Helgi Skúlason fæddist 26. febrúar 1945. Hann lést 17. desember 2019.

Útför hans fór fram 7. janúar 2020.

Þó í okkar feðrafold

falli allt sem lifir

enginn getur mokað mold

minningarnar yfir.

(Bjarni Jónsson frá Gröf)

Mig langar að minnast Helga bróður míns í örfáum orðum. Hann lést á Höfða, hjúkrunarheimilinu á Akranesi, skömmu fyrir jól eftir erfið veikindi. Heilabilun er nokkuð sem enginn óskar sér. Óvæginn sjúkdómur og getur varað í mörg ár og þar af leiðandi er sorgarferlið langt og strangt. En við fáum engu um það ráðið, þetta var hlutskipti Helga. Fyrstu árin eftir að heilsan fór að bila dvaldi hann heima og fór í dagvistun. Síðustu tvö æviárin dvaldi hann á Höfða, sem var mikil gæfa fyrir bæði hann og fjölskylduna, sérstaklega Fríðu.

Helgi var næstelstur okkar systkinanna, hæglátur, vinnusamur og fastur fyrir, eiginlega bara þrjóskur að því er mér fannst stundum. Hafði alltaf rétt fyrir sér hvaða rökum sem maður beitti, þetta gat auðveldlega pirrað mann þegar við vorum yngri.

Eftir að barnaskóla lauk má segja að hann hafi flutt alfarið að heiman, fyrst fór hann í Skógaskóla í tvö ár og þaðan lá leið hans í Iðnskólann í Reykjavík til að læra trésmíði sem varð hans ævistarf. Það kom aldrei til greina hjá honum að búa í sveit, honum leiddust sveitastörf.

Helgi hafði mikinn áhuga á bridge og stundaði þá iðju í fjölda ára, einnig safnaði hann frímerkjum frá barnsaldri og fram á fullorðinsár. Hin síðari ár tók stangveiði hug hans allan og dvaldi hann löngum stundum við Hvítá þar sem hann byggði ásamt fleirum aðstöðu til að geta dvalið í ef svo bar undir. Það getur tekið á að stunda veiðimennsku enda laxinn ekki alltaf tilbúinn að „bíta á“. Þá var gott að eiga nóg af þolinmæði og af henni átti Helgi nóg, a.m.k. þegar að veiðinni kom. Sagði gjarnan: „Það er lengi von á einum“ og það var rétt því oftast kom hann heim með fisk þótt allir aðrir færu heim með „öngulinn í rassinum“. Gott dæmi um veiðiáhuga Helga er að þegar heilsan fór að bila og jafnvægið var ekki upp á sitt besta þá smíðaði hann pramma og festi á hann stól. Þar ólaði hann sig niður, batt spotta í prammann og festi í landi og þarna gat hann setið úti í ánni og veitt. Svo fór þó svo að síðustu árin dugði þetta snilldarráð ekki og Fríða tók alfarið við veiðiskapnum en hann fylgdist vel með alveg fram undir það síðasta.

Helgi var tvígiftur, hann skildi við fyrri konu sína, Elsu Aðalsteinsdóttur, sem nú er látin, en með henni eignaðist hann Helga Skúla.

Mikið var hans gæfuspor þegar hann kynntist Fríðu sinni. Nánast annan hvern dag ók hún upp á Akranes þann tíma sem hann dvaldi þar.

Mikið var gaman að við afkomendur mömmu og pabba skyldum hittast í september sl. á Akranesi og eiga þar góða stund í tilefni af aldarafmæli pabba. Helgi var alveg ótrúlega meðvitaður um þessa samveru og talaði um veisluna, þekkti alla og hafði gaman af.

Þarna kvöddum við hann mörg okkar í hinsta sinn.

Ég vil færa starfsfólkinu á Höfða þakkir fyrir einstaka umönnun fyrir hönd okkar fjölskyldunnar.

Elsku Fríða mín, Helgi Skúli og fjölskyldur, hugurinn er hjá ykkur.

Hvíldu í friði kæri bróðir.

Sólveig Jóna.