Harpa Fjölbreytt starfsemi er í húsinu. Frá sýningu á Svanavatninu.
Harpa Fjölbreytt starfsemi er í húsinu. Frá sýningu á Svanavatninu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Síðasta ár var metár í Hörpu hvað aðsókn varðar. Voru 2.155 viðburðir af öllum stærðum og gerðum haldnir í húsinu. Þar af voru 449 tónleikar. Alls voru 191.319 miðar prentaðir út í miðasölunni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hörpu.

Síðasta ár var metár í Hörpu hvað aðsókn varðar. Voru 2.155 viðburðir af öllum stærðum og gerðum haldnir í húsinu. Þar af voru 449 tónleikar. Alls voru 191.319 miðar prentaðir út í miðasölunni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hörpu. Fram kemur ennfremur að í fyrra voru haldnir í húsinu 411 fundir, ráðstefnur, veislur og móttökur. Þar af voru 28 alþjóðlegar ráðstefnur. Aldrei áður hafa svo margar alþjóðlegar ráðstefnur verið haldnar þar. Komnar eru margar bókanir fyrir þetta ár og næsta. Skoðunarferðir undir leiðsögn voru 981 talsins. Flestar voru á ensku fyrir ferðamenn en einnig var efnt til sérleiðsagnar fyrir íslenska hópa og fyrir börn.

Þá segir í fréttatilkynningunni að glæsilegri fjölskyldudagskrá hafi verið hleypt af stokkunum í lok sumars og 144 viðburðir fyrir börn og fjölskyldufólk farið fram í húsinu. Loks er þess getið að hellt hafi verið upp á 350.000 kaffibolla á árinu.

Þegar Morgunblaðið spurði um fjárhag Hörpu á liðnu ári reyndist ekki búið að telja peninga út og inn jafn nákvæmlega og viðburði og kaffibolla, en sagt að upplýsingar yrðu veittar í ársskýrslu í vor. Í fyrra nam tap á rekstrinum 243,3 milljónum króna. gudmundur@mbl.is