Austurbæjarskóli Foreldrar barna í Austurbæjarskóla sóttu börn sín í skólann vegna veðurs.
Austurbæjarskóli Foreldrar barna í Austurbæjarskóla sóttu börn sín í skólann vegna veðurs. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rósa Margrét Tryggvadóttir rosa@mbl.is Vonskuveður var víða um land í gær og er áfram útlit fyrir slæmt veður á landinu samkvæmt athugasemdum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Vonskuveður var víða um land í gær og er áfram útlit fyrir slæmt veður á landinu samkvæmt athugasemdum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Ýmis óþægindi hafa fylgt óveðrinu en raskanir hafa orðið á flugi upp á síðkastið og ágangur sjávar hefur verið óvenjumikill, meðal annars á Granda í Reykjavík.

Icelandair tilkynnti á vefsíðu sinni í gær að gripið hefði verið til niðurfellinga og seinkana á flugi sökum ofsaveðurs í Keflavík. Átta flugferðum sem áætlaðar voru í gær var aflýst ásamt einu flugi sem átti að fara í morgun. Þá urðu seinkanir á tíu flugferðum Icelandair.

Foreldrar sóttu börn sín

Appelsínugul viðvörun var í gildi við Breiðafjörð og á Vestfjörðum en gul viðvörun var meðal annars á höfuðborgarsvæðinu. Voru foreldrar og forráðamenn barna á svæðinu hvattir til að sækja börn sín í lok skóla eða frístundastarfs samkvæmt tilkynningu frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, deildarstjóra almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Sjór flæddi yfir á endurvinnslustöð Sorpu í Ánanaustum í gærmorgun vegna óheppilegrar vindáttar og hárrar sjávarstöðu að því er fram kom á mbl.is í gær. Eitthvert tjón varð vegna flóðsins en mbl.is hafði eftir Tryggva Ólafssyni, rekstrarstjóra endurvinnslustöðva Sorpu, að of snemmt væri að segja hversu mikið tjónið væri.

„Það er fyrst og fremst að girðingin brotnaði og inn á stöðina kom snjór, sandur og grjót. Niðurföll stífluðust og sjór flýtur út um allt. Einnig eru smáskemmdir á húsi á svæðinu,“ sagði hann.

Allt að 25 m/s voru á vestanverðu landinu og nokkur éljagangur á Suður- og Vesturlandi sem og á Vestfjörðum en Landsnet tilkynnti á Facebook-síðu sinni í gær að snark og glæringar hefðu aukist verulega vegna éls sem gekk yfir Vesturlandið og því hefði verið brýnt að halda spennunni áfram lágri.

Há sjávarstaða væntanleg

Landhelgisgæslan vakti athygli á hárri sjávarstöðu um og eftir helgi á vef sínum í gær en stórstreymt á að verða á sunnudaginn. Starfsmenn Gæslunnar hvetja þá sem eiga skip við bryggju til að hafa það í huga.