Sigríður Jóhannsdóttir fæddist á Fáskrúðsfirði 8. mars 1923 og fluttist tveggja ára að Kirkjubóli í sömu sveit. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi 21. desember 2019.

Foreldrar hennar voru hjónin Jóhann Árnason, búfræðingur og bóndi, f. 4. nóv. 1897, d. 12. sept. 1950, og Jónína Benediktsdóttir, f. 31. jan. 1888, d. 19. ágúst 1981.

Sigríður giftist Birni Leví Sigurðssyni, f. 24. sept. 1926, d. 14. jan. 1995, húsasmíðameistara, 13. júlí 1957.

Börn þeirra:

1. Jóhanna grunnskólakennari, f. 19. sept. 1958, gift Óskari Bergssyni, f. 20. sept. 1961, synir þeirra eru Björn Leví, f. 4. nóv. 1995 og Sigurður Darri, f. 30. nóv. 1997. Fyrir átti Óskar synina Andra, Hjálmar og Trausta.

2. Sigurður, f. 25. des. 1959, d. 11. feb. 1985.

3. María hótelstjóri, f. 11. júní 1964, sambýlismaður Þór Bjarkar Lopez, f. 15. des. 1962, börn þeirra eru Þóra Björk, f. 25. feb. 2000 og Jóhann Bjarkar, f. 31. ág. 2002. Fyrir átti Þór dótturina Björgu.

4. Andvana stúlkubarn, f. 3. ágúst 1967.

Fyrir átti Björn Leví dótturina Guðbjörgu Hugrúnu leikskólakennara, f. 12. mars 1951. Börn hennar Vega Rós, Sandra Guðrún og Andreas Guðmundarbörn.

Systkini Sigríðar voru þau Jóhanna María, f. 16. sept. 1920, d. 22. des. 2006, Álfheiður Margrét, f. 31. jan. 1926, d. 24. jan. 1996, Ármann, f. 1. ágúst 1928, d. 8. mars 2012, og Ásdís, f. 10. jan. 1933, d. 21. okt. 1959.

Sigríður gekk ekki í skóla en foreldrar hennar kenndu henni heima og tók hún prófin. Hún vann fyrir námsdvöl á Laugum í Reykjadal tvo vetur og var skólavistin greidd með mjólk til skólans. Hún lauk tveggja ára námi á einum vetri á Laugum og tók að sér kennslu í stærðfræði með náminu í veikindum kennara síns. Hún lærði sauma og vefnað á Hallormsstað og Akureyri. Eftir stríð fór Sigríður í lýðháskóla til Bollnäs í Svíþjóð veturinn 1946-1947 og sumarið eftir vann hún á saumastofu í Stokkhólmi. Eftir að heim kom starfaði hún á saumastofum í Reykjavík og í Keflavík. Í Reykjavík kynntist Sigríður eiginmanni sínum og við tóku húsmóðurstörfin og barnauppeldið auk þess að vinna við vefnað, prjóna- og saumaskap inni á heimilinu.

Björn Leví og Sigríður hófu fyrst búskap í foreldrahúsum Björns á Bergstaðastræti 55, byggðu síðan heimili sitt í Safamýri 85 og seinna í Ljárskógum 25 þar sem Sigríður bjó þar til í lok september á þessu ári.

Sigríður fór í Leiðsögumannaskólann og vann sem leiðsögumaður um árabil. Hún aflaði sér réttinda í svæðanuddi og var með aðstöðu heima til þess. Hún starfaði lengi í frænefnd Garðyrkjufélags Íslands og var heiðruð þar fyrir störf sín, fyrst með silfurlaufinu árið 1998 og síðar með gulllaufinu árið 2005. Hún starfaði lengi með Félagi austfirskra kvenna og var kjörin heiðursfélagi þess 6. mars 2017. Fram yfir nírætt vann hún við sauma og vefnað.

Útför Sigríðar fer fram frá Seljakirkju í Reykjavík í dag, 10. janúar 2020, og hefst athöfnin klukkan 13.

Víða liggja leiðir og fjölskyldur okkar Jóhönnu höfðu átt leiðir saman í nokkrar kynslóðir þegar við kynntumst, þótt við sjálf vissum það ekki. Sigga vissi því einhver deili á þessum manni sem dóttir hennar byrjaði að hitta haustið 1991, enda sjaldan komið að tómum kofunum hjá henni.

Sigga og Bjössi voru farin að nálgast sjötugt þegar ég kynntist þeim. Þau voru samrýnd og höfðu með dugnaði og nægjusemi komið sér vel fyrir í lífinu. Heimili þeirra stóð opið og gestagangur daglegt brauð. Þau áttu góða ævi saman þótt áföllin sem á þau voru lögð væru mikil og á stundum óbærileg. Sigurð son sinn misstu þau í bílslysi í Malasíu aðeins 25 ára gamlan og áður hafði Sigríður fætt andvana barn. Björn missti heilsuna ungur og Sigríður annaðist hann heima í meira en áratug, af stakri ástúð og umhyggju. Mótlætið braut þau ekki niður heldur lögðu sig fram um að umvefja fólkið sitt og vini. Sambandið við börnin byggðu þau á vináttu og virðingu. Þau voru listræn og frumkvöðlar á mörgum sviðum. Heimilið vandað og smekklegt með fjölbreyttu steinasafni, blómum og verkum þeirra beggja. Þau léku sér til dæmis að því að Bjössi teiknaði og Sigga óf eftir myndinni. Sigga var bæði saumakona og vefari og eftir hana liggur fjöldinn allur af mottum, púðum og fatnaði og fram yfir nírætt fór hún á handverksmarkaði með vörur sínar.

Sigríður var náttúruunnandi, sannur umhverfisvinur. Þegar börnin voru ung fóru þau í hálendisferðir á sínum eigin jeppa með allan búnað með sér og létu ekkert stöðva sig í ævintýraþránni sem náði að smitast til barnanna sem hafa ævintýra- og ferðaþrána í blóðinu. Garðurinn í Ljárskógunum var fallegur með fjölbreyttri flóru. Hún hafði flokkað sorp í áratugi áður en það varð almennt.

Við Sigga vorum sambýlisfólk í rúm tuttugu ár, þar sem nálægðin var mikil en einkarýmið samt vel skilgreint. Hún var okkur stoð og stytta og skemmtilegur félagsskapur. Við borðuðum saman kvöldmat og lengi vel eldaði hún einu sinni í viku. Sigga var vel að sér á mörgum sviðum þótt skólagangan hafi ekki verið löng. Hún var stálminnug, kunni fjöldann allan af vísum sem hún rifjaði oft upp þegar umræðuefnið gaf tilefni til. „Þá dettur mér nú í hug vísa dagsins,“ sagði hún þá og fór með vísu sem smellpassaði við samræðurnar. Þetta skapaði gleði og oft hlátur.

Hvort sem þú í hendi hefur,

hamar, skóflu eða pál,

penna, meitil, pentstúf, nál.

Hvað það starf sem guð þér gefur,

gerðu það af lífi og sál.

Svo bætti hún við: „Ekki veit ég eftir hvern þetta er, en hann pabbi minn kenndi mér þetta,“ og stundum hafði það verið mamma hennar sem hafði kennt henni.

Sigga lifði góða elli fram yfir nírætt en eftir það dró jafnt og þétt af henni. Hún var tilbúin að fara, ræddi dauðann hispurslaust og jafnvel með eftirvæntingu, eins og hún væri að fara í ferðalag.

Skarðið sem Sigga skilur eftir verður seint fyllt, en viskuna, góðmennskuna og glaðværðina skilur hún eftir í minningu þeirra sem voru svo heppin að kynnast henni.

Óskar Bergsson.

Amma mín, ein mín helsta fyrirmynd og besta vinkona, hefur nú kvatt þennan heim

Lífið er leiðsla' og draumur,

logn og boðaföll,

sker og stríður straumur,

stormar, þoka' og fjöll;

svo eru blóm og sólskin með;

en bak við fjöllin himinhá

hefur enginn séð.

(Páll Ólafsson)

Að alast upp með ömmu á heimilinu eru ómetanleg forréttindi. Við bræður vorum svo heppnir að eftir skóla tók hún á móti okkur með brauðsneið og bollasúpu og kenndi okkur að lesa. Aldrei þurftum við að fara í pössun þegar foreldrar okkar voru ekki heima, heldur eyddum við þá kvöldunum saman. Við ýmist spjölluðum eða leystum saman krossgátur. Á hverjum sunnudegi fór hún með okkur í sunnudagaskólann, og eins og hún minntist svo skemmtilega oft á var ég sífellt að finna nýjar leiðir frá heimilinu okkar að kirkjunni og til baka og dró ég bæði ömmu og Sigga bróður um allt hverfi í leit að nýjum leiðum. Aldrei hristi amma hausinn yfir þessum ferðalögum og lét þetta eftir mér. Við skildum hvort annað svo vel, þú skildir að mig langaði í döðlur þegar ég bað um risaeðlur. Ég hugsa hlýtt til stundanna sem við áttum yfir kaffibolla þegar ég kom heim úr skólanum og oftar en ekki bauð hún upp á eitthvað sætt með, en aldrei hef ég kynnst öðrum eins sælkera og henni ömmu, nema kannski mér sjálfum. Bæði vorum við sérstakir áhugamenn um steiktan kjúkling og þegar við vorum ein heima var það skemmtileg hefð að kaupa kjúklingabita, franskar og brúna sósu. Aldrei var amma langrækin né talaði illa um neinn og lét gleðina og skopskynið leika aðalhlutverk í sínu lífi. Það er lífsspeki sem ég mun halda áfram að reyna að lifa eftir, en í uppáhaldi hjá mér er sú speki að maður skuli alltaf reyna að spara nema þegar maður kaupir sér rúm og skó.

Þrátt fyrir rúmlega 70 ára aldursmun höfðum við alltaf nóg að tala um, bæði um nútíðina mína og fortíðina þína. Þú varst vön að kveðja mig með orðunum „við höfum alltaf verið vinir“ og ég svaraði með „við munum alltaf vera vinir“.

Svo nú kveð ég þig í síðasta sinn: Við munum alltaf vera vinir.

Þinn

Björn Leví Óskarsson (Bjössi).

Nokkur orð til að minnast hennar Sigríðar móðursystur minnar eða Siggu eins og hún var alltaf kölluð. Sigga og fjölskylda hennar var snemma hluti af mínu lífi og góð vinátta og mikill samgangur milli þeirra og fjölskyldu minnar, enda bjó amma mín, móðir Siggu, hjá okkur. Það var til að mynda algengt að Sigga og fjölskylda hennar kæmu í sunnudagsbíltúr austur fyrir fjall þar sem við bjuggum og börn hennar dvöldu gjarnan hjá okkur á sumrin. Myndaðist þá góð vinátta milli okkar krakkanna sem ég nýt ennþá í dag og höfum við Jóhanna til dæmis alltaf verið sérstaklega góðar vinkonur enda jafnaldrar.

Þegar ég varð eldri og fór í nám til Reykjavíkur stóð heimili Siggu og Bjössa manns hennar bæði mér og öðrum systkinabörnum ávallt opið. Hún var mjög gestrisin, ættrækin og ávallt tilbúin til að styðja okkur landsbyggðarkrakkana í fjölskyldunni. Sigga var um margt mjög merkileg kona. Hún var fluggreind og námfús en ólst upp á þeim árum sem ekki var hlaupið að því að komast í nám. Sigga náði þó með nokkru harðfylgi að komast í skóla á Laugum og svo á lýðháskóla í Svíþjóð. Hún lærði líka til sauma, starfaði í fyrstu á saumastofum en eftir að hún eignaðist fjölskyldu vann hún við sauma heima hjá sér. Þeir eru óteljandi fallegu kjólarnir sem hún Sigga saumaði, þar á meðal nokkra á okkur í fjölskyldunni. Suma þeirra hef ég alls ekki tímt að gefa frá mér vegna þess hversu fallegir þeir eru. Hún var stöðugt að, saumaði til að mynda bútasaumsteppi og óf fram á tíræðisaldur. Hún lærði líka svæðanudd sem ég ásamt fleirum naut góðs af. Síðustu tvo áratugina bjó hún í sama húsi og Jóhanna dóttir hennar, og fjölskylda hennar. Var það gæfa beggja enda voru þær samrýndar.

Ég er svo sérstaklega þakklát fyrir okkar góðu vináttu sem við áttum síðustu árin þrátt fyrir talsverðan aldursmun. Sigga var mjög góður og gefandi félagsskapur og við gerðum ýmislegt saman, fórum til dæmis eitt sumarið hringinn í kringum landið með viðkomu hjá ættingjum. Það var gaman að ferðast með Siggu því hún var fróð um landið enda menntaður leiðsögumaður. Hún var margfróð og varpaði gjarnan fram vísum sem tengdust tilefnum líðandi stundar. Svo var gott að ræða við hana um það sem hvíldi á huga mínum því hún var mjög glögg, skynsöm og jarðbundin, og ekki má gleyma leiftrandi kímnigáfu ásamt getu til að sjá spaugilegu hlutina við lífið og tilveruna. Hennar Siggu verður sárt saknað en eftir situr þakklæti fyrir að hafa fengið að njóta dýrmætra samverustunda með henni öll þessi ár.

Jónína (Jonna).

Einstök kona er nú fallin frá og ótal minningar leita á hugann. Sigríður var mamma Jóhönnu, vinkonu minnar, og höfum við þekkst í meira en fimmtíu ár. Við Jóhanna vorum í Svíþjóð eitt sumar að vinna og dvöldum þá hjá vinkonu Siggu sem var með henni á lýðháskóla í Bollnäs, úr því varð mikill vinskapur. Það var alltaf ljúft að koma í Ljárskóga til Siggu og Björns, sannkallað fjölskylduhús. Sigga gaf mér svæðanudd ef henni fannst þörf á, ljúft te og spjall. Hún var spaugsöm og hagmælt og fór gjarnan með vísur. Hún var mikil hannyrðakona, óf mikið, saumaði og prjónaði, oft seldi hún handavinnu sína í sölubás í Mjóddinni. Garðurinn hennar er einstaklega fallegur, sannkölluð paradís og var ræktun hans mikið áhugamál hennar og sinnti hún honum af alúð. Hún gróðursetti fjölda trjáa og blóma. Þangað sótti hún jurtir í te og jurtakrem sem hún bjó til.

Í Ljárskógum vekur athygli mikið steinasafn sem þau Björn höfðu komið sér upp á ferðalögum sínum um landið. Síðastliðin ár hafa Jóhanna og Óskar búið með Siggu og drengjunum í Ljárskógum. Þar voru haldnir saumaklúbbar og lesklúbbar að ótöldum öllum matarveislunum þar sem mikið var spaugað og spjallað. Samband þeirra mæðgna, Jóhönnu, Maríu og Sigríðar, var einstaklega fallegt og náið. Ég votta þeim systrum og fjölskyldum þeirra innilega samúð.

Sigríður Stefánsdóttir.

Hartnær 97 ára gömul fékk elsku Sigga okkar hinstu ósk sína uppfyllta: að sameinast gengnum ástvinum og hlaupa með þeim léttfætt um engi og blómabreiður á himnum. Hvíldin nú er henni blessun en söknuðurinn er sár. Það er erfitt að lýsa þeim djúpstæðu áhrifum sem Sigga hafði á okkur öll. Hún var einstök manneskja sem miðlaði af gáfum sínum og gæsku til allra sem á vegi hennar urðu.

Sigga sameinaði margt sem nútíminn þarf á að halda. Hún var náttúrubarn sem þekkti allar plöntur og blóm. Löngu áður en almenn umræða vaknaði um umhverfismál miðlaði Sigga virðingu fyrir náttúrunni og hennar stórbrotnu gjöfum. Sóun, vanvirðing og eyðilegging var ekki til í hennar gjörðum. Hún ræktaði allt sem lifði af alúð, nærði, endurnýtti, endurvann, umbreytti, gerði betra og gaf nýtt líf. Áratugum áður en það þótti til siðs fóru Sigga og Bjössi hvert sumar með börnin sín kornung um fjöll og firnindi á hálendi Íslands, þveruðu ár og ræktuðu gleðina í ósnortinni náttúru. Mér fannst þau ævintýraleg á gamla jeppanum og langaði einhvern tímann að verða eins og þau.

Gönguleiðin til Ljárskóga í æsku á hið fallega heimili þeirra hjóna – nú þeirra Jóhönnu og Óskars – var greið í öllum veðrum því maður vissi hve hlýjar móttökurnar yrðu. Við fórum frá heimili þeirra betri en við komum. Mamma mín er ævinlega þakklát Siggu, m.a. fyrir trúnaðarsamræður þeirra á langri samleið þar sem þær gáfu hvor annarri styrk í ólgusjó lífsins. Þegar mamma lýsir Siggu segir hún einfaldlega: Hún gat allt. Allt lék í höndum hennar. Hún saumaði, prjónaði og óf, hún leiddi okkur í sláturgerð, hún kenndi okkur að skera út laufabrauð, hún gerði uppáhalds kleinurnar og pönnukökurnar hans pabba, hún tók okkur í heilandi svæðanudd, hún gaf okkur te með læknandi eiginleikum, hún hlustaði á okkur og gaf ráð, hún sagði sögur og kom okkur til að hlæja enda húmoristi af guðs náð.

Sigga var frjó í hugsun og hagmælt, víðlesin og margfróð. Hún leiftraði af frásagnargleði með dillandi en hljóðlátum hlátri án þess að þykjast vita nokkuð betur. Sigga hafði stálminni og það er fyrst og fremst frá henni sem við systkinin þekkjum sögur af okkur sjálfum og hvert öðru frá því við vorum lítil, sögur sem koma okkur enn til að hlæja. Hún var öðrum fremur uppspretta sameiginlegra minninga því að hún mundi betur en aðrir. Sigga varð fræg í frönskum skóla þegar börnin mín sögðust eiga frænku á Íslandi sem væri „bráðum hundrað ára og ótrúlega gömul og ótrúlega lítil en alltaf góð“.

Sigga uppskar eins og hún sáði í kærleik því samheldnari systur en dætur hennar eru vandfundnar. Umhyggja þeirra, ræktarsemi, vinátta og stuðningur við móður sína í gegnum árin er fyrirmynd fallegra fjölskyldubanda. Við vottum Jóhönnu, Maríu, tengdasonum, barnabörnum og öðrum ástvinum innilegustu samúð. Minningin um merka og góða konu lifir í hjörtum okkar.

Guðfríður Lilja

Grétarsdóttir.