Flugslys Aðkoman var hræðileg á slysstað og lágu hlutar úr vélinni eins og hráviði. Kallað hefur verið eftir ítarlegri rannsókn á orsökum slyssins.
Flugslys Aðkoman var hræðileg á slysstað og lágu hlutar úr vélinni eins og hráviði. Kallað hefur verið eftir ítarlegri rannsókn á orsökum slyssins. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Kanadísk stjórnvöld kröfðust þess í gær að Íranar myndu leyfa kanadískum sérfræðingum að taka þátt í rannsókn flugslyssins í Teheran aðfaranótt miðvikudags en 63 Kanadamenn voru um borð í vélinni sem var af gerðinni Boeing 737-800 frá úkraínska flugfélaginu Ukraine International Airlines, UIA.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Kanadísk stjórnvöld kröfðust þess í gær að Íranar myndu leyfa kanadískum sérfræðingum að taka þátt í rannsókn flugslyssins í Teheran aðfaranótt miðvikudags en 63 Kanadamenn voru um borð í vélinni sem var af gerðinni Boeing 737-800 frá úkraínska flugfélaginu Ukraine International Airlines, UIA.

Bandarískir fjölmiðlar sögðu í gær að sterkur grunur léki á að Íranar hefðu skotið vélina niður af slysni en slysið varð örfáum klukkustundum eftir að Íranar skutu fjölda eldflauga að bandarískum herstöðvum í Írak í hefndarskyni fyrir drápið á íranska hershöfðingjanum Qassem Soleimani. Sá grunur virtist staðfestur um kvöldið þegar New York Times birti myndband á heimasíðu sinni, sem á að sýna andartakið þegar vélinni var grandað.

Úkraínustjórn hefur þegar sent 45 sérfræðinga til Írans til þess að taka þátt í rannsókninni, en írönsk flugmálayfirvöld höfnuðu því í gær að leyfa bandarískum sérfræðingum að taka þátt í rannsókninni. Þá munu Íranar ekki afhenda flugrita vélarinnar til Bandaríkjanna, hvorki stjórnvalda, né bandaríska Boeing-fyrirtækisins, þrátt fyrir að alþjóðasamningar um rannsóknir flugslysa kveði á um rétt þeirra til þess að taka þátt í rannsókninni.

Reiðarslag fyrir samfélagið

Auk Kanadamannanna 63 voru 82 Íranar, tíu Svíar, fjórir Afganar, þrír Þjóðverjar og þrír Bretar um borð. Þá fórust ellefu Úkraínumenn, þar af níu áhafnarmeðlimir. Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagði í gær að hann hygðist tryggja „ítarlega rannsókn“ á orsökum slyssins og að spurningum Kanadamanna um harmleikinn yrði svarað.

Flestir af Kanadamönnunum voru af írönskum uppruna og voru um þrjátíu þeirra frá borginni Edmonton. Sögðu fulltrúar íranska samfélagsins í borginni að slysið væri reiðarslag og að allir meðlimir þess þekktu einhvern sem tengdist slysinu með einum eða öðrum hætti. Trudeau sagði á blaðamannafundi sínum að of snemmt væri að geta sér til um ástæður slyssins en hann vildi ekki útiloka að slysið hefði borið til af mannavöldum. Síðar um daginn staðfesti Trudeau að kanadísk stjórnvöld grunaði að vélin hefði verið skotin niður.

Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, varaði sömuleiðis við getgátum um orsakir slyssins en myndbönd sem tekin voru af vélinni áður en hún hrapaði sýna að eldur var kominn upp í henni. Flugmálayfirvöld í Úkraínu sögðu að sérfræðingar sínir í Íran væru að rannsaka nokkra möguleika, þar á meðal hvort vélinni hefði verið grandað af loftvarnaflaugum.

Írönsk stjórnvöld höfnuðu hins vegar þeim útskýringum í gær og sögðu slíkar skýringar ekki standast neina skoðun þar sem margar aðrar farþegavélar hefðu verið á ferðinni á þessum slóðum þegar slysið varð.

Þá sögðu írönsk stjórnvöld að gögn bentu til þess að vélin hefði reynt að snúa aftur til lendingar eftir að vandamál hefði komið upp.

Fulltrúar UIA-flugfélagsins segja að vélin hafi verið nýkomin úr skoðun og að áhöfnin hafi verið ein sú besta sem völ var á. Því væru líkurnar á mannlegum mistökum við stjórn vélarinnar mjög litlar. Hins vegar hefðu samskipti vélarinnar við flugturn hætt skyndilega sem benti til þess að eitthvað mjög óvenjulegt hefði átt sér stað.