Sjúkrahótel Landspítalinn væri illa settur án þess, segir forstjórinn.
Sjúkrahótel Landspítalinn væri illa settur án þess, segir forstjórinn. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Vandinn á bráðamóttökunni liggur í heilbrigðiskerfinu sjálfu og er mál samfélagsins alls,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Vandinn á bráðamóttökunni liggur í heilbrigðiskerfinu sjálfu og er mál samfélagsins alls,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. „Deildin í Fossvoginum er hönnuð til að sinna mest 35 sjúklingum með bráðan vanda. Að undanförnu hefur það ítrekað gerst að þar liggja 20 til 40 sjúklingar sem hafa fengið fyrstu þjónustu en þurfa innlögn, í legupláss sem ekki eru fyrir hendi.“

Sjúkrahótelið leysir vanda

Mikið álag á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi hefur verið í umræðunni síðustu daga. „Vandi við að útskrifa sjúklinga er rótin að því sem við erum að kljást við alla daga. Starfsfólk bráðamóttökunnar gerir stórkostlega hluti og veldur sínu kjarnahlutverki – en deildin er ekki gerð til að sinna einnig tugum innlagnarsjúklinga,“ segir Páll.

Fráflæðisvandann segir Páll kristallast í því að 1% sjúklinga spítalans beri ábyrgð á 22% legudaganna. Þeir þurfa að vera á sjúkrahúsinu um lengri tíma því önnur úrræði skortir. Þetta ásamt lokuðum legurýmum og að fleiri hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða þarf til starfa er vandinn. Legutími þeirra sjúklinga sem geta útskrifast fer hins vegar batnandi ár frá ári. Þannig er meðallegutími þeirra sjúklinga sem útskrifast innan 30 daga ekki nema 4,7 dagar, sem telst mjög gott. Eftir þjónustu á deildum sjúkrahússins fara margir til dæmis á sjúkrahótelið og eru þar í kannski 1-3 daga. Fá þar frekari þjónustu en geta svo snúið aftur heim.

„Við værum illa sett ef ekki væri sjúkrahótelið, sem hefur stytt legutíma á sjúkrahúsinu. Það leysir hins vegar ekki skort á hjúkrunarrýmum, enda ekki hugsað í þeim tilgangi.“

Í yfirlýsingu sem Félag sjúkrahúslækna og Félag almennra lækna sendu frá sér í gær segir að hættuástand sé fyrir löngu orðið daglegur veruleiki á deildum Landspítalans. Fjöldi fólks sem er bráðveikt sé jafnvel dögum saman í óviðunandi aðstæðum á stofum með fjölda annarra og á göngum spítalans. Slíkt trufli bata sjúklings og eðlilega faglega þjónustu. Samtóna viðhorf koma svo fram í yfirlýsingu vaktstjóra hjúkrunar á bráðamóttökunni. Þeir segja að á álagstímum sé erfitt og jafnvel ómögulegt að taka á móti nýjum sjúklingum sem oft þurfi að bíða lengi eftir þjónustu jafnvel á sjúkrabörum.

Yfirlýsingar staðfesta fréttir

Páll Matthíasson segir starfsfólkið þekkja stöðuna öðrum betur og að yfirlýsingarnar staðfesti frétt um álag sem spítalinn sé undir og áhyggjur fólks af öryggi og þjónustu. Halda megi því til haga að flestum smærri vandamálum og slysum sé sinnt á skömmum tíma eða innan við fimm klukkustundum. Þegar sjúklingar þurfi hins vegar innlögn vandist oft málið. Á álagstímum þegar spítalinn sé yfirfullur sé ekki annar kostur í stöðunni en að fólk liggi á yfirfullum göngum bráðamóttökunnar. Því hafi nú í vikunni verið gripið til þess ráðs að koma upp sjö sjúkrarýmum á 2. hæð húss bráðamóttöku í Fossvogi. Sú lausn er þó aðeins til bráðabirgða.

Nýjar og efldar deildir

„Á næstunni þarf að huga að því að setja upp betri biðaðstöðu fyrir sjúklinga sem þurfa innlögn. Einnig þarf að efla dag- og göngudeildir þangað sem vísa má flóknari tilfellum í eftirfylgd. Ný skammtímadeild fyrir styttri legur myndi hjálpa mikið, en útheimtir sérstaka fjármögnun. Til lengri tíma þarf svo að hraða uppbyggingu hjúkrunarrýma og finna nýjar leiðir til að styðja aldraða til að búa lengur heima hjá sér. Vandi bráðamóttökunnar er birtingarmynd vanda heilbrigiskerfisins alls og þær aðgerðir sem grípa þarf til á næstu árum og áratugum krefjast samstillts átaks – og fjármögnunar,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, að síðustu.