Í maí í fyrra spurði ég formann Þingvallanefndar, þegar mælt var fyrir breytingu á lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum, hvort það væri ekki réttara að þau stjórnsýslulegu verkefni sem Þingvallanefnd var gert að sinna ættu ekki heima hjá framkvæmdavaldinu.

Í maí í fyrra spurði ég formann Þingvallanefndar, þegar mælt var fyrir breytingu á lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum, hvort það væri ekki réttara að þau stjórnsýslulegu verkefni sem Þingvallanefnd var gert að sinna ættu ekki heima hjá framkvæmdavaldinu. Sérstaklega vegna þess að ef einhver álitamál kæmu upp og umhverfis- og samgöngunefnd (USN) þyrfti að sinna eftirlitshlutverki sínu gagnvart þeim málum. Það myndi þýða að bæði formaður og varaformaður þingvallanefndar þyrftu að fara úr sætum sínum sem nefndarmenn USN og setjast í yfirheyrslusætin fyrir framan nefndina. Ekki nóg með það þá þyrftu Karl Gauti Hjaltason, Hanna Katrín Friðriksson og Líneik Anna Sævarsdóttir einnig að gera slíkt hið sama. Þeir sem sætu eftir í USN til að spyrja nefndarmenn Þingvallanefndar spurninga væru Bergþór Ólason, Jón Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og ég, sem áheyrnarfulltrúi.

Fimm nefndarmenn USN (meirihlutinn) yrðu gestir og fimm, ásamt áheyrnarfulltrúa, væru eftir í eftirlitshlutverki. Væntanlega kæmu varamenn inn í USN, en það er vandséð hvernig nokkur ætlar að spyrja gagnrýninna og nauðsynlegra spurninga. Nema ég auðvitað, það er enginn Pírati í Þingvallanefnd. Engin spurning um tengsl sem þvælast þar fyrir.

Þessi litla nefnd er samt bara dæmi um stærra vandamál sem Alþingi glímir við í eftirlitshlutverki sínu því það er hefð að meirihluti þingsins slái saman í að eigna sér framkvæmdavaldið, og sé því allt á einni hendi; framkvæmdavaldið, löggjafarvaldið, fjárveitingarvaldið og eftirlitshlutverkið með framkvæmdavaldinu. Það hefur nefnilega sýnt sig aftur og aftur að hlutverk meirihlutans á þingi er ekki aðhald og eftirlit með framkvæmdavaldinu heldur að þvælast fyrir því eftirliti, gera lítið úr mistökum eða afglöpum ráðherra, bera fyrir sig stjórnarsamstarf umfram lögbrot eða að halda verndarhendi yfir hagsmunatengslum. Jafn skýrt dæmi um brot á skiptingu ríkisvaldsins og sést í hinni litlu Þingvallanefnd er til í miklu stærri útgáfu í gervöllu þinginu. Við erum bara orðin svo vön því fyrirkomulagi að við höldum að það sé bara eðlilegt.

Hvað ætli yrði sagt ef Landsréttardómari myndi allt í einu standa upp í miðju réttarhaldi og bera vitni fyrir hönd annars málsaðilans? Eða ef lögmaður sama málsaðila myndi hringja í dómara að loknu þinghaldi og hjálpa til við að skrifa dómsorðið? Slíkt er auðvitað fásinna og rugl. Af hverju fær slíkt rugl að viðgangast á Alþingi? Það er ekkert eðlilegt við að Alþingi starfi sem varnarstofnun framkvæmdavaldsins sem sér ekkert illt, heyrir ekkert illt og segir ekkert illt.

Höfundur er þingmaður Pírata. bjornlevi@althingi.is