Birgir Örn Fv. partíplötusnúður hins opinbera.
Birgir Örn Fv. partíplötusnúður hins opinbera. — Morgunblaðið/Hari
Ég er farinn að óttast að ég sé með eyra dauðans; alltént þegar kemur að útvarpsþáttum á Rás 2. Öllu sem ég bind trúss mitt við er skolað burt með baðvatninu.

Ég er farinn að óttast að ég sé með eyra dauðans; alltént þegar kemur að útvarpsþáttum á Rás 2. Öllu sem ég bind trúss mitt við er skolað burt með baðvatninu.

Fyrir nokkrum árum hafði ég mikið dálæti á Plötuskápnum, þar sem ættfaðir okkar íslenskra málmhausa, Sigurður Sverrisson, lék þungarokk úr ýmsum áttum. Sá þáttur var tekinn af dagskrá.

Eins hafði ég ofboðslega gaman af Næturvaktinni þegar Guðni Már Henningsson og Ingi Þór Ingibergsson stjórnuðu henni. Sá þáttur var tekinn af dagskrá. Að vísu sneri Guðni Már aftur um tíma, þangað til hann flutti til útlanda.

Undanfarna mánuði hef ég kveikt annað veifið á þættinum 8-9-0 með partíplötusnúði hins opinbera, Birgi Erni Steinarssyni, á laugardögum eftir hádegi og líkað vel. Vandvirkur og hugmyndaríkur dagskrárgerðarmaður, Birgir, og mátulega hress af plötusnúði að vera. Sá þáttur var tekinn af dagskrá um áramótin.

Eftir lifir einn þáttur sem ég hef yndi af en ég mun ekki gefa upp nafnið á honum enda þótt ég verði ólaður niður og táneglurnar slitnar af mér.

Ég hef á tilfinningunni að nóg sé eftir á tankinum hjá partíplötusnúðnum og hvet aðrar rásir, ekki síst þá sem starfrækt er hér í Hádegismóum, til að taka þátt hans upp á sína arma, fyrst Rás 2 kærir sig ekki lengur um hann.

Orri Páll Ormarsson