Landsliðsæfing Guðmundur Guðmundsson gat notað alla sína leikmenn á æfingu í gær.
Landsliðsæfing Guðmundur Guðmundsson gat notað alla sína leikmenn á æfingu í gær. — Morgunblaðið/RAX
EM 2020 Jóhann Ingi Hafþórsson Kristján Jónsson Íslenska karlalandsliðið í handbolta er mætt til Malmö í Svíþjóð, þar sem liðið leikur í E-riðli Evrópumótsins. Fyrsti leikur liðsins er gegn Dönum á morgun klukkan 17:15.

EM 2020

Jóhann Ingi Hafþórsson

Kristján Jónsson

Íslenska karlalandsliðið í handbolta er mætt til Malmö í Svíþjóð, þar sem liðið leikur í E-riðli Evrópumótsins. Fyrsti leikur liðsins er gegn Dönum á morgun klukkan 17:15.

Ferðalaginu var flýtt um 16 klukkutíma vegna veðurs, en annars gekk það áfallalaust fyrir sig, að sögn Kjartans Vídó Ólafssonar, markaðsstjóra HSÍ, en hann verður liðinu til halds og trausts meðan á mótinu stendur. Leikmenn náðu að hvílast vel í næturflugi og gátu sofið út í kjölfarið.

Þeir æfðu í fyrsta skipti í Svíþjóð í gær og tóku allir fullan þátt í æfingunni, þar á meðal Elvar Örn Jónsson, Aron Pálmarsson og Bjarki Már Elísson, en þeir hafa glímt við meiðsli að undanförnu eins og fram hefur komið.

Að öllu óbreyttu ættu því allir að geta tekið þátt í fyrsta leik liðsins á morgun og má því segja að bati Elvars hafi verið hraður en hann tognaði á ökkla í vináttulandsleiknum gegn Þjóðverjum á dögunum.

Leikið í Malmö á HM 2011

Íslenska liðið æfir í keppnishöllinni í fyrsta skipti í dag, en Malmö Arena tekur um 13.000 manns í sæti. Ekki verður þetta í fyrsta skipti sem handboltalandsliðið spilar í höllinni. Ísland mætti þar Króatíu í leik um 5. sætið á HM árið 2011. Króatía hafði betur 34:33. Fimm sem nú eru í hópnum voru á leikskýrslu í Malmö Arena árið 2011. Fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 10 mörk í leiknum og Alexander Petersson 6. Björgvin Páll Gústavsson, Aron Pálmarsson og Kári Kristján Kristjánsson voru þá einnig í liðinu. Guðmundur Þ. Guðmundsson var landsliðsþjálfari þá eins og nú.

Auk Dana og Íslendinga eru Ungverjar og Rússar í E-riðlinum. Ísland leikur við Rússland mánudaginn 13. janúar og tveimur dögum síðar við Ungverjaland. Komast tvö efstu liðin áfram í milliriðil.