Jaap Schröder fæddist í Amsterdam 31. desember 1925. Jaap lést í Amsterdam 1. janúar 2020. Hann nam fiðluleik í París, hjá Calvet og Pasquier við École Jacques Thibaud, og tónlistarfræði við Sorbonne-háskóla. Eftir tæplega tveggja áratuga starf með Hollenska strengjakvartettinum hóf Jaap að einbeita sér að spurningum um hljóm og stíl í flutningsmáta tónlistar 17. og 18. aldar með hljóðfærum þess tíma og var hann einn fremsti frumkvöðull þeirrar hreyfingar. Jaap starfaði m.a. með Concerto Amsterdam, Quartetto Esterhazy og Smithsonian String Quartet. Jaap var einnig kennari m.a. við Schola cantorum basilienses og Yale-háskóla. Árið 1993 tók hann að sér leiðarahlutverk með Bachsveitinni í Skálholti og nokkrum árum síðar stofnaði hann Skálholtskvartettinn sem hann leiddi í tvo áratugi, en síðustu tónleikar kvartettsins voru í Skálholti sumarið 2015. Jaap lék einnig reglulega einleik á Sumartónleikum í Skálholti, m.a. allar sónötur J.S. Bachs með Helgu Ingólfsdóttur semballeikara. Auk starfa sinna í tengslum við Sumartónleika í Skálholti kom hann oft fram á tónleikum víðar á Íslandi, m.a. nokkrum sinnum í dómkirkjunni á Hólum. Jaap gaf Skálholtsstað drjúgan hlut af sínu mikla bóka- og nótnasafni. Útgefnar plötur með leik Jaaps eru yfir 150 talsins. Á Íslandi gaf Smekkleysa út nokkra geisladiska hans, bæði einleik og með Bachsveitinni og Skálholtskvartettinum auk diska með fiðlu- og sembalsónötunum fyrrnefndu. Jaap hlaut fálkaorðuna árið 2001 fyrir störf í þágu tónlistarlífs á Íslandi. Eiginkona Jaaps, Agnes, sem var barnalæknir, kom með honum í Íslandsferðirnar á meðan hennar naut við, en hún lést fyrir nokkrum árum. Þau eignuðust þrjár dætur, Laurence, Marion og Cécile.

Útför hans og sálumessa fer fram í Méreau í Frakklandi í dag, 10. janúar 2020.

Það var mikið gæfuspor þegar ég þekktist boð Helgu Ingólfsdóttur, semballeikara og stofnanda Sumartónleika í Skálholtskirkju, um að taka þátt í að flytja strengjakvartettana Sjö orð Krists á krossinum eftir Joseph Haydn í Skálholti með Jaap Schröder sumarið 1996. Hann var þá sjötugur og hefði það getað orðið með síðustu tækifærunum til að spila með þessum mikla meistara. En það reyndist öðru nær. Það varð aðeins byrjunin á ævintýri sem stóð í tvo áratugi. Auk árlegra tónleika og hljóðritana á Sumartónleikum í Skálholti ferðuðumst við saman víðs vegar um heiminn með Skálholtskvartettinum, stundum nokkrum sinnum á ári, í samstarfi við tónlistarfrömuði sem Jaap hafði áður unnið með. Oft var Stefanía konan mín og börnin okkar með í för, þannig að við fengum öll að kynnast Jaap og njóta samvista við þennan einstaka persónuleika. Fyrir hljóðfæraleikara eins og mig sem var frekar stutt kominn á ferlinum var það augljóslega einstakt lærdómsferli að fá að njóta reynslu Jaaps og vinna með honum að tónleikahaldi og hljóðritunum af þeirri stærðargráðu sem úr varð. Jaap var óþrjótandi uppspretta fróðleiks, húmors og lífsgleði. Örlæti Jaaps var takmarkalaust, og ástríða hans fyrir því að miðla þekkingu sinni var hrífandi. Íslenskt tónlistarfólk og tónlistarlíf hlaut ríflegan skerf af þeirri auðlind. Hann var agaður og skipulagður og var alltaf kominn nokkrum skrefum á undan hinum, búinn að kryfja allt til mergjar í því sem verið var að vinna að hverju sinni og þar að auki streymdu óhindrað frá honum nýjar hugmyndir að framtíðarverkefnum sem héldu áfram að verða að veruleika fram á níræðisaldur. Hann var einstök fyrirmynd. Ekki aðeins í tónlistarlegu tilliti heldur á allan hátt sem manneskja og kær vinur. Samband hans og Agnesar eiginkonu hans var einstaklega náið. Á meðan hennar naut við kom hún oftast með honum í Skálholt. Ég og fjölskylda mín þökkum Jaap Schröder fyrir ómetanlega og ógleymanlega vináttu og tryggð.

Sigurður Halldórsson.

Í dag verður Jaap Schröder fiðluleikari, kær vinur og lærimeistari, lagður til hinstu hvílu í kirkjugarði St. Martin í Méreau í Frakklandi. Hann náði 94 ára aldri á gamlársdag 2019 og lést á nýársdag 2020. Méreau er lítið sveitaþorp í Cher-héraði í Frakklandi, um 220 km suður af París. Eiginkona Jaaps, Agnes, lést fyrir nokkrum árum, en fjölskylda hennar hafði átt kastalann Les Murs í nágrenni Méreau frá því eftir byltinguna 1789. Þau Agnes og Jaap tóku við herragarðinum að foreldrum Agnesar látnum og dvöldust þar á sumrin. Auk ótrúlegra vistarvera eru þarna varðturnar, síki í kringum varnarveggina, dúfnahús mikið og úr stóru eikartré hangir róla.

Það var mér mikið lán að kynnast þeim heiðurshjónum Jaap og Agnesi í Skálholti um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Jaap var þar kominn til að leiðbeina okkur í leik á barokkhljóðfæri og varð strax okkar mentor, fyrst í barokktónlist og síðar í tónlist klassíska tímabilsins eftir að hann stofnaði Skálholtskvartettinn 1997 með okkur Svövu Bernharðsdóttur og Sigurði Halldórssyni. Jaap var einn þekktasti fiðluleikari heims í leik á upprunahljóðfæri og hafði leitt hljómsveitir og strengjakvartetta um áratugaskeið. Þegar um hægðist hjá honum tók hann ástfóstri við Ísland og dvöldu þau hjónin í Skálholti á hverju sumri í um tvo áratugi. Jaap leiddi og leiðbeindi Barokksveitinni í Skálholti, lék einleik, lék með Skálholtskvartettnum og verkin voru mörg tekin upp til útgáfu.

Á 25 ára afmæli Kammersveitar Reykjavíkur 2008-9 flutti Jaap með Kammersveitinni alla Brandenborgarkonserta Bachs sem einnig voru teknir upp og gefnir út hjá Smekkleysu. Fékk sú útgáfa einróma lof í íslenskum blöðum og erlendum tímaritum og hlaut Kammersveitin Íslensku tónlistarverðlaunin 2013 fyrir útgáfuna.

Um alla Evrópu og víða í Bandaríkjunum átti Jaap góða vini sem opnuðu okkur Skálholtskvartettnum dyr að glæstum sölum og fögrum kirkjum þegar Jaap langaði að koma og leika Schubert, Mozart og Haydn. Þessar ferðir okkar á næstum hverju sumri í 10 ár voru oftast undirbúnar í vikulangri dvöl í Les Murs. Gjarnan var það í byrjun vors og er ógleymanlegt að hafa dvalið með þeim hjónum þar. Ég hafði yndi af að aka á frönsku sveitavegunum og bauðst til að kaupa inn og bætti þá gjarnan við vorboðanum begóníu handa Agnesi fyrir blómapottana útivið. Agnes kunni því vel þegar einhverjir voru með sem töluðu frönsku og var einstaklega gaman að spreyta sig á heimspekilegum samræðum við hana.

Ferðirnar með Skálholtskvartettnum tóku okkur víða, til Lubliana, í Esterhazy-höllina í Ungverjalandi, til Napoli og Capri, Mallorca, allt í kringum Méreau, til Norðvestur-Frakklands, í frönsku Alpana, víða um Holland og til Boston og New Haven í Bandaríkjunum. Í Skálholti dvöldum við vikum saman hvert sumar við tónleikahald og upptökur. Jaap var það kappsmál að ná að taka upp sem mest af kammermúsík Schuberts. Í þeirri útgáfu spilum við strengjakvartettana og strengjakvintettinn þekkta með honum.

Blessuð sé minning Agnesar og Jaaps Schröder.

Rut Ingólfsdóttir

Það var mikil gæfa fyrir konu mína sálugu, Helgu Ingólfsdóttur semballeikara, þegar hinn virti fiðluleikari Jaap Schröder gerðist liðsmaður Sumartónleikanna í Skálholtskirkju fyrir nær aldarfjórðungi. Þátttaka hans við uppbyggingu Bachsveitarinnar í Skálholti og Skáholtskvartettsins var mikil hvatning fyrir þessa tónlistarhátíð Helgu. Einn af hápunktunum á ferli hennar var samleikur þeirra Jaaps á öllum sex sónötum Bachs fyrir fiðlu og sembal, sem þau fluttu tvisvar í heild í Skálholti og var síðan gefinn út á hljómdiskum.

Jaap og kona hans Agnes unnu Skálholti, kirkjunni, staðnum og fjallahringnum. Jaap, sem var iðinn myndasmiður, fór oft á kreik um miðja nótt til að fanga húm sumarnæturinnar á filmu. Á Sumartónleikunum gistu þau í Skálholtsskóla. Agnes lagði ríka áherslu á að hún gæti alltaf haft kirkjuna fyrir augunum hvar sem hún var í skólahúsinu.

Jaap Schröder var ekki aðeins mikill tónlistarmaður og tónlistarfræðingur heldur líka baráttumaður fyrir mannréttindum, frelsi og lýðræði. Þetta endurspeglaðist í bókasafni hans, en drjúgan hlut þess gaf hann Skálholtsstað. M.a. lagði hann sig eftir að safna ritum Thomasar Jeffersons, þriðja forseta Bandaríkjanna, sem Jaap taldi einn ötulasta talsmann þeirra gilda sem hann mat hvað mest. Vissi hann þó vel að Jefferson var ekki við eina fjölina felldur í þeim efnum enda tvístígandi í afstöðu sinni til þrælahalds. Jefferson var líka frumkvöðull á sviði kosningafræða, svo þannig mættust áhugamál okkar beggja.

Ég minnist Jaaps Schröders fyrir tónlistina, manngæskuna og vináttuna við okkur, konu mína sálugu og mig. Blessuð sé minning hans.

Þorkell Helgason

Það var örlagaríkt þegar ég ákvað að bregða mér á „masterclass“ í Juilliard þegar ég var þar í námi. Þar kenndi Hollendingurinn Jaap Schröder, sérfræðingur á barokkfiðlu og frumkvöðull í upprunaflutningi, þ.e. að spila tónlist frá barokk- og klassíska tímanum á hljóðfæri og með aðferðum þeirra tíma. Þetta var á miðri Manhattan í New York, þar sem alltaf er ys og þys, fólk á þönum, neðanjarðarlestir á fleygiferð og í skólanum var oft viðkvæðið: „Ég get spilað þetta hraðar og sterkar en þið!“ Að koma inn í salinn og hlusta á Jaap kenna og spila tónlist með allt öðru viðhorfi og tónmyndun var eins og að finna vin í eyðimörkinni. Eða eins og hann sagði: „Barokktónlist byrjar út frá þögn, vex í boga og endar svo í þögn.“ Kyrrðin sem fylgdi var önnur en sú sem maður átti að venjast í spennuvæðingu nútímahljóðfæra. Ég gaf mig á tal við hann og úr varð að ég skráði mig í nám í Schola Cantorum Basiliensis í Basel í Sviss, skóla sem sérhæfir sig í upprunaflutningi, en þar kenndi Jaap.

Helga Ingólfsdóttir, semballeikari og stofnandi Sumartónleika í Skálholti, hafði samband og hafði áhuga á að fá Jaap til Íslands til að leiða Bachsveitina í Skálholti. Úr varð áratuga samstarf. Jaap og konan hans Agnes hrifust af Íslandi, komu hér eins oft og þau gátu og eignuðust marga vini. Skálholtsstaður talaði til þeirra og að lokum gaf Jaap Skálholti nótnasafn sitt og bókasafn, afrakstur áratuga rannsóknarvinnu. Þeir voru ófáir tónleikarnir og upptökurnar sem Jaap lék með Bachsveitinni, einnig lék hann með Helgu Ingólfsdóttur og sumarið 1998 stofnuðum við Skálholtskvartettinn sem var ásamt honum skipaður Rut Ingólfsdóttur, Sigurði Halldórssyni og undirritaðri. Nú tók við langt og spennandi ferðalag í gegnum kvartettbókmenntirnar undir leiðsögn manns sem hafði helgað líf sitt kvartettum og tónlist frá klassíska tímabilinu. Kunnátta hans, innsæi og reynsla var dýrmæt. Hann hafði mikla yfirsýn og vann verkin gjarnan í löngum köflum án þess að hökta í smábútum. Túlkunin hafði flæði, dýpt og fegurð.

Jaap hélt mikið upp á Joseph Haydn og ógleymanlegt var þegar okkur hlotnaðist tækifæri til að spila í Esterhazy-höllinni í Ungverjalandi - eins og Haydn. Jaap hafði mikið tengslanet enda átti hann langan og góðan feril sem tónlistarmaður um allan heim.

Þess nutum við og fengum að spila á hátíðum í ýmsum Evrópulöndum og Bandaríkjunum og taka upp geisladiska, m.a. með Haydn- og Schubert-kvartettum. Einnig var dásamlegt að dvelja í miðaldahöll þeirra hjóna í Frakklandi í æfingabúðum. Þá sátum við gjarnan úti í garði yfir kvöldmatnum við dúfuturninn og hlustuðum á sögur Jaaps af þekktu tónlistarfólki sem hann hafði starfað með eða spaugilegum atvikum, sem hann hafði næmt auga fyrir. Jaap var herramaður af gamla skólanum, víðförull og fróður, ljúfur með glettni í auga. Í sumar var hann heiðraður fyrir framlag sitt sem barokkfiðluleikari á Utrecht-tónlistarhátíðinni.

Hafðu þökk, hvíl í friði.

Svava Bernharðsdóttir.