Magnhildur Sigurðardóttir fæddist í Efsta-Dal í Laugardalshr. Árn., 4. desember 1922. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Mörkinni í Reykjavík 2. janúar 2020. Hún var dóttir hjónanna frá Efsta-Dal, Jórunnar Ásmundsdóttur húsfreyju, f. 5. okt. 1880 í Efsta-Dal, d. 11. júní 1970 í Reykjavík, og Sigurðar Sigurðssonar, bónda í Efsta-Dal, f. 14 jan. 1879 í Eystri-Dalbæ í Landbroti, V-Skaft., d. 17. mars 1946 í Efsta-Dal. Systkini Magnhildar voru: Ásmundur, f. 1913, d. 1996, Magnhildur, f. 1914, d. sama ár, Sigurður, f. 20. sept. 1915, d. 2. des. 2008, Steinunn, f. 1917, d. 1976, Magnús, f. 1918, d. 1997, Ingvar, f. 1919, d. 1990, og Björn, f. 1920, d. 2008.

Magnhildur giftist 17. október 1942 Sigurði Friðriki Jónssyni búfræðingi og lögregluþjóni en foreldrar hans voru Sigrún Sigurðardóttir húsfreyja, f. 12. júní 1891 í Tjarnargarðshorni, Svarfaðardalshr., Eyjaf., d. 8. nóv. 1972 í Reykjavík, og Jón Þorsteinsson, útvegsbóndi á Fagranesi á Langanesi, N-Þing., síðar bóndi á Syðri-Grund í Svarfaðardal, Eyj. 1930, f. 29 ágúst 1889 á Blikalóni á Melrakkasléttu, Presthólahr., N-Þing., d. 4. des. 1939 á Akureyri. Börn: 1) Júlíus, f. 5. feb. 1943 í Reykjavík, d. 18. nóv. 2017. K. 28 des. 1963 Jóhanna Ellý Sigurðardóttir, f. 24. júlí 1943 í Keflavík. Börn þeirra: Erlendur Ásgeir, f. 25. júní 1964, d. 19. apr. 2011, Hildur, f. 1. nóv. 1966, Júlíus Þór, f. 16. maí 1975, Davíð, f. 18. maí 1978. 2) Sigurður, f. 16. mars 1945. Börn: Svala Rún, f. 25. feb. 1966, Elísabet, f. 27. nóv. 1973, d. 11. mars 2010, Egill Ragnar, f. 22. ág. 1980. 3) Jórunn, f. 22. jan. 1951. M. Sigurður Kolbeinn Eggertsson, f. 20. feb. 1949. Börn þeirra: Sigurmundur, f. 26. nóv. 1972, Steinunn Hildur, f. 12. júní 1974, Sigurður Friðrik, f. 3. apr. 1978. 4) Sigrún, f. 22. mars 1955. M. Þröstur Þorvaldsson, f. 24. okt. 1956. Börn hennar: Jóhann Pétur, f. 13. jan. 1975, Snorri, f. 10. júlí 1983, Birkir, f. 9. mars 1993, Hlynur, f. 9. mars 1993. Börn hans: Kristinn Andri, f. 2. des. 1976, Sólveig, f. 23. júlí 1980. 5) Jón, f. 8. des. 1957. M. Ingibjörg Þóra Arnarsdóttir, f. 31. jan. 1958. Börn hans: Karen Amelía, f. 15. júní 1979, Daði Rúnar, f. 20. maí 1982, Heiða Rún, f. 23. okt. 2000, Ásta María, f. 5. maí 2002. Börn hennar: Arnar Ström, f. 27. feb. 1981, Sólveig Lilja Ström, f. 1. nóv. 1983. 6) Hilmar Steinar, f. 1. apríl 1963. K. Þórdís Sigurðardóttir, f. 20. nóv. 1965. Börn þeirra: Guðbjörg, f. 8. ág. 1990, Jóhannes, f. 27. okt. 1992, Hildur Sif, f. 5. júní 1999.

Magnhildur ólst upp í Efsta-Dal í Laugardal, en flutti til Reykjavíkur um 1940 og bjó á Snorrabraut 35 en 1954 flutti fjölskyldan í Skaftahlíð 29. Eftir að börnin komust á legg starfaði Magnhildur við ýmis störf, lengst af á Grensásdeild Landspítalans. Síðustu árin bjó hún í Mörkinni við Suðurlandsbraut, fyrst í leiguíbúð en flutti síðan á hjúkrunarheimilið í Mörkinni þar sem hún lést.

Útför Magnhildar verður gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 10. janúar 2020, og hefst klukkan 13.

Mamma kvaddi í Mörkinni í Reykjavík 2. janúar sl. og hefði orðið 98 ára á þessu ári. Í Mörkinni leið henni vel í góðri íbúð þar sem alltaf var heitt á könnunni og nóg til með kaffinu. Pönnukökurnar hennar voru frægar og lifði hún fyrir að taka vel á móti gestum sínum. Undir lokin bjó hún á hjúkrunarheimilinu í Mörkinni og sýndi starfsfólkið þar henni alltaf einstaka vináttu.

Mamma hafði alla tíð sterka tengingu við æskuheimili sitt í Efstadal. Móðir hennar Jórunn og faðir hennar Sigurður voru dugnaðarfólk og frumkvöðlar í sveitinni. Hún var alltaf svo stolt af þeim þar sem þau voru langt á undan sinni samtíð. Mamma sýndi ung hversu kjörkuð hún var þegar hún flutti ein til Reykjavíkur árið 1940, þá aðeins 18 ára. Hún vildi vera nálægt Steinu systur sinni sem hafði yfirgefið Efstadalinn á þessum tíma. Milli systranna var einstaklega náið samband. Mamma fékk vinnu á veitingastað í Aðalstræti og Ráða vinkona hennar útvegaði herbergi til leigu á Baldursgötunni fyrir þær báðar. Síðan kom pabbi fljótlega inn í myndina og eitt leiddi af öðru.

Mamma var engri lík hvernig hún tengdist fólki sterkum böndum, ungum sem öldnum. Hún var dagmamma í nokkur ár og sum barnanna sem hún passaði urðu síðan hluti af okkar fjölskyldu. Hún var gleðigjafinn í fjölskylduboðunum og hláturinn hennar ómaði um allt húsið. Hún hélt fjölskyldunni saman frá því ég man eftir mér í gegnum súrt og sætt. Við vorum öll sex systkinin að reyna að ná athygli hennar alla daga og við vildum öll standa okkur vel fyrir mömmu. Ég sagði reglulega við hana að ég ætti bestu mömmu í heimi og hún var alltaf miðpunkturinn í öllu í okkar lífi. Þegar ég bauð vinum mínum heim í partí enduðu allir inn í eldhúsi hjá mömmu að spjalla og þar var kátt á hjalla. Gleðigjafinn hún mamma var alltaf tilbúin að mæta í allar veislur eða fara í bíltúra og síðast en ekki síst elskaði hún að ferðast um heiminn.

Minnisstæðar eru ferðirnar okkar saman til Kaupmannahafnar að heimsækja Unu systur. Þá var mikið fjör og hlegið frá morgni til kvölds. Einnig var ferðin til Berlínar 2014 með mömmu og Nonna bróður mikil ævintýraferð. Í þeirri ferð var mamma að verða 92 ára og fannst sjálfsagt að taka með sér soðið hangilæri því það mátti enginn verða svangur í hennar ferðum. Hún lifði fyrir börnin sín og tengdist þeim öllum mjög sterkum böndum og var þeim frábær móðir, besti vinur og helsti ráðgjafi. Mamma lagði áherslu á dugnað, menntun, sparnað og mikilvægi þess að eiga sitt eigið húsnæði. Hún var snjöll í fjármálum og hafðir skoðanir á pólitík. Mamma átti viðburðaríka ævi og komst í gegnum erfiðleikana með dugnaði og ótrúlegum styrk. Lífið verður aldrei eins án mömmu en minningin um hana og gildin hennar munu lifa áfram meðal okkar barnanna.

Hvíl í friði elsku mamma.

Hilmar Steinar Sigurðsson.

Við andlát móður minnar, Magnhildar Sigurðardóttur frá Efsta-Dal, koma upp í hugann nokkur minningabrot liðinna ára. Þann 4. desember árið 1922 fæddist lítil perla í gamla bænum í Efsta-Dal í Laugardal. Magnhildur hét hún, kölluð Magga og lést hún 2. janúar sl., þá 97 ára gömul. Ég líki móður minni við dýrmæta perlu vegna þess að perla getur verið einstök, sérstaklega verðmæt, sterk og einnig getur hún stækkað og dafnað í skelinni sinni. Móðir mín var yngst í hópi sjö systkina og að sjálfsögðu var hún í miklu uppáhaldi hjá foreldrum sínum og sérstaklega var kært með henni og Steinu eldri systir hennar. Margar sögur hefur maður nú heyrt úr sveitinni og sérstaklega er mér minnisstæð sagan þegar Sigurður faðir hennar kom ríðandi á hesti úr jólakaupstaðarferðinni á aðventunni, þá kaldur og blautur. Litla perlan hans kom þá á harðaspretti niður Efsta-Dals brekkuna til að taka á móti honum og færði honum þá þurra og hlýja ullarvettlinga sem Jórunn kona hans hafði þá prjónað. Þessi litla perla fékk gott uppeldi í Efsta-Dal og óx þar úr grasi, hún var ansi spræk og fjörug og var mikil pabbastelpa.

En það kom að því að perlan yfirgaf skelina sína í Laugardalnum þá 18 ára og flutti til Reykjavíkur sem þá var hernumin af breska hernum, eða árið 1940. Hún festi fljótlega ráð sitt, kynntist Sigurði F. Jónssyni sem hafði þá stuttu áður yfirgefið Svarfaðardalinn og réð sig í vinnu fyrir sunnan. Foreldrar mínir eignuðust sex börn og ég var svo heppinn að vera eitt af þeim og næstyngstur.

Móðir mín lifði alltaf mjög heilbrigðu lífi, fór í sund, göngur og elskaði gömlu dansana. Hún gerði jógaæfingar á stofugólfinu heima langt fram eftir aldri og það geislaði af henni lífskrafturinn. Hún gekk með mér á topp Esjunnar þegar hún var komin yfir sjötugt og einnig tók hún þátt í víðavangshlaupum. Haustið 2014 tók ég þátt í Berlínarmaraþoninu og móðir mín ákvað að koma með sem dyggasti stuðningsaðilinn, en þá var hún að verða 92 ára. Hlaupið gekk vel og við áttum yndislega daga í Berlín ásamt Hilmari bróðir mínum sem fór með okkur um alla borg. Áhugamál hennar voru að fylgjast vel með okkur börnunum og hún sýndi fjölskyldu sinni mikla ást og umhyggju. Hún var okkar trúnaðarvinur og allrabesti vinur og við elskuðum hana öll. Það var gott að vera nálægt henni, þessir jákvæðu straumar og þessi hlýja frá henni umvafði okkur.

Þessi litla perla úr sveitinni varð að risastórri, þroskaðri gæðaperlu sem ekki var hægt að klóna eða verðleggja til fjár, bara horfa á hana og dást að lífsgleði hennar og dugnaði. Hún var ráðagóð og virtist alltaf vera með réttu svörin við hinum flóknustu vandamálum, fann alltaf lausnir og stappaði í mann stálinu. Hennar verður sárt saknað.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Megi minning um ástkæra móður mína lifa að eilífu.

Jón Sigurðsson (Nonni).

Móðir mín Magnhildur Sigurðardóttir lést 2. janúar sl. í Hjúkrunarheimilinu í Mörkinni í Reykjavík, 97 ára að aldri. Hún var yngst átta systkina frá Efsta-Dal í Laugardal.

Eftir langa ævi í gríðarlega góðum tengslum og vináttu við fjölskyldu sína, ættingja og vini þá er af mörgu að taka þegar allar hinar góðu minningar flæða fram nú að leiðarlokum.

Auðlegð móður minnar var fyrst og fremst gríðarlegt þolgæði og elja og þessi stóri fjölskylduhópur, ættingjar og vinir sem héldu stöðugu og gríðarlega verðmætu sambandi við hana í gegnum lífið með einhvers konar ósýnilegum hætti. Engu breytti hvort fólk hittist oft eða sjaldan, alltaf var eins og vináttan, hlýjan og einlægnin væri órjúfanleg.

Þessi einstaka sterka vinátta og fjölskyldutengsl birtust mjög vel þegar hún hélt upp á stærri áfanga í lífinu svo sem merk afmæli því þá mættu allir og hláturinn og faðmlögunum ætlaði aldrei að linna. Margir vina hennar heiðruðu hana alltaf á afmælum og ótrúlegt hvernig börn sem hún gætti þegar þau voru yngri héldu vináttusambandi við hana langt fram á fullorðinsár eins og þau væru enn í fóstri hjá henni.

Það er mikil gæfa að fara í gegnum lífið með svona miklu jafnaðargeði, þolgæði og þrautseigju eins og móðir mín gerði þar sem vandamálin verða þá alltaf að engu, gleymast og hverfa, en gleðin og hamingjan springa út eins og flugeldar. Árangur og afrakstur af svona lífi er líka mikill og verðmætin lifa í hjarta vina og ættingja um ókominn tíma.

Varla er hægt að rita svona fátækleg minningarorð nema minnast á hin nánu tengsl sem voru milli móður minnar og Steinunnar systur hennar en Steinunn lést árið 1976 í blóma lífsins.

Einnig bjó Jórunn móðuramma mín hjá okkur í um tuttugu ár þannig að andi Efsta-Dalsins sveif yfir vötnunum þegar þær hittust og tóku spjall saman. Þær systur héldu einstöku og nánu sambandi alla tíð sem var með þeim hætti að maður var eins og heima hjá sér hvort sem maður var hjá systur mömmu eða bara heima. Þær hittust oft og áttu saman ógleymanlegar stundir og órjúfanlega vináttu þar sem einna eftirminnilegastar eru allar veislurnar sem þær héldu fjölskyldum sínum og einnig fjölskyldum systkina sinna og úr varð heljarins partí eins og þau gerðust best í sveitinni.

Síðustu æviárin bjó móðir mín í Mörkinni í Reykjavík og undi hag sínum vel. Hún var fyrsti íbúinn í þeim íbúðum sem Mörkin-Grund keypti og leigði út til eldri borgara og flutti móðir mín inn hjá þeim árið 2010.

Það var vel tekið á móti henni og forstjórinn Gísli varð sérstakur vinur hennar og í hvert skipti sem þau hittust á göngunum í Mörkinni heilsaði hann henni innilega með nafni og hún ljómaði út að eyrum.

Hún var alltaf einstaklega þakklát fyrir dvölina í Mörkinni enda mjög vel staðið að öllu. Þegar aldurinn færðist yfir hjá henni flutti hún yfir í hjúkrunarheimilið í Mörkinni og fékk þar einstaka umönnun enda allt starfsfólkið þar einstaklega ljúft, mjög hjálplegt og mjög góðir fagmenn.

Ég minnist móður minnar með mikilli virðingu og þakklæti.

Sigurður Sigurðsson.

Í dag kveðjum við elskulegu tengdamóðir mína hana Magnhildi eða Möggu eins og hún var oftast kölluð. Margar og ljúfar eru minningarnar um hana og hugurinn reikar aftur til ársins 2005. Þá vorum við Nonni nýbúin að kynnast og hann vildi mjög fljótlega kynna mig fyrir konunni sem skipaði svo stóran sess í lífi hans, móður sinni. Ég hikaði en lét tilleiðast og aldrei gleymi ég því augnabliki þegar ég hitti tengdamóður mína fyrst, mér leið strax vel í návist þessarar fallegu konu.

Hlýjan, brosið, glaðværðin og góðmennskan geislaði af henni. Þannig var það líka alla tíð, hún tók ávallt á móti mér opnum örmum, eins og dóttur, og fannst mér ég eiga greiðan aðgang að hjarta hennar.

Tengdamóður minni lýsir enginn í nokkrum orðum, svo einstök og yndisleg kona var hún. Hún var heimakær og heimilið hennar fallegt og hlýlegt.

Svo var hún mikil dama og ávallt vel til höfð og smekklega klædd. Allt sitt líf lifði hún fyrir fjölskylduna og faðmur hennar stór og hlýr og aldrei fór neinn svangur eða þyrstur frá henni. Hún hafði svo margt að gefa, ást hennar og umhyggja var skilyrðislaus.

Magga var í miklu uppáhaldi hjá öllum þeim sem voru svo lánsamir að kynnast henni, þannig persóna var hún, brosmild, hláturmild og hafði einstaklega góða nærveru. Kærleikann hafði hún að leiðarljósi.

Það var dýrmætt þegar móðir mín og tengdamóðir kynntust og urðu góðar vinkonur. Margar ógleymanlegar samverustundirnar áttu þær saman og með okkur. Þær voru oft kallaðar „tengdamömmurnar“, báðar lífsglaðar og hressar og gerðu ýmislegt skemmtilegt, sóttu fundi í Valhöll, tóku saman slátur og buðu okkur að sjálfsögðu í mat. Á þeim árum þegar móðir mín keyrði komu þær oft til okkar þegar við dvöldum í sumarbústað, gistu og komu með bakkelsi með kaffinu.

Yndisleg er minningin þegar þær voru svaramenn í brúðkaupinu okkar árið 2010. Svo eru það allar góðu samverustundirnar á jólum, páskum, afmælum og matarboðum, þær tvær sitjandi við eldhúsborðið okkar heima að hlæja og spjalla, ég að stússast í matnum og svo var skálað í púrtvíni.

Já, óteljandi góðar minningar og tengdamamma alltaf búin að baka býsnin öll af sínum heimsfrægu pönnukökum sem hún kom með færandi hendi.

Í veikindum sínum undanfarið sýndi tengdamóðir mín ótrúlega mikinn styrk, yfirvegun og lífsvilja. Það var aðdáunarvert að fylgjast með því í gegnum árin hversu börnin hennar öll sýndu móður sinni mikla ást og umhyggju og hugsuðu vel um hana. Það sýnir hversu mikið hún átti inni af góðvild og kærleik sem þau vildu svo gjarnan fá að endurgjalda.

Með söknuði og þakklæti fyrir allar dýrmætu stundirnar sem við áttum saman kveð ég elskulegu tengdamóður mína. Minninguna geymi ég í hjarta mínu.

Þú barst með þér sólskin og svalandi blæ.

Það sáu víst flestir er komu á þinn bæ.

Þó harmandi væru og hryggir í lund.

Þá hressti og nærði þín samverustund.

(ÁJ)

Guð blessi þig og varðveiti elsku Magga

Ingibjörg Þóra Arnarsdóttir