Bjarney Sigurðardóttir fæddist á Seyðisfirði 28. september 1926. Hún lést á LSH Fossvogi 19. desember 2019.

Foreldrar hennar voru Sigurður Jón Halldórsson frá Nýjabæ á Húsavík, f. 28. maí 1898, d. 18. febr. 1995, og Rannveig Bjarnadóttir, f. 13. júlí 1906 á Seyðisfirði, d. 14. apríl 1995.

Systkini Bjarneyjar: Guðrún, f. 14. október 1924, d. 6. maí 2018; Halldór, f. 29. janúar 1928, d. 30. janúar 2000; Svanhildur, f. 28. apríl 1929, d. 5. mars 2002; Ólöf Anna (Stella), f. 7. júlí 1932; Eyþór Ingi, f. 28. ágúst 1934.

Bjarney giftist 16. október 1948 Ásbirni Björnssyni frá Vestmannaeyjum, f. 22. júlí 1924, d. 22. mars 2009. Börn þeirra eru: 1) Rannveig Jónína, f. 1949, maki Stefán Carlsson, f. 1949, börn þeirra eru Hrönn, f. 1975, og Ásbjörn, f. 1979. 2) Björn Eyberg, f. 1951, maki Valgerður Sveinsdóttir, f. 1951, börn þeirra eru Bjarney, f. 1978, Birna, f. 1982, og Ásbjörn, f. 1993. Dóttir Valgerðar, uppeldisdóttir Björns, er Helga Björk, f. 1972. Börn Björns eru Dagmar, f. 1972, Þorfinnur, f. 1974, og Atli Freyr, f. 1975. 3) Fanney Björk, f. 1956, maki Tómas Jóhannesson, f. 1956, börn þeirra eru Tinna, f. 1979, Thelma Ýr, f. 1983, Tanja, f. 1989, og Tómas Orri, f. 1994. 4) Ester, f. 1957, maki Einar Egilsson, f. 1954, börn þeirra eru Egill, f. 1980, Hildur, f. 1985, og Atli, f. 1989.

Barnabörn, barnabarnabörn og barnabarnabarnabörn eru orðin 40.

Bjarney ólst upp á Seyðisfirði til 16 ára aldurs, en þá flutti hún til Reykjavíkur. Fyrstu tvö árin vann hún sem vinnukona (au pair), en eftir að Guðrún elsta systir hennar flutti til Reykjavíkur leigðu þær herbergi saman og fór hún þá að vinna á tveimur stöðum; á daginn í skóversluninni Hvannbergsbræðrum í Hafnarstræti og sem sætavísa í Gamla bíói á kvöldin.

Bjarney var að mestu heimavinnandi húsmóðir, en hún saumaði oft á kvöldin fyrir fataframleiðslufyrirtækið Solido, sem þau áttu ásamt hjónunum Þórhalli Arasyni og Katrínu Ármann. Seinna meir, þegar börnin stækkuðu og fluttu að heiman, vann hún verslunarstörf, bæði í Teddy-búðinni, sem var barnafataverslun, og um tíma í tískuvöruverslun.

Útför Bjarneyjar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 10. janúar 2020, klukkan 13.

Elskulega mamma mín.

Hvað ég á eftir að sakna þín, við vorum svo nánar. Þú varst ekki bara mamma mín heldur líka besta vinkona mín. Við gátum rætt um allt og aldrei varð okkur sundurorða. Þú varst svo góð amma og reyndist mér svo vel þegar börnin mín voru ung. Í mínum veikindum fékk ég alltaf styrk, stuðning og góð ráð frá þér sem hjálpuðu mér mikið.

Í lok október þegar þú fórst á Hrafnistu og hlakkaðir svo mikið til að vera þar í fjórar vikur grunaði mig ekki að þú myndir veikjast og koma ekki aftur heim. En þú áttir góða ævi og nú tekur pabbi á móti þér, elsku mamma mín.

Farðu í guðs friði.

Þín

Ester.

Í dag kveðjum við Baddý Sigga Hall eins Seyðfirðingar nefndu hana stundum. 16 ára tók hún sig til og fór til höfuðborgarinnar og kynntist þar Eyjapeyjanum Ásta frá Heiðarhóli eins og Eyjamenn nefndu Ásbjörn. Það var svo þegar dóttir þeirra Fanney Björk fór til Eyja að hún hitti annan Eyjapeyja. Hún ákvað að að kynna hann fyrir foreldrum sínum. Ég man þegar ég hitti Baddý fyrsta sinni, að hún horfði rannsakandi augum og velti eflaust fyrir sér hvort það væri annar Eyjapeyja grallari á leið í fjölskylduna. Það varð nú svo.

Alla tíð síðan fór vel á með okkur öllum og margar góðar stundir áttum við saman, börn og barnabörn, í Grundargerðinu, bústað í Skorradal, ferðalögum um Ísland og ekki síst í Eyjum. Hún kom í sína síðustu ferð til Eyja núna í haust. Það var farið víða um bæinn, á söfn, heimsóknir, sleppa lundapysjum og svo var endað á „pöbb“ með dóttur og dótturdóttur og frænkum. Já, ekkert kynslóðabil í Eyjum, sagði hún. Samband móður og dóttur, Bjarnaeyjar og Fanneyjar Bjarkar, var einstaklega fallegt, bar aldrei skugga á. Mörg símtölin sem þær áttu saman, ekki síst seinni árin. Bjarney var með allt á hreinu alveg fram á það síðasta, 93 ára gömul en ern. Það er skrítið að kveðja eftir langa samveru, kæra tengdamóðir mín. Takk fyrir allt.

Tómas Jóhannesson.

Það er margt sem fer gegnum huga minn í dag þegar við kveðjum Baddý tengdamóður mína eftir rúmlega hálfrar aldar kynni. Hún flutti ung til Reykjavíkur frá Seyðisfirði til að vinna og kynntist þar eiginmanni sínum er síðar varð, Ásbirni Björnssyni. Hann var frá Vestmanneyjum og hafði flust til borgarinnar til að stunda nám í Verslunarskólanum. Þau giftu sig á látlausan hátt og ég man að Baddý sagði mér að brúðkaupsferðin hefði verið farin upp á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi í leigubíl. Þau stofnuðu heimili og eignuðust sitt fyrsta barn 1949, Rannveigu, sem varð síðar eiginkona mín, 1970. Við hjónin bjuggum í Svíþjóð um nokkurra ára skeið er ég stundaði þar framhaldsnám. Þau hjónin heimsóttu okkur þangað nokkrum sinnum og fórum við meðal annars saman til Álandseyja og Finnlands á stórri ferju. Á þessum dögum sem hafa liðið frá andláti Baddýjar hefur farið í gegnum hugann ýmislegt sem við gerðum með þeim Baddý og Ásbirni, við fórum í veiðiferðir og ferðir til útlanda og í Skorradalinn en þar byggðu þau sér sumarhús og dvöldu langdvölum og við einnig nokkrum árum seinna og þar áttum við góðar stundir saman. Við Ásbjörn gengum til rjúpna í Skorradalnum en hann hafði gaman af skotveiði. Ásbjörn lést heima hjá sér eftir skamma legu snemmvors 2009 og var þá Baddý ein eftir í íbúð sinni í Hæðargarðinum.

Fljótlega eftir að Ásbjörn lést fórum við þrjú saman til Tenerife og hafði hún mjög gaman af því. Hún sá um sig sjálf og eldaði en börnin hjálpuðu til við innkaup. Baddý sótti félagsmiðstöðina í Hæðargarði sér til upplyftingar og dægrastyttingar og þar átti hún góðar vinkonur. Barnabörnin og langömmubörnin sóttu mikið til langömmu og var oft glatt á hjalla og gaman að koma til hennar. Baddý las mikið og þótti okkur nánast ótrúlegt hvað hún komst yfir mikið af bókum. Baddý var stálminnug alveg fram til hins síðasta.

Við kveðjum í dag góða konu sem eftir liggur svo mikið af góðum minningum sem geymast í huga barna, tengdabarna, barnabarna og langömmubarna. Blessuð sé minning Bjarneyjar Sigurðardóttur.

Stefán Carlsson.

Í dag kveðjum við elskulega vinkonu okkar, Bjarneyju hans Ásbjörns heitins, blessuð sé minning hans. Okkur var tamt að nefna bæði nöfnin, þau voru svo náin hjón og samrýnd. Við áttum margar góðar stundir með þeim, eiginmenn okkar voru góðir vinir og gleðin ein ávallt ríkjandi. Minningar frá liðnum árum leita á hugann.

Góðar minningar frá ferðalögum og samverustundum, sem vekja upp bæði gleði og bros. Við vinkonurnar héldum góðum vinskap öll árin, fórum í ferðalög saman og hittumst reglulega í kaffiboðum. Fyrir fáum vikum áttum við vinkonuhópurinn gleðistund í kaffiboði þar sem Bjarney var glæsileg og geislandi að vanda, við nutum þess að vera saman þessa skemmtilegu stund. Ekki hefði okkur órað fyrir að þetta væri síðasta samvera okkar með henni.

Við vottum börnum hennar og þeirra fjölskyldum okkar innilegustu samúð með Guðs blessun.

Megi okkar kæra vinkona hvíla í friði.

Sesselja Ásgeirsdóttir og

Sigríður Sveinbjarnardóttir.

HINSTA KVEÐJA
Elsku langamma.
Við söknum þín rosalega mikið og það var best að vera hjá þér því þá leið okkur vel. Þetta voru bestu ár með þér. Alltaf þegar við komum í boð varstu með súkkulaði og ís og kex. Við vildum að þú værir með okkur um jólin og knúsa þig rosa mikið. Við elskum þig með öllu hjartanu.
Rebekka, Emilía og Andrea.