Vilhjálmur Einarsson stekkur á Ólympíuleikunum í Melbourne 27. no´vember 1956 og vinnur til silfurverðlauna.
Vilhjálmur Einarsson stekkur á Ólympíuleikunum í Melbourne 27. no´vember 1956 og vinnur til silfurverðlauna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Vilhjálmur Einarsson fæddist á Hafranesi við Reyðarfjörð 5. júní 1934. Hann lést á Landspítalanum 28. desember 2019.

Vilhjálmur var sonur hjónanna Einars Stefánssonar frá Mýrum í Skriðdal, byggingafulltrúa á Egilsstöðum, og Sigríðar Vilhjálmsdóttur frá Hánefsstöðum í Seyðisfirði.

Eftirlifandi eiginkona Vilhjálms er Gerður Unndórsdóttir, f. 1.5. 1941. Börn Vilhjálms og Gerðar eru 1) Rúnar, f. 14.12. 1958. Maki: Guðrún Kristjánsdóttir. Börn: a) Kristján, b) Vilhjálmur og c) Þorvaldur. 2) Einar, f. 1.6. 1960. Maki: Halldóra Dröfn Sigurðardóttir. Börn: a) Gerður Rún, b) Vilhjálmur Darri og c) Valdimar Orri. 3) Unnar, f. 28.10. 1961. Maki: Hólmfríður Jóhannsdóttir. Börn: a) Áróra, b) Sigríður Ýr, c) Gerður Kolbrá og d) Hrafnkatla. 4) Garðar, f. 21.9. 1965. Maki: Gestrún Hilmarsdóttir. Börn: a) Hilmar, c) Vilhjálmur Árni og c) Unndór Kristinn. 5) Hjálmar, f. 2.10 1973. Maki: Ragnheiður Hulda Friðriksdóttir. Börn: a) Elvar Otri, b) Vilhjálmur Yngvi og c) Theodór. 6) Sigmar, f. 3.1. 1977. Börn: a) Einar Karl, b) Vilhjálmur Karl og c) Ingi Karl. Móðir: Bryndís Einarsdóttir. Barnabarnabörnin eru 14. Bræður Vilhjálms eru Stefán, f. 8.8. 1940, og Baldur Kristjánsson, f. 6.3. 1951, uppeldisbróðir.

Vilhjálmur gekk í barnaskólann á Reyðarfirði, farskólann á Völlum, Gagnfræðaskólann á Seyðisfirði og Alþýðuskólann á Eiðum. Að loknu landsprófi frá Eiðum innritaðist Vilhjálmur í Menntaskólann á Akureyri árið 1951 og útskrifaðist sem stúdent frá stærðfræðideild vorið 1954. Haustið 1954 hlaut Vilhjálmur skólastyrk við Dartmouth-háskólann í Bandaríkjunum og útskrifaðist þaðan með BA-próf með áherslu á listasögu. Þá sótti Vilhjálmur framhaldsnám í uppeldis- og kennslufræði við Gautaborgarháskóla 1974-1975 og 1990-1993.

Vilhjálmur lagði mikið af mörkum til íslenskra fræðslu- og æskulýðsmála. Hann var kennari við Héraðsskólann á Laugarvatni, 1957-1958; skólastjóri við Héraðsskólann á Laugarvatni, 1959 vorönn; kennari við Gagnfræðaskóla Austurbæjar, 1959-1960 og kennari við Samvinnuskólann á Bifröst, 1959-1965. Þá var Vilhjálmur skólastjóri Héraðsskólans í Reykholti á árunum 1965-1979 á miklu blómaskeiði skólans. Loks gegndi Vilhjálmur starfi skólameistara Menntaskólans á Egilsstöðum frá upphafi skólans 1979 til ársins 2001 og vann þar mikið brautryðjendastarf. Frá 2001 var Vilhjálmur um árabil stundakennari við Menntaskólann á Egilsstöðum og árið 2001 stofnaði hann Námshringjaskólann sem var í námskeiðsformi. Vilhjálmur var góður sönglagasmiður og afkastamikill frístundamálari og prýða myndir hans híbýli víða um land. Meðal annarra starfa má nefna að hann stofnaði og rak Íþróttaskóla Höskuldar og Vilhjálms ásamt Höskuldi Goða Karlssyni íþróttakennara 1960-1972. Var skólinn starfræktur í Mosfellsdal, Varmalandi og Reykholti í Borgarfirði. Vilhjálmur stofnaði bókaforlagið Að austan sem gaf út tvær bækur: Magisterinn og Silfurmaðurinn. Þá var hann annar ritstjóra bókarinnar Skóli fyrir lífið, sem fjallar um seinni tíma sögu og skólalíf í Héraðsskólanum í Reykholti. Vilhjálmur var formaður Ungmennasambands Borgarfjarðar 1967-1970 og vann meðal annars að því að koma Sumarhátíðinni í Húsafelli á laggirnar. Vilhjálmur er meðal fræknustu íþróttamanna Íslendinga fyrr og síðar. Meðal annars vann hann til silfurverðlauna fyrstur Íslendinga á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956 og var fimm sinnum kjörinn íþróttamaður ársins. Vilhjálmur er handhafi riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag í þágu íþrótta- og uppeldismála.

Útför Vilhjálms fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 10. janúar 2020, klukkan 15.

Faðir minn átti farsæla ævi og kom víða við. Í hugann kemur fjölþættur áhugi hans á fólki, ekki síst börnum og ungmennum. Uppeldi nýrra kynslóða var að hans mati mikilvægasta verkefni hvers samfélags. Sjálfur hafði hann alist upp við ástríki foreldra á Reyðarfirði og Egilsstöðum, en einnig fengið gott veganesti frá föður- og móðurfólki í Skriðdal og á Seyðisfirði. Ungmennafélagshreyfingin hafði líka sín mótandi áhrif á barnið og unglinginn ásamt eldri íþróttaköppum úr frændgarðinum. Hann ákvað snemma að nýta íþróttaárangur sinn til góðs í starfi með ungu fólki og horfði þá einkum til uppeldislegs gildis íþróttanna. Við bræður ólumst ekki upp í skugga íþróttaafreka eða frægðar. Afrekin voru í bakgrunni uppeldisins. Ekki var þrýst á neinn á því sviði eða öðrum. Áhersla föður míns var á að allir hefðu sína hæfileika og að hver og einn þyrfti að finna sína fjöl og fá notið sín. Íþróttir væru vettvangur heilbrigðrar mannræktar til líkama og sálar í virðingu iðkenda fyrir sjálfum sér og öðrum. Auðvitað var faðir minn fyrirmynd okkar bræðra á íþróttasviðinu, en hann var fyrirmynd á fleiri sviðum, enda áhugamálin fjölþætt. Æskulýðs- og fræðslumál voru áherslumál hans stærsta hluta ævinnar. Sumarbúðir Höskuldar og Vilhjálms bera vitni um skilning hans á gildi íþróttanna í samþættu uppeldisstarfi. Mannræktarhugmyndir föður míns sóttu meðal annars fyrirmynd í lýðskólastarf Norðurlandanna. Hann hafði einstakt tækifæri til að vinna að þeim hugmyndum sem skólastjóri Héraðsskólans í Reykholti á miklu blómaskeiði skólans. Þar lagði hann áherslu á að bóknám skipti máli, en það yrði að skoða í samhengi við uppeldi og mótun manneskjunnar. Nám í skóla þyrfti því að vera heildstætt en taka jafnframt tillit til hvers og eins. Hann var óhræddur við að feta ótroðnar slóðir og stóð meðal annars fyrir umbótum á borð við víxlkennslu, námshringi og jafningjafræðslu. Þegar síðar tók við skólameistarastarf við Menntaskólann á Egilsstöðum má segja að stjórnandinn hafi verið kominn í hlutverk sem var heldur fjarlægara nemendum og að nokkru leyti þrengra en í héraðsskólanum. Hér lagði faðir minn þó áherslu á að hugmyndir hans um skólastarf ættu áfram við þótt áhersla á bóknámið væri meiri.

Siðferðishugmyndir föður míns byggðust á kristnum arfi þjóðarinnar. Hann var að vísu lítt hrifinn af orðastagli um kennisetningar og leyfði sér að líta hina formlegu kirkjustofnun hóflega gagnrýnum augum. Þetta tengdist þeirri almennu afstöðu hans að hvers kyns stofnanavæðingu fylgdi vandi, hvort sem væri í fræðslumálum, heilbrigðismálum, trúmálum eða íþróttamálum. Vandinn væri sá að stofnanirnar færu stundum að lifa eigin lífi og hlutverk innan þeirra að hafa tilgang í sjálfu sér óháð fólkinu sem þeim væri ætlað að þjóna. En kristni arfurinn var augljós í áherslu föður míns á mannhelgi, jafnræði og jöfn tækifæri, og í áherslu hans á að hver og einn ætti að leitast við að láta gott af sér leiða.

Ég kveð þig, pabbi minn, að leiðarlokum með trega en miklu þakklæti fyrir allan stuðninginn, hvatninguna og jákvæðu áhrifin. Það er uppörvandi að sjá og reyna á þessum síðustu dögum hvað þú hefur markað djúp spor og snert við mörgu fólki á öllum aldri með orðum þínum og athöfnum sem íþróttamaður, skólamaður, félagsmálamaður, faðir, tengdafaðir, afi, langafi og manneskja. Guð blessi þig og varðveiti.

Rúnar Vilhjálmsson.

mbl.is/andlat

Elsku hjartans pabbi minn, nú skilur leiðir okkar í fyrsta sinn. Hugurinn reikar til fyrri tíðar, uppvaxtaráranna í Reykholti þar sem hver dagur var hlaðinn ævintýrum, íþróttaleikjum, sundferðum, veiðiferðum, ferðalögum og alls kyns bralli. Þú hafði einstakt lag á því að lauma góðum gildum inn í hverja þraut og hvern leik og gera óvinsæl skylduverkefni að spennandi keppni. Á æskuheimilinu var ávallt gestkvæmt, þar komu háir sem lágir og fengu þeir allir sömu móttökur. Pabbi fór ekki í manngreinarálit, hvorki gagnvart sjálfum sér né öðrum.

Þessi mikli meistari var ávallt laus við allt yfirlæti og dramb og helgaði líf sitt fræðslu-, uppeldis- og æskulýðsmálum alla tíð, þrátt fyrir að ýmis gylliboð um annað hafi staðið honum til boða á sínum yngri árum þegar hann var fræg stórstjarna á Íslandi eftir frækin afrek á erlendri grundu.

Utan heimilisins og af ókunnugum var maður reglulega minntur á afrek pabba en heima var hann bara pabbi okkar, yndislegur pabbi sem spilaði á gítar og samdi lög sem hann söng með mömmu, sagði okkur sögur fyrir háttinn og fór með bænirnar með okkur. Aldrei gerði hann sérstaka kröfu um að við bræður ættum að verða sérstakir afreksmenn í íþróttum en lagði frekar áherslu á að við fyndum hamingjuna og létum ekki kappið bera fegurðina ofurliði í lífinu.

Fjöldi Íslendinga hugsar hlýlega til pabba, bæði fyrrverandi nemendur, sem skipta þúsundum, og þeir fjölmörgu sem sóttu sumarbúðirnar sem hann starfrækti í gamla daga. Enn í dag hitti ég fólk á förnum vegi sem telur að þátttaka þess í sumarbúðunum og þau gildi sem þar voru viðhöfð hafi haft veruleg áhrif á líf þess til góðs.

Það er einmitt það sem þú gafst af þér elsku pabbi minn sem situr fast eftir, það er þessi sérstaka gjöf sem þú gafst án þess að þú vissir af því sjálfur. Þá gjöf gafstu til hinstu stundar. Barnabörnin nutu þessarar gjafmildi og soguðust að afa sínum alltaf hreint. Stundum var það við lítinn fögnuð tengdadætra sem áttu það til að endurheimta börn sín grútskítug eftir brall með afa.

Í erfiðum veikindum sem byrjuðu fyrir rúmu ári og svo með ýmsum áföllum og bakslögum sem eftir fylgdu til lokadags heyrðist þú aldrei kvarta, varst miklu fremur að hugsa um hag mömmu og okkar bræðranna. Þú mættir örlögum þínum, sem hægt og bítandi nálguðust, með mikilli reisn og æðruleysi. Hjá okkur bræðrum, mökum og barnabörnum var ekkert eftir ósagt eða ógert þegar kallið kom. Eftir situr sorgin, sorg sem er blessunarlega hlaðin ást og hlýju og góðum gildum.

Það eru mér mikil verðmæti að hafa átt bæði föður og besta vin í einum og sama manninum alla ævi. Minningar verma um samverustundir, rökræður um lífsins dýpstu mál, ferðalög innan lands sem utan, matarboð og mannamót, allt hugljúfar minningar sem gott er að eiga og eru nú huggun harmi gegn.

Þó í okkar feðrafold

falli allt sem lifir

enginn getur mokað mold

minningarnar yfir.

Takk fyrir allt elsku pabbi minn.

Garðar, Gestrún

og strákarnir.

Faðir minn er dáinn, en samt ekki . Minningin lifir um einstakan mann sem ég var svo heppinn að geta umgengist í daglegu lífi í hátt í 60 ár. Pabbi var minn besti vinur. Þökk sé sátt, með að mæta fagnaðarerindi frelsarans eins og barn, trúi ég því að leiðir okkar pabba eigi eftir að liggja saman að nýju í öðru ferðalagi, annarri áskorun. Það verður gaman. Ég var ekki ýkja gamall þegar ég kynntist því fyrst hvernig mér ókunnugt fólk talaði um pabba, klappaði á kollinn á mér og spurði hvort ég ætlaði ekki að verða eins og hann. Í minningunni svaraði ég ekki þeirri spurningu en niðurlútur hugsaði mitt – fannst spurningin óviðeigandi. Pabbi var hetja í augum margra. Fyrir mér var hann annað og meira en íþróttahetja. Hann var leikfélagi, kennari og hugmyndasmiður sem bauð upp á ýmislegt skemmtilegt og fjölbreytileikinn mikill sem okkur bræðrum var boðið upp á að kynnast. Já, boðið var upp á að prófa, upplifa og læra, en engin kvöð að gera það. Ef ráðast þurfti í óvinsæl verkefni náði pabbi því oftast fram með aðdáunarverðum hætti. Verkefnin voru gerð spennandi og skemmtileg eins og við átti hverju sinni. Flott veganesti fyrir lífið þar á ferð. Einhver sagði að gjöfum sem við gefum í lífinu megi skipta í þrennt. Gjöfin sem við gefum af því að það er ætlast til þess að við gefum hana. Gjöfin sem við gefum af því að okkur langar til að gefa hana. Og gjöfin sem við gefum án þess að vita að við gáfum hana. Lífshlaupið með pabba og mömmu hefur sannarlega verið gjöfum prýtt. Síðast nefnda gjöfin frá pabba til mín hefur verið mér ómetanleg. Hið sama gildir einnig um mömmu.

Uppvaxtarárin í Borgarfirði voru okkur bræðrum afar gjöful. Fyrstu árin í Bifröst 1960-1965 og síðar í Reykholti 1965-1979. Heimili foreldra okkar í Reykholt var eini staðurinn sem allir fjölskyldumeðlimir gátu vísað til þegar rætt var um að fara heim. Það voru mikil forréttindi að alast upp í Reykholti. Gildin í lífinu frá pabba og mömmu blöstu við með hlutlægum hætti að morgni hvers dags. Reykholtskirkja var í augsýn þegar útidyrnar á heimilinu voru opnaðar og leiðin í barnaskólarútuna lá um sund milli fjóssins og íþróttahússins. Við enda sundsins gnæfði tignarleg menntastofnun, stór fánastöng og styttan af Snorra Sturlusyni. Öflug upplifun á nýjum degi fyrir hvern þann sem vildi sjá. Á árunum í Reykholti fæddust hugsanir sem reyndust mér mikill aflvaki á ferðum mínum með spjót um heiminn. Allt frá unglingsárum lutu samskipti og samtöl okkar pabba mest að öðru en íþróttum. Íþróttir voru valkvæð verkefni okkar bræðra. Árin 1981 og 1985 kenndi ég við Menntaskólann á Egilsstöðum og naut samstarfs með pabba sem kennara og skólameistara. Samvistin við pabba og mömmu var sérlega ánægjuleg á Austurlandi. Umræða um stjórnun, skapandi viðfangsefni, sögu, trúmál, þróun mála innanlanda og á heimsvísu fangar stóran hluta af okkar samræðum. Faðir minn var óþeytandi í að finna upp á nýjum verkefnum, var fjölhæfur og mennskur og leyndi því ekki. Hann var besti pabbi sem ég get hugsað mér.

Einar Vilhjálmsson.

Nítján erum við barnabörn

sem berum nú kveðju til þín gjörn.

Allt mas okkur er um megn

er í myrkrið þú heldur vilja' okkar gegn.

Minnast skal kveðskapar að kvöldi til

um kappa ýmsa, skepnur og spil.

Þar Toggi tyggjó var hetjan hraust

sem prinsessu í höll til bjargar skaust.

Sögur þessar, ráðgjöf og ræður

rifjast nú upp við þessar aðstæður.

Nú þráum við þessi atriði þrenn

þó ekki væri nema einu sinni enn.

Þorvaldur Rúnarsson.

Okkur systkinin langar að minnast afa Villa sem féll frá hinn 28. desember sl.

Þrátt fyrir sorg og söknuð vegna hins yndislega afa okkar er ekki hægt að neita því að yfir okkur hellist á sama tíma einskært þakklæti fyrir allar þær góðu minningar sem við eigum um hann.

Þegar við hugsum til afa Villa sjáum við strax fyrir okkur þennan vinalega mann sitjandi í stól við arineldinn, syngjandi og spilandi á gítar. Það var alltaf mikil tilhlökkun sem fylgdi því að fá að fara í heimsókn til ömmu og afa á Egilsstöðum. Hlýjan og gleðin sem tók á móti manni var alveg einstök. Amma Gerður var alltaf búin að undirbúa komu okkar svo dögum skipti ásamt því að fylla frystinn með alls kyns kræsingum. Einn af hápunktum heimsóknanna var að fá að fara með afa á Skruggu. Við styttum okkur oft stundir á leiðinni með alls kyns leikjum að hætti afa. Þar stóð upp úr rímleikurinn og leitin að andlitum í klettunum. Eftirminnilegt var líka hvernig hann hlúði oft að bílnum sínum þegar við nálguðumst erfiða vegakafla. Þá átti hann það til að strjúka mælaborðið og segja eitthvað á þessa leið: „Svona kallinn minn, við gerum þetta saman, þú getur þetta.“ Oftar en ekki gekk það eins og í sögu.

Barnabörnin soguðust svo að honum enda var hann með eindæmum barngóður, hlýr, rólegur, hugmyndaríkur og þolinmóður. Sögustundirnar með afa eru mjög minnisstæðar, hugmyndaflugið virtist óendanlegt. Eftirminnilegustu sögurnar voru um Togga nokkurn tyggjó sem var notaður við hvert tækifæri til að koma mikilvægum lífsreglum til skila. Boðskapurinn gat verið að borða hollan mat, vera dugleg að hlusta á mömmu og pabba eða vera dugleg/ur að hreyfa sig svo maður festist nú ekki í fjalli af tyggjói. Annar karakter sem er mjög minnisstæður úr smiðju afa Villa er Gleraugnaglámur. Hann var „jólasveinninn“ sem bankaði á gluggann á Útgörðum 2 ein mjög eftirminnileg jól þar sem allir synirnir, tengdadætur og þau barnabörn sem voru fædd voru samankomin. Afi Villi gaf sér alltaf tíma til að tala við mann um daginn og veginn, þó ekki í síma, þá var hann fljótur að kalla á ömmu til að taka við tólinu.

Emilía Dröfn, langömmu/afabarn ömmu Gerðar og afa Villa, fékk þá fallegu hugmynd, daginn eftir að afi kvaddi, að skrifa nafnið hans niður á blað og finna ýmis orð sem hún tengdi við langafa sinn sem byrja á þeim bókstöfum sem mynduðu nafnið hans. Okkur þótti svo óendanlega vænt um að sjá hversu lýsandi hennar orð voru yfir þau karaktereinkenni sem við öll þekktum og elskuðum.

V inalegur

I nnilegur

L ove

H amingja

J úní

Á st

L júfur

M eistari

U mhyggja

R indillinn

Við sjáum svo margt gott í fari pabba okkar (Einars) sem minnir okkur líka á afa Villa og því mun minning hans lifa enn lengur hjá okkur fyrir vikið.

Hvíldu í friði elskulegur alla tíð.

Gerður Rún, Vilhjálmur Darri og Valdimar Orri

Einarsbörn.

Kær mágur okkar, Vilhjálmur Einarsson, er fallinn frá.

Villi, eins og við kölluðum hann, kom inn á heimili okkar á Hagamel sem kærasti systur okkar, hann sem ungur maður en við bara litlir krakkar.

Mikil var spennan hjá okkur systkinunum þegar Gerður stóra systir okkar kynnti hann fyrir okkur. Foreldrum okkar leist strax vel á þennan unga mann og ekki síður okkur systkinunum. Hann var föðurlegur í okkar garð, sagði okkur sögur fyrir svefninn, og oft voru þessar sögur með undirliggjandi boðskap, en fyrst og síðast skemmtilegar og spennandi. Við systkinin nutum góðs af því hvað hann var einstaklega barngóður.

Mikill og góður vinskapur hélst alla tíð innan okkar stóru fjölskyldu. Oft var skipst á skoðunum og oftar en ekki benti hann á fleiri hliðar á þeim málum sem til umræðu voru. Þannig var hann kennari og uppalandi fram í fingurgóma. Honum var margt til lista lagt, t.d. prýða málverk eftir hann nú heimili margra í fjölskyldunni. Hann var fjölhæfur laga- og textahöfundur, og oft var hann dómari í árlegri vísnakeppni þar sem fjölskyldumeðlimir spreyttu sig á að botna vel valda fyrri parta.

Okkur er sérstaklega minnisstætt hversu umburðarlyndur og skapgóður Villi var gagnvart okkur systkinunum og hve æðrulaus hann var í veikindum sínum síðustu árin, aldrei heyrðist hann kvarta.

Margs er að minnast og hugurinn reikar víða, en fyrst og fremst þökkum við allar góðu stundirnar sem við áttum saman sem fjölskylda.

Við kveðjum Villa með söknuði.

Systkinin á Hagamel,

Albína, Þórdís, Jón Egill og Símon Reynir Unndórsbörn.

Vilhjálmur Einarsson kom fyrst inn í líf fjölskyldu minnar árið 1956. Elsta systir mín Gerður Unndórsdóttir vann sumarpart í ísbúð á vegum Dairy queen á Hjarðarhaga en hjá sama fyrirtæki vann Vilhjálmur og felldu þau hugi saman við fyrstu sýn. Bæði voru þau alveg sérstaklega glæsileg og gagnkvæm ást þeirra var ætíð innileg, einlæg og sönn og samband þeirra hélt óslitið í 63 ár. Ég man að foreldrum mínum stóð ekki alveg á sama í byrjun enda var Gerður ung að árum og ekki búin að ljúka gagnfræðanámi sem þá var algengt að stúlkur lykju. En eftir að foreldrar mínir kynntust þessum unga glæsilega manni þá vann hann fljótt hug og hjörtu þeirra og reyndar okkar systkinanna allra.

Vilhjálmur tengdist kennslu og stjórnun skóla allan sinn starfsferil. Snemma á starfsferlinum varð hann skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni en flutti sig síðan að Bifröst í Borgarfirði þar sem hann kenndi útivist og íþróttir. Næsta starf var skólastjórastaða við Héraðsskólann í Reykholti í Borgarfirði sem hann gegndi í rúman áratug og endaði svo starfsferil sinn sem rektor Menntaskólans á Egilsstöðum sem hann gegndi rúma tvo áratugi. Vilhjálmur bryddaði upp á ýmsum nýjungum í kennsluháttum sem miðuðu að því að gera nemendur sjálfstæðari og ábyrgari fyrir námi sínu.

Vilhjálmur hafði fjölmargar hugmyndir sem sóttu á hann allt hans líf. Hann sinnti skólastarfi á veturna en á sumrin hrinti hann þessum hugmyndum sínum í framkvæmd. Hann hannaði og lét framleiða m.a. kastspil og íþróttaalmannak, byggði raðhús í Kópavogi, sumarhús í Húsafellsskógi og einbýlishús á Egilsstöðum þar sem fjölskyldan hefur búið síðustu áratugina. Keypti eign til útleigu í Árbæ og rak íþróttaskóla fyrir unga drengi og unglinga ásamt Höskuldi Goða Karlssyni íþróttakennara. Íþróttaskólinn var haldinn víða um land og byrjaði í Hveragerði, flutti svo í Mosfellsdal og síðustu viðkomustaðir skólans voru í Varmahlíð og loks í Reykholti í Borgarfirði, þar sem Vilhjálmur var jafnframt skólastjóri héraðsskólans.

Þekktastur er Vilhjálmur fyrir afrek sín í frjálsum íþróttum þar sem hann vann til silfurverðlauna í þrístökki í Melbourne í Ástralíu árið 1956. Það afrek verður seint slegið og gerði hann landsþekktan. Aðstaða til íþróttaiðkunar var ekki góð á höfuðborgarsvæðinu á þessum árum og enn verri úti á landsbyggðinni. Þetta gerði það að verkum að íþróttaferill Vilhjálms varð skemmri en annars hefði orðið ef tími og aðstaða hefðu verið ákjósanlegri.

Vilhjálmur var listhneigður og málaði landslagsmyndir alla sína ævi. Sömuleiðis var hann hagmæltur vel og orti m.a. um föður minn á sextugsafmæli hans. Stíllinn, orðnotkunin og kvæðið í heild ber þess merki að höfundurinn hafði góð tök á kveðskap og kunni sitt fag vel.

Vilhjálmur og Gerður eignuðust sex pilta sem allir sem einn hafa spjarað sig og náð langt hver á sínu sviði. Ég votta Gerði Unndórsdóttur, Rúnari, Einari, Unnari, Garðari, Hjálmari og Sigmari mína innilegustu samúð. Guð blessi minningu Vilhjálms Einarssonar frá Egilsstöðum.

Jón Egill Unndórsson

Ég var sex ára snáði úti í Kaupmannahöfn þegar ég eignaðist blátt bindi með ólympíuhringjunum á. Það hefur verið um jólin´56. Eitthvert óljóst vit hafði ég á hvað það merkti. Þá um sumarið hafði ég verið sendur foreldrum Vilhjálms á Egilsstaði þar til ég yrði sóttur yfir á Seyðisfjörð.

Tveimur árum síðar, aftur kominn á Seyðisfjörð, er mér minnisstætt að standa einn við hlið Villa frænda í inngöngunni í salinn á samkomuhúsinu Herðubreið þar sem hann var að sýna kvikmyndina frá þrístökkskeppninni á Ólympíuleikunum. Enn heyri ég fyrir eyrum mér: „Þarna er ég og þarna er Da Silva.“

Erindi Villa á Seyðisfjörð þá var reyndar að kynna fjölskyldum móðurbræðra sinna sína ungu og glæsilegu brúði, hana Gerði sína. Það gerði hann vissulega með stæl eins og annað.

Tveimur árum seinna, sjötta ágúst 1960, var ég í stúkunni á Laugardalsvellinum, neðst við handriðin beint ofan við stökkgryfjuna, og kallaði á frænda sem gekk þar fyrir neðan og við veifuðumst á. Horfði svo á hann búa sig undir stökkin, vaggandi fram og aftur í einbeitingu, skemmtilega útskeifur. Þegar hann svo kom í stökkið supu karlarnir við hliðina á mér hveljur: „Hann ætlar yfir gryfjuna.“

Þarna jafnaði hann gildandi heimsmet, 16,70, sem hafði verið slegið þremur dögum fyrr.

Þessi misserin áttum við pollarnar á Ármannsvellinum tvær fyrirmyndir aðrar en Roy og Tarzan: Rikka og að sjálfsögðu Vilhjálm sem einstakur ljómi stóð af. Þarna héldum við á spóaleggjum okkar frægar þrístökkskeppnir og þóttumst góðir ef við stukkum yfir 8 metra. Urðum þó ekki slíkir sem þeir sem voru svo lánsamir að fara í íþróttabúðirnar hjá Höskuldi og Villa. En við vorum eigi að síður af Vilhjálmskynslóðinni.

Síðan eru liðnir sex áratugir.

Af öllum mínum flottu frændum hefur hann verið mér nánastur. Ófært er hér að tíunda það. Þar koma þó við sögu bæði Reykholt og Eiðar og Villi í báðum tilfellum mér meiri áhrifavaldur en ég býst við að hann hafi framan af áttað sig á. Ég var sem sagt í Reykholti fyrsta vetur Villa þar og í fyrsta útskriftarárgangi hans og síðar vorum við í nánum tengslum fyrsta ár hans við Menntaskólann á Egilsstöðum – nú fyrir fjörutíu árum.

Við bekkjarsystkinin úr Reykholti höfum hist reglulega þar og jafnan verið í sambandi við Villa. Þegar hann svo braust í því að koma saman bók um skólastjóratíð sína í Reykholti fyrir áratug, Skóli fyrir lífið, leitaði hann til mín. Það skilaði ítarlegri umfjöllun um fyrsta skólastjórnarvetur hans (svo honum þótti reyndar nóg um).

Þó ég láti hér undir höfuð leggjast að bera mig að lýsa hinni lífsglöðu persónu þessa stórfrænda míns þykir mér fara vel á því að enda þetta með því að hafa yfir „ræðu“ sem hann bað mig um að flytja fyrir sig. „Stystu ræðu sem ég hef flutt,“ eins hann orðaði það í símann einmitt þegar ég var að ganga í salinn á samkomu okkar bekkjarsystkina í Reykholti vorið 1991. Hún var flutt til minningar um nýlátinn bekkjarbróður okkar, Karl Sighvatsson:

„Lifið lífinu lifandi.“ Það finnst mér eiga einkar vel við hann sjálfan.

Hjalti Þórisson.

Fyrir nokkrum árum skrifaði knattspyrnuþjálfarinn Eysteinn Hauksson háskólaritgerð þar sem hann leitaði svara við spurningunni af hverju Grindvíkingar hefðu náð lengra á íþróttasviðinu en Héraðsbúar, þótt íbúar svæðanna væru álíka margir. Líkt og Eysteinn þurfti ég einhverju sinni að takast á við háðsglósur vina minna af Suðurnesjunum fyrir þetta, uns mér tókst að svara og benda á að Austfirðingar hefðu eignast verðlaunahafa á Ólympíuleikum áratugum á undan Grindvíkingum.

Ég kynntist Vilhjálmi ekki fyrr en á eldri árum í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Hann kenndi mér ekki íþróttir heldur stærðfræði. Í slíkum tíma hjá honum var ég þegar Vala Flosadóttir vann til bronsverðlauna í stangarstökki á leikunum í Sydney árið 2000. Vilhjálmur var alltaf að laumast út úr tímanum að sjónvarpsskjánum til að fylgjast með Völu og sagði okkur frá afrekum hennar þegar hann kom til baka. Hann var stoltur þegar hann kom úr einni ferðinni og tilkynnti að Vala hefði farið yfir 4,50 metra og væri þar með komin í verðlaunasæti. Vilhjálmur varð ekki við beiðnum okkar um að ljúka tímanum strax til að geta fylgst með Völu, en þegar tíminn var úti drifum við okkur til að sjá síðustu stökk hennar.

Íþróttavöllurinn á Egilsstöðum hefur borið nafn Vilhjálms frá árinu 2001, en hann var endurnýjaður fyrir Landsmót UMFÍ sem haldið var hér þá um sumarið. Nokkrir minnisvarðar eru á vellinum um hið glæsilega afrek hans á leikunum í Melbourne árið 1956, annars vegar skjöldur í brekkunni þar sem áhorfendur sitja, hins vegar skúlptúr framan við völlinn sem sýnir stökkið fræga. Íþróttafélagið Höttur hafði frumkvæði að gerð skúlptúrsins af myndarskap þegar 50 ár voru liðin frá afrekinu árið 2016. Þá hafa spor Vilhjálms verið merkt í brautina við hlið stökkgryfjunnar á vellinum. Þegar maður horfir eftir sporunum og skúlptúrnum verður manni ljóst hvílíkt afrek það er að stökkva 16,26 metra í þrístökki.

Vilhjálmur sýndi áhuga á viðburðum á vellinum og lét iðulega sjá sig þegar stærri frjálsíþróttamót voru haldin þar. Hann tók jákvætt í það þegar til hans var leitað eftir aðstoð en hann afhenti meðal annars verðlaun á Unglingalandsmótum UMFÍ þar. Vilhjálmur bar með sér með jákvæði og hvatningu til keppenda, mótshaldara og samferðafólks.

Það má líka segja að Vilhjálmur hafi tekið þátt í Unglingalandsmótinu 2011 en samhliða því hélt hann málverkasýningu í Austrakjallaranum. Vilhjálmur var liðtækur málari og eftir hann liggur fjöldi mynda af austfirsku landslagi sem sumar hanga uppi á opinberum stöðum, almenningi til yndisauka.

Við Austfirðingar minnumst Vilhjálms sem einstaklings sem sannarlega lagði sitt af mörkum til að efla austfirskt samfélag, íþróttalíf og æsku. Fjölskyldu hans votta ég samúð mína.

F.h. Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands,

Gunnar Gunnarsson,

formaður.

Fallinn er frá sonur þjóðar sem flestir þekktu sem silfurmanninn mikla. Ég hins vegar þekkti Villa betur sem föður besta vinar míns sem vildi allt fyrir okkur drengina gera. Eftirminnilegir eru laugardagarnir þegar enski boltinn birtist á skjánum. Þá bauðst Villi ýmist til að baka fyrir okkur bollur eða poppa. Vilhjálmur náði vel til okkar drengjanna því aldrei talaði hann barnslega við okkur heldur vorum við hálffullorðnir með ráð og visku. Fáir fylgdust betur með heimsmálunum enda hlustaði Vilhjálmur á langbylgju BBC og var oft með tíðindin á undan fréttum sjónvarpsins. Ein af mínum skemmtilegustu jólaminningum úr æsku var að koma í Útgarðinn þegar allir stóru bræðurnir komu austur með sínar fjölskyldur. Frú Gerður var allt í öllu ásamt tengdadætrum að undirbúa jólin og hátíðina með tilheyrandi veisluhöldum. Á meðan ræddu bræðurnir heimsmálin, tefldu skák eða kepptu í hinu og þessu. Óhætt er að segja að það hafi oft þurft að róa bræðurna niður þar sem keppniskapið gat borðið suma ofurliði. Þá sá Vilhjálmur til þess að menn lægðu öldurnar. Það var alltaf gott að koma í Útgarðinn, kossalæti og knúsin hennar Gerðar og einnig væntumþykja þeirra hjóna mun seint líða mér og fleiri sona Egilsstaða úr minnum.

Elskulega Gerður og stórfjölskylda, ég sendi mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Takk fyrir allt elsku Villi, hvíl þú í friði.

Egill Reynisson.

Látinn er Vilhjálmur Einarsson, fyrrverandi sambandsstjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB), okkar fyrsti ólympíuverðlaunahafi og einn farsælasti íþrótta- og æskulýðsleiðtogi þjóðarinnar. Vilhjálmur var formaður UMSB um sex ára skeið á árunum 1967-1973 en var þá jafnframt skólastjóri Héraðsskólans í Reykholti. Það má með sanni segja að það hafi verið bæði heiður og happ að hann skyldi veljast með þeim hætti til starfa í þágu æskulýðs í Borgarfjarðarhéraði. Ýmis nýmæli voru tekin upp í starfsemi UMSB í tíð Vilhjálms en einnig hafði hann ákveðnar hugmyndir um hvernig styrkja mætti fjárhag sambandsins sem gerði öllu félags- og íþróttastarfi innan UMSB mögulegt að vaxa og dafna svo eftir var tekið. Íþróttastarf innan aðildarfélaganna efldist, íþróttaiðkendum fjölgaði sem og íþróttaviðburðum er þá náðu til fleiri aldurshópa. Að frumkvæði Vilhjálms voru haldnar sumarhátíðir í Húsafellsskógi þar sem aðildarfélög UMSB voru virkjuð við undirbúning og framkvæmd þeirra en fengu á móti að setja upp söluskúra til eigin fjáröflunar. Þarna var unnið þrekvirki strax á fyrsta ári við að byggja upp aðstöðu til samkomuhaldsins og í raun lauk því verki aldrei því alltaf þurfti að bæta um betur og auka við. Aðsóknin var mikil; um tíundi hluti þjóðarinnar mætti þegar flest var. Hagnaður af sumarhátíðunum dugði gott betur en að kosta nýtt starf framkvæmdastjóra UMSB. Ásamt fjölmörgum verkefnum beitti Vilhjálmur sér fyrir því að haldið var áfram kostnaðarsömum framkvæmdum við íþróttavöll sambandsins á Varmalandi og hann tekinn í notkun.

Vilhjálmur var sæmdur gullmerki UMSB á sjötíu ára afmælishátíð sambandsins 1982. Framlag hans í þágu UMSB var ómetanlegt. Sambandið bar þess vitni lengi eftir að hann hóf störf á nýjum vettvangi í fjarlægu héraði.

Ungmennasamband Borgarfjarðar vottar fjölskyldu Vilhjálms Einarssonar sína dýpstu samúð. Minning hans mun lifa.

Fyrir hönd UMSB,

Sigurður Guðmundsson, fv. framkvæmdastjóri UMSB,

Jón G. Guðbjörnsson, fv. sambandsstjóri UMSB.

Kjarnorkuverið í Chernobyl var nýsprungið og við Vilhjálmur sátum í lest hraðfara í vesturátt frá Berlín vorið 1986 ásamt félögum okkar úr Skólameistarafélagi Íslands. Við höfðum setið fundi í „Húsi hinnar pólitísku menntunar“ í vesturhlutanum, á ferð um Austur-Þýskaland og hlustað á fyrirlestra í Austur-Berlín um hugmyndafræði kommúnista af fólki, sem glatað hafði sannfæringunni um stjórnskipun skólakerfisins. Skrýtið þótti manni að heimsækja höfuðstöðvar Kennarasambands Austur-Þýskalands og finna fyrir andanum sem réð ríkjum. Við höfðum fyrr í vormánuðinum setið ráðstefnu í námskrárstofnun Vestur-Þýskalands í borginni Soest í Nordrhein Westfalen. Þar var allt með öðru sniði en í austrinu. Margt var skrafað og skeggrætt. Nokkrir ferðafélagar okkar eru nú látnir – þau Þór Vigfússon fararstjóri okkar sem mjög kunnugur var Berlín og var þar við nám er múrinn var reistur, Eygló Guðmundsdóttir, sem leysti hvers manns vanda sem ekki hafði vegabréf handbært en þurfti að glíma við austurþýska lögreglu, og Ingvar Ásmundsson, sem var ráðgjafi Þórs um hvert skyldi halda, Ingólfur A. Þorkelsson, sem hélt sínu striki og staðfestu hvað sem á dundi, Kristinn Kristmundsson sem alla söngtexta kunni, Kristján Bersi Ólafsson sem varðveitti menningararfinn í bundnu máli. Þau og Vilhjálmur settu sinn sterka svip á för þessa. Bjart var yfir hópnum og gleði.

Samverustundirnar voru ánægjulegar enda Vilhjálmur fjörmikill og glaður á góðri stund. Við áttum gott samstarf um hagsmuni heimavistarskóla um nokkurra ára bil ásamt öðrum þeim er hlut að áttu. Minnist ég sérstaklega fundar okkar á Egilsstöðum þar sem ákveðið var að heimsækja frænda Vilhjálms, sjálfan fyrrverandi menntamálaráðherrann Vilhjálm Hjálmarsson, í Mjóafjörð. Lögðum við leið okkar fyrir heiði í dimmri þoku þar til við litum yfir fjörðinn og sáum heim á bæjarhlað frændans sem skyndilega var uppljómað af sólstöfum. Hann stóð veifandi hendi og skýjarof þar yfir nægilega vítt til að umfaðma hlað hans allt og hann sjálfan. Bauð hann okkur til stofu og af honum geislaði mennskan og hispursleysið, sem einlægnin ein elur af sér, og tilgerðarleysið, sem hittir hvern í hjartað, sem hlustar og nemur. Þeir frændur áttu yfir sér töfraljóma; annar anda hreystinnar og gleðinnar og hinn göfuglyndis og hógværðar. Hvor tveggja andinn er svo þarfur öllu skólahaldi. Fyrst kynntist ég Vilhjálmi veturinn 1978-79, hann gegndi þá störfum skólastjóra í Reykholti, er við Ólafur Ásgeirsson skólameistari á Akranesi knúðum dyra hjá honum til að ræða hugsanlegt samstarf milli allra skóla á Vesturlandi um námsskipulag. Ég var þá í fyrirsvari fyrir Kennarasamband Vesturlands og gegndi starfi aðstoðarskólameistara á Akranesi. Var margt rætt um framtíð skólahalds í landinu. Veturinn eftir var hann ráðinn til starfa við Menntaskólann á Egilsstöðum. Ég minnist hans á Laugarvatni við styttu Jónasar frá Hriflu, en Vilhjálmur hafði áður verið skólastjóri Héraðsskólans þar og reyndist sönn lyftistöng í anda Jónasar hvar sem hann gekk fram. Ég minnist hans sem eins í hópi fólks sem setti svip sinn á skólasögu Íslands á síðari hluta síðustu aldar. Vilhjálmur var drengur góður. Blessuð sé minning hans.

Jón F. Hjartarson.

Silfurþrístökk Vilhjálms Einarssonar á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956 er enn merkasti atburður íslenskrar íþróttasögu. Óhætt er að segja að fréttin af stökkinu hafi verið mesta íslenska íþróttafrétt aldarinnar. Í þeirri mannmergð sem á jörðinni lifði var aðeins einn maður er tók Vilhjálmi fram.

Slá má því föstu að landsmenn hafi fundið til stolts við fréttina, sem eins og fréttir af miklum afrekum gullaldardrengjanna nokkrum árum áður veitti ferskum blæ inn í lognmollu hversdagsins; veitti roða í kinnar og vakti bros á vör. Samtímamenn segja þessa ungu íþróttamenn hafa haft gríðarlega jákvæð áhrif á íslenskt æskufólk; blásið þjóðinni sjálfstraust í brjóst.

Vilhjálmur stökk 16,26 metra í Melbourne og stóð það sem ólympíumet í tvær klukkustundir, eða þar til Brasilíumaðurinn Adhemar da Silva komst fram úr í lok keppninnar. Hann bætti um betur og stökk 16,70 á Meistaramóti Íslands á Laugardalsvelli í byrjun ágúst 1960. Til marks um ágæti þess stökks stendur það enn sem Íslandsmet, og engin breyting þar á fyrirsjáanleg.

Með árangrinum í Melbourne jukust kröfur til Vilhjálms sem eins af fremstu íþróttamönnum Evrópu. Hann stóðst prófið og einn sigur vannst af öðrum. Árið eftir vann hann þrístökkið í keppni Balkanlanda og Norðurlandanna og þrátt fyrir óheppni á EM í Stokkhólmi 1958 vann Vilhjálmur þar bronsverðlaun. Fimmta sæti varð hlutskipti hans á Ólympíuleikunum í Róm 1960 og sjötta sæti á síðasta stórmótinu, EM í Belgrað 1962. Þætti svona afrekalisti glæsilegur og jafnvel gott betur enn þann dag í dag.

Afrek vilja gleymast þegar árin líða, en silfurstökk Vilhjálms er undantekning þar á. Nafn hans er fyrir löngu orðið klassískt í íþróttasögunni. Frjálsíþróttadeild ÍR gerir sitt til að halda merki síns gamla félaga á lofti, nú síðast með Silfurleikunum, árlegu innanhússmóti fyrir 17 ára og yngri íþróttamenn. Hefur það farið fram frá árinu 1996 og verið með allra stærstu mótum landsins. Á sjötta hundrað kepptu í síðasta móti 14. nóvember sl.

Að keppnisferli loknum vann Vilhjálmur ötullega að því að efla ungt fólk, fræða og hvetja á sviði íþrótta- og menntamála. Meðan hans naut við í höfuðborginni lagði hann mikið af mörkum í starfi frjálsíþróttadeildar ÍR. Af einstakri ósérhlífni eins og einkennandi er fyrir sjálfboðaliða sem haldið hafa íþróttahreyfingunni gangandi. Fyrir það allt er honum þakkað.

Að vonum hlaut Vilhjálmur margvíslegar viðurkenningar fyrir afrek sín. Eftir silfurstökkið í Melbourne stofnuðu Samtök íþróttafréttamanna til viðurkenningarinnar íþróttamaður ársins. Til hennar vann Vilhjálmur fyrstu fimm árin eða oftar en nokkur annar. Þá var hann fyrstur manna tekinn inn í Heiðurshöll ÍSÍ árið 2012.

Samúðarkveðjur sendum við eftirlifandi eiginkonu Vilhjálms, sonum og barnabörnum okkar bestu samúðarkveðjur. Hans verður vel minnst um ókomin ár.

F.h. Íþróttafélags Reykjavíkur og frjálsíþróttadeildar ÍR,

Ágúst Ásgeirsson.