Sólveig Gyða Guðmundsdóttir fæddist 17. júlí 1946 í Reykjavík. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 30. desember 2019. Foreldrar hennar voru Sigrún Klara Haraldsdóttir, f. 3. júlí 1927, og Karl Ingimarsson, f. 20. september 1925.

Sólveig giftist Gunnari Ólafssyni 16. desember 1978. Saman áttu þau tvö börn; Ingu Maríu, f. 5. desember 1979, og Gunnar Óla, f. 11. maí 1984. Sólveig átti úr fyrra sambandi Guðmund Frey, f. 27. janúar 1974, og gekk Gunnar honum í föðurstað.

Sólveig verður jarðsungin frá Árbæjarkirkju í dag, 10. janúar 2020, klukkan 13.

Elskuleg systir og mágkona, Sólveig Gyða, er látin 73 ára að aldri. Sólveig kom inn í fjölskyldu okkar þriggja ára gömul, ættleidd af foreldrum Ásgeirs, Ragnhildi Ólafsdóttur og Guðmundi Jónssyni, skólastjóra á Hvanneyri. Sólveig var mikið óskabarn en fyrir áttu hjónin þrjá uppkomna syni á aldrinum 16-22 ára sem allir voru komnir í framhaldsnám í Reykjavík. Samskipti við litlu systurina voru því ekki mikil á uppvaxtarárum hennar, aðallega gafst tími til samveru á sumrin og í fríum.

Þetta breyttist eftir að foreldar Ásgeirs fluttu til Reykjavíkur árið 1972 og Sólveig eignaðist sitt fyrsta barn, Guðmund Frey Magnús, árið 1974. Þegar börn koma til sögunnar minnkar aldursbil systkina og foreldra, nándin og samskiptin eflast. Fjórum árum síðar giftist Sólveig yndislegum manni, Gunnari Ólafssyni. Ungu hjónin komu sér upp fallegu heimili í Keilufelli í Breiðholti. Þau eignuðust þrjú börn fyrir utan Guðmund Frey, Ingu Maríu 1979, Sigrúnu Klöru 1982, en hún lést nokkurra daga gömul, og Gunnar Óla 1984. Öll hlutu þau gott uppeldi og menntun og eiga í dag frábærar fjölskyldur. Við dáðumst oft að Sólveigu fyrir dugnað hennar því oft var hún ein með börnin vegna fjarveru Gunnars sem starfaði sem vélstjóri fyrir Eimskip í siglingum milli landa. Auk þess menntaði hún sig og starfaði við blómaskreytingar á þessum árum. Gunnar veiktist skyndilega í siglingu til lands. Við skoðun reyndist hann vera með bráðahvítblæði. Hann lést eftir harða baráttu árið 2012. Í veikindum Gunnars sýndi Sólveig mikið þrek og æðruleysi, studdi hann m.a. í langan tíma í Svíþjóð þar sem hann fór í mergskipti. Við hjónin höfðum töluverð samskipti við Sólveigu og Gunnar eftir að þau keyptu sumarbústað við Laugarvatn rétt hjá okkar bústað. Þar áttu Sigurður bróðir og Laufey einnig bústað. Áttum við margar góðar og eftirminnilegar samverustundir í bústöðum okkar við veislumat og spjall.

Um ári eftir lát Gunnars flutti Sólveig í íbúð eldri borgara í Árbæ þar sem hún kom sér upp fallegu heimili. Þar áttum við saman yndislega stund stuttu fyrir andlátið. Um nokkurn tíma hafði Sólveig fundið fyrir talsverðum lasleika en Þrátt fyrir læknaheimsóknir greindist hún ekki með krabbamein fyrr en síðastliðið haust.

Var hún þá langt gengin með þennan erfiða sjúkdóm og gerði sér grein fyrir hvert stefndi. Í veikindum sínum sýndi Sólveig sem fyrr kraft sinn og æðruleysi og naut stuðnings fjölskyldu sinnar þar til yfir lauk. Hennar verður sárt saknað af fjölskyldu og vinum. Við og fjölskyldur okkar vottum börnum Sólveigar innilega samúð.

Ásgeir og Sigríður.