna dugnaðinn og svo léttu lundina. Strax var ákveðið að láta þessa staðreynd ekki taka gleðina úr lífinu, heldur að gera eins gott úr erfiðum aðstæðum og mögulegt er.

Það tókst svo sannarlega. Það var yfirleitt alltaf gaman í kringum Palla og fjölskyldu. Og Palli, sá gat hlegið.

Svo má nefna þær gjafir sem Palli og fólkið hans færði okkur hinum, hvað það er margt sem við megum vera þakklát fyrir í lífinu. Hvernig maður lætur ekki andstreymi ræna sig gleði og hamingju. Hvernig fólk tekur að sér krefjandi verkefni og vinnur þau svo vel að sómi er að. Aldrei var kvartað undan hlutskiptinu, slíkt var æðruleysið. Því líf Palla var þeirra líf og þeirra líf var hans líf. Líf þeirra var ofið saman sem einn þráður væri. Alltaf var passað upp á það að Palli væri með og það virtist gerast fyrirhafnarlaust. Þó ég viti að þannig var það ekki.

Svo má ekki gleyma þeim sem önnuðust Palla á þeim tveimur sambýlum þar sem hann bjó. Þar leið honum vel og eignaðist hann marga vini sem önnuðust hann langt umfram starfsskyldur sínar. Mér er ofarlega í huga þakklæti til þessa fólks sem vinnur þessi óeigingjörnu störf og reyndist honum Palla mínum vel.

Elsku Palli, Elsa, Óli, Tryggvi og Magga. Ég votta ykkur mína dýpstu samúð á erfiðum tímum. Blessuð sé minning Páls Kristins Pálssonar.

Sölvi Ólafsson.

Elsku Palli.

Þú varst alltaf minn besti frændi og það var alltaf gaman að koma í heimsókn til þín. Það var líka alltaf gaman að hlusta á tónlist heima hjá þér, spila, fara í spjaldtölvuna og lesa fyrir þig.

Vona að þú hafir það gott á himninum.

Þinn

Páll Sölvi.

Í dag verður kær mágur minn borinn til grafar og við slíkar aðstæður verður manni orða vant. Gleði, kærleikur og æðruleysi einkenndu Páll Kristin og þá góðu eiginleika ættu allir að reyna að tileinka sér. Ekkert á lífsins braut er sjálfgefið eða sjálfsagt. Það hefur Páll Kristinn kennt okkur öllum.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki er gjöf sem gleymist eigi

og gæfa var það öllum er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Fjölskylda og vinir kveðja Pál Kristin í dag, en hann verður áfram í hjarta okkar.

Helgi Valberg Jensson.

Elsku yndislegi Palli litli okkar.

Þó að það sé erfitt að þurfa að kveðja þig er ómögulegt að minnast þín án þess að fyllast þakklæti. Þakklæti fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman, allan hláturinn og gleðina. Þakklæti fyrir allt sem þú kenndir okkur og allt sem þú skilur eftir þig. Þú stækkaðir í okkur hjartað, elsku fallegi frændi okkar. Við vitum að einhvers staðar er amma að snúa þér í hringi í villtum dansi á einhverju geggjuðu balli. Hvíldu í friði, elsku Palli okkar, við elskum þig.

Þínar frænkur,

Dagmar, Margrét

og Theódóra.

Loks beygði þreytan þína dáð,

hið þýða fjör og augnaráð;

sú þraut var hörð – en hljóður nú

í hinsta draumi brosir þú.

(Jóhannes úr Kötlum)

Palli var ætíð hvers manns hugljúfi. Hann bjó í um 10 ár í íbúðakjarnanum Hólmasundi og það er enn óraunverulegt að hugsa til þess að þau verði ekki fleiri. Það var svo margt fram undan; stórafmælisveisla, nýr og glæsilegur stóll, alls kyns tónleikar og leiksýningar og fleiri upplifanir sem við hlökkuðum til að deila með honum.

Palli kenndi okkur að það þarf oft ekki orð til að segja svo ótal margt. Með svipbrigðum og líkamstjáningu gat hann sagt okkur allt milli himins og jarðar og brosið eitt var nóg til að bræða alla í kringum hann. Það er eftirsjá að þessu yndislega brosi og eftir situr tómleiki í hjörtum þeirra sem þekktu Palla. Þótt líkaminn hafi ekki getað meir svífur andi hans yfir öllu og við sjáum hann ljóslifandi fyrir okkur, hlaupandi um og hlakkandi yfir öllum sögunum og leyndarmálunum sem við deildum með honum.

Blíðari sál er vart hægt að hugsa sér og sama hvert ferð hans er nú heitið vitum við að hann mun halda áfram að heilla alla upp úr skónum.

Um leið og við vottum fjölskyldu og vinum Palla dýpstu samúð okkar viljum við þakka starfsfólki bráðamóttöku og lungnadeildarinnar í Fossvogi fyrir sýnda umhyggju og hlýhug.

Fyrir hönd starfsfólks og íbúa í Hólmasundi 2,

Árni Viðar Þórarinsson.

Halló halló Hafnarfjörður! Svona heilsuðumst við alltaf og þér þótti það alltaf jafn fyndið! Stuðpinninn sem þú varst, ófarasögur, slúður og leyndarmál voru það besta og brostir þú alltaf manna mest þegar talið barst að þessum málum. Við kynnumst fyrir tæpum sex árum en mér finnst eins ég hafi þekkt þig miklu lengur. Við erum búin að bralla svo margt saman; bústaðir, tónleikar, leikhúsferðir og ekki má gleyma lestrar- og tónlistarsöngstundunum í sófanum þínum. Endalausar minningar sem mér þykir svo vænt um. Þú kenndir mér svo ótal margt um lífið, sama hvað bjátaði á, það leyndist alltaf risastórt bros bak við allt og þú sýndir og sannaðir hvað þú varst mikil hetja í einu og öllu. Elsku yndislegi og brosmildasti Palli minn, ég trúi því varla að þú sért búinn að kveðja okkur. Stórt skarð höggvið í líf okkar sem fengum að deila með þér ævidögunum. Margt var á döfinni hjá okkur báðum sem við ætluðum að fagna saman; þrítugsafmæli hjá þér og ég að verða mamma. Ég hlakkaði mikið til að kynna strákinn minn fyrir þér. Það gladdi mig svo mikið að þegar ég hvíslaði að þér óléttunni fyrir sex mánuðum, brást þú við með risabrosi og gleðihlátri sem ég mun aldrei gleyma. Heimsóknirnar og stundirnar okkar saman verða ekki fleiri í bili en eftir sitja allar minningarnar sem ég mun minnast og segja litla stráknum mínum frá þegar fram líða stundir.

Elsku Palli, Elsa og fjölskylda, ég votta ykkur innilega samúð vegna fráfalls Palla.

Takk fyrir allt saman elsku prinsinn minn eins og ég kallaði þig svo oft. Ég kveð þig með miklum söknuði elsku Palli og enda þetta á því sem ég sagði alltaf við þig í lok hvers dags sem við eyddum saman:

Góða nótt og sofðu rótt í alla nótt og dreymi þig vel.

Þín vinkona,

Guðbjörg Arney

Marinósdóttir (Gugga).