Baldur Arnarson baldura@mbl.is Atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara jókst mun meira í fyrra en meðal íslenskra ríkisborgara. Jafnframt jókst það fyrr meðal erlendra ríkisborgara.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara jókst mun meira í fyrra en meðal íslenskra ríkisborgara. Jafnframt jókst það fyrr meðal erlendra ríkisborgara. Er atvinnuleysi í prósentustigum meðal erlendra ríkisborgara nú álíka mikið og 2013. Þetta má lesa úr greiningu Analytica á tölum VMST og Hagstofunnar.

Yngvi Harðarson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri Analytica, segir athyglisvert að atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara hafi aukist meira í prósentustigum talið en meðal íslenskra ríkisborgara. Ein skýringin kunni að vera brottflutningur íslenskra ríkisborgara.

Eykst jafnan á undan

Athyglisvert sé að atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara virðist hafa tilhneigingu til að aukast áður en það eykst meðal Íslendinga.

„Þannig gæti verið unnt að álykta um ókomið atvinnuleysi meðal Íslendinga á grunni upplýsinga um breytingar á atvinnuleysi erlendra ríkisborgara,“ segir Yngvi.

Þá hafi atvinnuleysi erlendra ríkisborgara verið meira en meðal íslenskra ríkisborgara í uppsveiflunni. Munurinn hafi hins vegar verið orðinn lítill í ársbyrjun 2017 þegar erlent verkafólk missti vinnu í sjómannaverkfallinu. Síðan hafi fleiri erlendir ríkisborgarar en íslenskir misst vinnu í niðursveiflunni. Um 7.600 manns voru án vinnu í nóv. sl., þar af 3.300 erlendir ríkisborgarar.