Ávöxtun Árið 2019 reyndist Frjálsa lífeyrissjóðnum einkar hagfellt.
Ávöxtun Árið 2019 reyndist Frjálsa lífeyrissjóðnum einkar hagfellt. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Stærsta fjárfestingarleið lífeyrissjóðsins Frjálsa, Frjálsi 1, skilaði 12,4% raunávöxtun í fyrra samkvæmt uppgjöri. Um 50 þúsund sjóðfélagar eiga fjármuni í þessari fjárfestingarleið.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Stærsta fjárfestingarleið lífeyrissjóðsins Frjálsa, Frjálsi 1, skilaði 12,4% raunávöxtun í fyrra samkvæmt uppgjöri. Um 50 þúsund sjóðfélagar eiga fjármuni í þessari fjárfestingarleið. Heildareignir hennar námu um 140 milljörðum króna um nýliðin áramót. Aðeins einu sinni áður, í þá rúma fjóra áratugi sem þessi fjárfestingarleið hefur verið í boði, hefur raunávöxtun hennar verið meiri, það var árið 2003 þegar hún reyndist 16%.

Árangur sjóðsins er ekki síst eftirtektarverður í samanburði við árið 2018 en þá reyndist raunávöxtun aðeins 1,1% en ári fyrr var hún 5%. Þrátt fyrir hina miklu raunávöxtun Frjálsa 1 var það ekki sú fjárfestingarleið hjá lífeyrissjóðnum sem skilaði bestri ávöxtun. Á toppnum trónir leið sem nefnist „Frjálsi áhætta“.

Raunávöxtun þeirrar leiðar var 13,7%. Sé litið yfir árangur þeirrar leiðar frá árinu 2008, þegar henni var komið á fót, er einnig um næstbesta árangur að ræða. Það er aðeins árið 2015 sem sker sig úr en þá nam raunávöxtunin 15%.

Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa, segir í samtali við Morgunblaðið að nýliðið ár hafi að flestu leyti verið mjög hagfellt fyrir sjóðinn. Þannig hafi nafnávöxtun fjárfestingarleiða sem sjóðurinn býður upp á verið á bilinu 6,2-16,7%. Bendir hann á að flestir eignaflokkar, bæði innlendir og erlendir, hafi gefið vel af sér og að talsverðu máli hafi skipt að innlendur hlutabréfamarkaður rétti talsvert úr kútnum á síðari hluta ársins.