Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is Tölur Hagstofu Evrópu (Eurostat) frá 2018 og síðustu þremur árum þar á undan sýna að skimun fyrir brjóstakrabbameini meðal evrópskra kvenna á aldrinum 50 til 69 ára var hvergi algengari en í Finnlandi, en þar gengust rúmlega 83% allra kvenna á þessum aldri að meðaltali undir slíka skoðun 2017. Hlutfallið var 82% í Danmörku á sama tíma. Hér á landi var hlutfallið 2018 og næstu þrjú ár þar á undan langtum lægra í sama aldurshópi eða 57%. Nokkur minnkun varð á aðsókn að brjóstaskimun hér á landi frá aldamótunum síðustu þegar hún var 62%, Meðfylgjandi graf sýnir að 12 Evrópuþjóðir stóðu sig betur í krabbameinsskoðun kvenna á þessu aldursbili á tilgreindu tímabili, 2015 til 2017 eða 2018. Auk Finna og Dana eru það Hollendingar, Norðmenn, Bretar, Slóvenar, Írar, Króatar, Tékkar, Belgar, Maltverjar og Ítalir. Lakastur er árangur Rúmena, 0,2%, en þar er krabbameinsskoðun í algjörum ólestri eins og svo margt annað sem lýtur að heilbrigðisþjónustu í því landi. Stórþjóðirnar Þjóðverjar og Frakkar eru fyrir neðan meðaltalið í Evrópu, þeir fyrrnefndu með 52% þátttöku og hinir síðarnefndu með 50%.

Krabbameinsfélag Íslands hefur um langt árabil annast skimun fyrir brjóstakrabbameini hér á landi samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar. Í nóvember í fyrra tilkynnti heilbrigðisráðherra að þegar samningurinn rynni út í árslok 2020 myndi skimunin færast til Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri. Er hugmyndin að skimanir verði hluti af almennri og opinberri heilbrigðisþjónustu. Heilsugæslan mun aftur á móti annast þá skimun á leghálsakrabbameini sem Krabbameinsfélagið hefur nú með höndum. Starfandi er sérstök verkefnastjórn sem á að gera tillögur um útfærslu á fyrirliggjandi tillögum og ákvörðunum um breytt skipulag á stjórnun, staðsetningu og framkvæmd skimana fyrir krabbameinum. Hún átti að skila tillögum 1. desember en samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu í gær eru þær ekki komnar en eiga að liggja fyrir í lok þessa mánaðar.