[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur. Bjartur, 2019. Kilja, 76 bls.

Ást og kærleikur eru helstu yrkisefnin í þriðju ljóðabók Eyrúnar Óskar Jónsdóttur, Mamma, má ég segja þér? En kærleikanum getur verið misskipt eins og sést í einu fyrstu ljóða bókarinnar. Þar situr Anna Frank efst í klifurgrind á tómum leikvelli í Innri-Njarðvík, krækir fótunum um rimlana og lætur sig hanga á hvolfi:

Heimurinn er hvort sem er

iðulega á hvolfi

svo óskiljanlega

á röngunni.

Í afbakaðri veröld

þar sem upp snýr niður

og niður snýr upp

og þeir sem eiga að hjálpa

valda skaða

hafnar Útlendingastofnun

umsókn hennar um hæli

[...]

Anna virðist frjáls þar sem hún hangir ósnertanleg í loftinu í ljóði Eyrúnar en síðar segir:

Árla morguns

í fjólubleikri maíbirtu

bankar lögreglan upp á

og vísar kærleikanum úr landi.

Á Miðnesheiði

syngur lóan inn sumarið

vorboðinn ljúfi

nánast helgur í augum landans

á meðan enn eitt barn á flótta

er rekið út í dauðann.

Eyrún Ósk hefur hlotið athygli fyrir fyrri bækur sínar en hún hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa (2016). Texti ljóða hennar er iðulega tær og afslappaður, laus við að vera uppskrúfaður, og hún fer vel með myndir, eins og í þessu ljóði þar sem tært íslenskt vor er í hrópandi andstöðu við framkomuna gagnvart barninu Önnu Frank, sem er táknmynd allra þeirra barna sem misrétti eru beitt. Ljóðmælandanum er misboðið hér en í fyrsta hluta bókarinnar af þremur, „Stríð, friður og skæruvelgjörðir“, er fjallað um grimm alheimsmál. Í öðru ljóði þar er lífið vegsamað en „fólk deyr á landamærum / og við sofum / loftslagsbreytingar vofa yfir / og við sofum / dýr deyja með kjaftinn fullan af plasti / og við sofum,“ og lesendur eru hvattir til að vakna af þyrnirósarsvefninum.

Í öðrum ljóðum þessa hluta bókarinnar erum við hvött til að vera góð við börn, þau segi okkur til syndanna en svo er fjallað um nokkur raunveruleg börn sem við brugðumst. Og lesendur eru hvattir til aðgerða, fyrir heimsfrið.

Í seinni hlutum bókarinnar breytist tónninn nokkuð, ljóðmælandinn lítur sér nær og lífið er hyllt. Í öðrum hluta, „Berum kærleikanum vitni“, er mikil birta og hann er litaður af trú á góðan og fagran heim. Textinn er hlýlegur og jafnframt meðvitað bernskur á köflum, þar sem hnykkt er á verðmæti lífsins og fegurðinni allt um kring:

Sólin skín á bakvið blikuna

og myndar rosabaug á himni

til að minna okkur á

að landið er heilagt.

Og gert er lítið úr myrkrinu og ótta við það; myrkrið sé aðeins fjarvera ljóss:

Ljóstýra getur á augabragði

lýst upp þúsund ára gamalt myrkur

án erfiðis

án áreynslu

segir ljóðmælandi sannfærandi og að í þessu „ástar kærleiks lífsins ljósi / ætti að vera enginn vandi / að hrekja burtu myrka sögu mannkyns / með ljósgæðum / með hjartasól“.

Lokahluti bókarinnar, „Silfurbjöllur og regnbogar“, er sannkallaður ástarbálkur. Fyrri ljóðin fjalla á einlægan hátt um ást á maka:

Glitský

böðuð sólskini

þó aldimmt sé á Jörðu

líkt og ást þín

er ég týni mér

um stundarsakir

í myrkrinu.

Og síðustu ljóð bókarinnar fjalla hlýlega um ástina á litlum dreng, syni sem á lífið fram undan og er að uppgötva heiminn. Heim sem ljóðmælandinn hvetur okkur til að hjálpa til við að bæta, fyrir þá sem á eftir okkur koma og fá veröldina í fangið. Ljóð bókarinnar eru misvel lukkuð hvað áhrifamátt og kraft ljóðmálsins varðar en boðskapurinn er bæði mikilvægur og fallegur.

Einar Falur Ingólfsson

Höf.: Einar Falur Ingólfsson