Ásmundur Jónsson var fæddur í Ási í Hegranesi 28. ágúst 1928. Hann lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi 31. desember 2019.

Hann var næstelstur 10 systkina og foreldrar hans voru Jón Sigurjónsson, fæddur á Bessastöðum í Sæmundarhlíð 16. júní 1896 og lést í Ási 3. júlí 1974, og Lovísa Jónína Guðmundsdóttir, fædd í Ási 7. september 1904 og lést á Sauðárkróki 19. febrúar 1988.

Systkini Ásmundar eru: Hilmar, fæddur 13. maí 1927 og lést 19. júlí 1992. Ókvæntur og barnlaus. Björgvin, fæddur 28. ágúst 1929 og lést 17. september 2000. Kona hans er Jófríður Tobíasdóttir og þau eiga tvo syni. Sigurður Gísli, fæddur 14. mars 1931 og lést 19. mars 2015. Kona hans er Guðlaug Sigfúsdóttir og þau eiga tvö börn en Guðlaug átti einn son fyrir. Ingimar, fæddur 10. maí 1932 og lést 2. mars 1962. Ókvæntur og barnlaus. Ólafur, fæddur 16. apríl 1934 og lést 27. febrúar 1991. Kona hans var (skildu) Ingibjörg Eðvaldsdóttir og þau eiga einn son. Jóhanna Aðalheiður, fædd 24. nóvember 1939. Eiginmaður hennar er Steingrímur Lilliendahl og þau eiga tvær dætur. Þórunn, fædd 6. september 1941 og lést 27. júní 2019. Eiginmaður hennar var Sigurjón Björnsson en hann lést 1. október 1993. Þau áttu þrjú börn og Sigurjón átti fyrir eina dóttur. Magnús Gunnar, fæddur 17. mars 1943 og lést 22. júlí 2013. Kona hans er Guðríður Valtýsdóttir og þau eiga þrjú börn. Sigurlaug Stefanía, fædd 3. ágúst 1947. Eiginmaður hennar er Gunnar Guðbjartsson og þau eiga einn son.

Ásmundur kvæntist Birgit Andersdóttur 21. júní 1958 en hún er fædd í Vestmannaeyjum 22. ágúst 1935. Foreldrar hennar voru hjónin Anders Bergesen Hals, fæddur 5. október 1908, dáinn 22. september 1975, og Sólveig Ólafsdóttir, fædd 23. september 1913, dáin 27. júní 2000.

Börn Ásmundar og Birgit eru: Jón Anders, fæddur 7. apríl 1958. Sambýliskona hans er Mette Korsmo. Guðmundur Ólafur, fæddur 18. nóvember 1959, kvæntur Ingveldi Jónsdóttur og börn þeirra eru Birgir, fæddur 27. október 1985, Berglind, fædd 20. nóvember 1987, Davíð, fæddur 27. nóvember 1991 og Hilmar, fæddur 23. ágúst 1999. Sólveig Margrét, fædd 5. ágúst 1962 gift Gísla Guðmundssyni en hann lést 21. maí 2019. Þau eiga tvo syni, Ásmund Óla, fæddan 6. apríl 1993 og Aron Frey, fæddan 15. mars 1997, en Gísli á fjögur börn úr fyrri sambúð. Lovísa Björg, fædd 14. júlí 1963. Bergur Martin, fæddur 10. maí 1969. Sambýliskona hans er Bettina Seifert.

Ásmundur var rennismíðameistari og vann stærstan hluta starfsævinnar í Vélsmiðjunni Magna og í Skipalyftu Vestmannaeyja.

Útför hans fer fram frá Lindakirkju í Kópavogi í dag, 10. janúar 2020, klukkan 13.

„Ég hef alltaf verið sólarmegin í lífinu“. Þetta sagði pabbi þegar hann bauð gesti velkomna í 90 ára afmæli sitt fyrir rúmu ári síðan enn teinréttur og kvikur í hreyfingum. Hugsunin var skýr og minnið sterkt og það var með engu móti hægt að sjá að hann væri orðinn þetta fullorðinn. Viðhorfið til lífsins og umhverfisins einkenndist alla tíð af jákvæðni og umhyggja og hlýja í fyrirrúmi í öllum samskiptum.

Hann var alinn upp í sveitaumhverfi þess tíma þar sem unnið var myrkranna á milli og þannig var það alla tíð. Hann fór snemma dags í vinnu og kom seint heim og því voru frístundirnar ekki margar meðan börnin voru að vaxa úr grasi. Hann hafði samt alltaf tíma fyrir það sem þurfti að gera heima og sá vel um heimilið og fjölskylduna. Á uppvaxtarárum barnanna var ekki framhaldsskóli í Eyjum og þó það væri dýrt að senda fimm börn í nám upp á land var það gert og eftir að vinnudegi í vélsmiðjunni lauk fór hann á tímabili í fiskvinnslu á kvöldin og um helgar ef þannig stóð á. Hann vildi að við yrðum sem best undirbúin undir lífið og hvatti okkur til að leggja stund á það sem við vildum sjálf.

Jón afi var kirkjuorganisti í áratugi og systkinin frá Ási fengu öll söngþjálfun í uppvextinum. Í æskuminningunni gekk hann oft um heima syngjandi með lögum í útvarpi eða af hljómplötum. Röddin var fögur tenórrödd og söngurinn var hans áhugamál.

Það voru farnar margar bílferðir um Heimaey enda naut hann þess að horfa á náttúruna í öllum sínum fjölbreytileika. Tengslin við Skagafjörð voru alltaf sterk og við Jón bróðir vorum sendir í sveit til ömmu og afa ungir og vorum þar í mörg sumur. Það var mikil gæfa að fá að kynnast því umhverfi og föðurfólkinu og fyrir það verð ég ævinlega þakklátur. Skagafjörður var pabba alltaf hugleikinn og hann var alltaf mikill Skagfirðingur ekki síður en Eyjamaður. Hann ræktaði tengsl við ættingja sína og fylgdist vel með og var mjög fróður um heimahagana. Hann fæddist í timburhúsi sem var reist í Ási rétt eftir 1880 og það gladdi hann mjög þegar húsið var afhent Byggðasafni Skagfirðinga til varðveislu og það flutt í Glaumbæ til endurbyggingar árið 1991. Þar eru á veggjum myndir frá uppvaxtarárum hans og á ferðum sínum um Skagafjörð kom hann alltaf við þar. Fyrir nokkrum árum vorum við í sumarbústað í Hjaltadal í vikutíma og mamma og pabbi með. Þá var farið víða um fjörðinn og komið við í Áshúsinu og það var ógleymanlegt.

Pabbi var alltaf heilsuhraustur maður en um mitt ár 2019 uppgötvaðist meinsemd og því þurfti hann að leggjast inn á spítala í stuttan tíma. Honum leið vel eftir að hann kom heim en hafði á orði eftir sjúkrahúsleguna að nú fyrst fyndist honum hann vera að eldast. Hann þurfti aftur að fara inn á sjúkrahús stuttu fyrir jól og sagði þá að nú væri hann að verða gamall.

Það er sárt að kveðja en að leiðarlokum er efst í huga þakklæti fyrir allt sem hann gerði fyrir okkur öll og minning um góðan og mildan mann er dýrmæt. Hjartans þakkir fyrir allt.

Guðmundur Ásmundsson.

Pabbi fæddist í Ási í Hegranesi en þó að hann hafi búið lengst af í Vestmannaeyjum var hann mikill Skagfirðingur og segja má að hann hafi í raun aldrei yfirgefið Skagafjörðinn. Fyrir utan margar heimsóknir á æskustöðvarnar þá hringdi hann stundum norður til að frétta hvernig gengi í sveitinni. Fyrst í systkini sín og síðar jafnvel í systkinabörn þegar systkinunum fækkaði. Hann starfaði sem rennismiður mestan hluta lífsins en átti það líka til að skella sér í aðgerð á kvöldin og um helgar yfir vetrartímann. Hann hafði enda komið nokkrum sinnum til Eyja frá Skagafirði upp úr tvítugu til að taka þátt í vetrarvertíðum. Hann var vanur erfiðisvinnu úr íslenskri sveit og var því alla tíð hraustur og vanur löngum vinnudegi. Hann vann lengi í vélsmiðjunni Magna og síðar Skipalyftunni og ég man að oft á tíðum gekk hann heim úr vinnu frá Skipalyftunni út á Eiði og alla leið upp á Strembugötu. Hann var nokkuð hraustur alveg þangað til fyrir nokkrum mánuðum að krabbameinið sem að lokum lagði hann að velli fór að segja til sín. Hann fór stundum í stutta göngutúra eftir að hann var kominn á eftirlaun og fluttur til Reykjavíkur og síðasta sumar var hann ennþá að rölta út nokkrar mínútur öðru hvoru í nánd við Kópavogstúnið, að vísu með staf eða göngugrind sér til halds og trausts.

Hann fylgdist alla tíð og allt fram á síðasta dag mjög vel með fréttum og mannlífi bæði í blöðum sem og í útvarpi og sjónvarpi. Þó að við værum mjög líkir í útlíti og stundum háttum þá deildum við ekki alltaf sömu skoðunum á lífinu og tilverunni en hann hafði það aldrei á móti mér. Hann var mikill fjölskyldumaður sem alltaf stóð með sínum. Bestu stundirnar voru þegar við sátum einir saman yfir kaffibolla við eldhúsborðið í Seljalandinu eða í stofunni í Kópavogstúninu. Það voru líka einstakar stundir að fá að sitja og halda í höndina á þér síðustu klukkustundirnar á líknardeildinni. Ég veit að þú kvaddir sáttur við allt og alla. Ég veit líka að þér þótti afskaplega vænt um Bettinu. Við kveðjum þig með söknuði pabbi minn.

Bergur Martin.

Tengdafaðir minn Ásmundur Jónsson lést á gamlársdagskvöld eftir stutta legu.

Ég kynntist Ása fyrir tæpum fjörutíu árum þegar við hjónin byrjuðum búskap. Ási og Bigga bjuggu þá í Vestmannaeyjum og ég man ljóslifandi eftir því þegar við heimsóttum þau í fyrsta skipti til Eyja.

Það fyrsta sem ég sá var Ási með svuntu í eldhúsinu á fullu að elda. Þetta er mér svo minnisstætt vegna þess að á þessum tíma var ekki algengt að menn af hans kynslóð væru liðtækir í heimilisstörfum. Mér var strax tekið opnum örmum og betri tengdaföður var ekki hægt að hugsa sér.

Ásmundur var fæddur og uppalinn í Hegranesi í Skagafirði en fluttist þaðan til Vestmannaeyja rúmlega þrítugur og bjó til ársins 1998 en þá fluttust þau hjónin upp á land til að vera nær afkomendum sínum.

Við bjuggum eitt ár í Vestmannaeyjum og vorum þá daglegir gestir á Strembugötunni og þá var margt spjallað og mikið hlegið við eldhúsborðið og alltaf þótti sjálfsagt að við værum í mat, það munaði ekkert um að bæta okkur við matarborðið.

Það var alltaf svo gott að koma til Biggu og Ása, ró yfir öllu og auðséð að þau nutu þess að vera umkringd börnum og barnabörnum, það fór sko ekki framhjá neinum hversu stolt þau voru af öllum hópnum.

Börnin okkar áttu vísan samstað hjá Ása og Biggu og tvö þau elstu bjuggu hvort á sínu tímabilinu hjá þeim í Reykjavík og þá var sko dekrað við krakkana og ekki kom til mála að fá að borga fyrir viðvikið.

Fjölskyldan er mjög samhent og ég á margar góðar minningar um samverustundir fjölskyldunnar. Meðal annars á jólunum en eftir að þau fluttu upp á land hefur fjölskyldan ætíð komið öll saman á aðfangadag með tilheyrandi látum og ekki leiddist Ása að horfa á barnabörnin rífa upp jólapakkana.

Ási var fróður maður, fylgdist vel með fréttum og sérstaklega því sem var að gerast í Skagafirði enda þótti honum svo innilega vænt um sveitina sína. Þegar við hjónin fluttum norður tók ekki langan tíma að skilja af hverju, það er eitthvað alveg sérstakt við Hegranesið.

Ási var glæsimenni með þykkt og fallegt rautt og að lokum silfurgrátt hár, hann bar aldurinn vel og gekk teinréttur allt fram á síðustu stundu. Hann var alla tíð heilsuhraustur og keyrði á Selfoss eins og ekkert væri þar til í sumar að lasleiki fór að gera vart við sig og þá fyrst taldi hann sig vera að verða gamlan. Fjölskyldan hittist líka alltaf á gamlárskvöld hjá Sollý mágkonu minni. Það verður tómlegt næstu áramót að hafa ekki Ása með í okkar árlegu hefð að fylgjast, í sjónvarpinu, með gamla árinu að kveðja og nýju ári að byrja.

Blessuð sé minning góðs manns.

Ingveldur Jónsdóttir (Inga).

Elsku afi. Fyrstu minningarnar af þér eru frá Vestmannaeyjum þegar við komum í heimsókn. Allt var svo spennandi hjá þér og ömmu. Járnstangirnar í forstofunni sem var harðbannað að klifra upp en okkur systkinin fékkstu ekki stoppað og við fengum stundum smá hjálp frá afa sjálfum þrátt fyrir bannið. Ein bestu jólin voru hjá ykkur ömmu þegar ég var ungur pjakkur. Þegar þið amma fluttuð til Reykjavíkur til að vera nær okkur þá gat maður blessunarlega hitt ykkur oftar. Þegar ég byrjaði í háskólanum fékk ég að búa hjá ykkur í þrjú ár og alltaf fann maður fyrir mikilli hlýju og ást. Þegar ég var frekar þreyttur á skólanum var mikill stuðningur frá ykkur og oft var mjög þægilegt að sofna í sófanum ykkar yfir fréttatímanum sem var heilagur fyrir þér.

Þú varst alltaf tilbúinn að hjálpa með allt hvenær sem var. Þegar ég útskrifaðist úr háskólanum flutti ég norður í land og svo til Noregs vegna vinnunnar og því hittumst við minna en ég hefði óskað síðustu árin. Alltaf var maður jafn glaður að hitta þig og ömmu aftur. Þótt heilsunni hefði hrakað varstu alltaf duglegur að hreyfa þig og miðað við aldurinn unglegur. Seinustu mánuðina fannst mér hálferfitt að vera í burtu frá þér í Noregi. Ég er þó þakklátur fyrir að hafa getað verið með þér á mikilvægum augnablikum seinustu mánuðina. Þakklátastur er ég þó fyrir að hafa fengið að hitta þig og spjalla við þig rétt áður en þú lést. Ég fann mynd í símanum mínum sem endurspeglar þig fyrir mér. Brosandi afi við eldhúsborðið, líkast til búinn að lesa fréttablöð dagsins tvisvar sinnum. Ég mun minnast þín restina af lífinu og taka þig mér til fyrirmyndar. Kæru þakkir fyrir að hafa fengið þig sem afa minn.

Birgir (Biggi) Guðmundsson.

Það er aldrei auðvelt að skrifa minningargrein, hvað þá um einhvern jafn hlýjan og traustan og þig, elsku afi. Það hefur þó gefið okkur systkinunum tækifæri til að hugsa til baka um allar fjölskyldusamkomurnar sem og aðrar notalegar stundir sem við áttum með þér. Þá má heldur ekki gleyma öllum ævintýrunum sem þú upplifðir með okkur, líkt og ferðalög okkar um landið og heimsóknirnar til ykkar ömmu í Vestmannaeyjum. Þar munum við sér í lagi eftir bröltinu í rimlunum hjá stiganum og pysjuveiðarnar sem þú varst svo duglegur að hjálpa okkur með. Þegar litið er til baka þá stendur upp úr að þú varst ætíð brosandi, enda varstu jákvæður, brosmildur og með lúmskan húmor. Umhyggjan og stuðningurinn sem þú sýndir okkur alla tíð, bæði í orðum og í verki, er ómetanlegur og munum við hafa hann með okkur áfram inn í lífið. Við lærðum mikið af þér enda erfitt að finna sterkari fyrirmynd. Þú sýndir jafnframt ávallt gott fordæmi, bæði með umhyggjusemi og sanngirni, og munum við ætíð bera þann lærdóm með okkur.

Elsku afi, þín verður sárt saknað!

Berglind, Davíð og Hilmar Guðmundarbörn.