[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is „Engin velta var á millibankamarkaði með krónur í desember 2019 líkt og í mánuðinum þar á undan.“ Þannig hljómar nýleg tilkynning á vef Seðlabanka Íslands undir liðnum Hagtölur.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

„Engin velta var á millibankamarkaði með krónur í desember 2019 líkt og í mánuðinum þar á undan.“ Þannig hljómar nýleg tilkynning á vef Seðlabanka Íslands undir liðnum Hagtölur. Þegar Morgunblaðið leitaði skýringa á málinu hjá Jóni Bjarka Bentssyni, aðalhagfræðingi Íslandsbanka, segir hann að krónumarkaður hafi verið frekar lítið virkur allan þennan áratug. „Krónumarkaður er sá markaður sem bankarnir nota til að jafna lausafjárstöðu í krónum sín á milli, ef þörf er á. Þessi markaður var býsna virkur fyrir hrun, en hefur allan þennan áratug verið mun minna virkur,“ útskýrir Jón Bjarki.

Hver banki sjálfum sér nógur

Hann segir til frekari skýringar að ef einhver banki telji sig vera með of mikið lausafé, eða vanta lausafé til skamms tíma, þá fari hann á þennan markað og eigi viðskipti við hina bankana, eða þá Seðlabankann sjálfan í gegnum markaðsviðskipti hans. „Það var gjarnan þannig fyrir hrun að bankarnir áttu umtalsverð viðskipti hver við annan í gegnum þennan markað. Nú undanfarin ár hefur þetta meira verið þannig að hver banki er sjálfum sér nógur með lausafé. Virkni þessa markaðar og mikilvægi hans fyrir fjármálakerfið hefur að sama skapi verið minna. Það á sér samt alltaf stað verðmyndun, þar sem bankarnir eru skyldugir til að setja tilboð fram daglega. Tilboðin eru svo í raun eitt fyrsta skrefið í miðlun stýrivaxta, þ.e. hvernig þeir vextir speglast inn á vextina sem bankarnir bjóða eða sækjast eftir á krónumarkaðnum.“

Íslenskir LIBOR-vextir

Glöggt má sjá á meðfylgjandi töflu hve mikill munur er á virkni markaðarins fyrir og eftir hrun. Þegar gögnin eru rýnd nánar á vef Seðlabankans má sjá að oft hafa liðið margir mánuðir í röð á síðustu árum þar sem engin viðskipti eru í gangi. Jón Bjarki bendir á að í gögnum Seðlabankans, eins og í töflunni hér fyrir ofan, megi sjá meðalvextina, REIBID og REIBOR. „Þetta er okkar útgáfa af hinum alþjóðlegu millibankavöxtum LIBOR (London Interbank Offered Rate) sem eru vel þekktir í umræðu á fjármálamörkuðum. REIBID- og REIBOR-vextir eru vísbending um hvar bankarnir stilla sér upp gagnvart stýrivöxtum Seðlabankans. Þó að viðskipti á krónumarkaðnum séu stopul, þá gefa þessi vaxtaboð mikilvæga vísbendingu um hvað bankarnir eru tilbúnir að borga mikið fyrir að taka peninga að láni eða hvað þeir eru tilbúnir að þiggja mikla þóknun fyrir að lána peninga. Þarna mitt á milli liggja svo stýrivextir hverju sinni. Þeir eru einmitt 3% í dag, en 1 mánaðar REIBOR er í dag 3,29 og REIBID 2,93.“

Til frekari útskýringar má nefna að stýrivextir Seðlabankans eru vextir þeir sem bankinn er tilbúinn að greiða fyrir innlán bankanna hjá Seðlabankanum til sjö daga. Það, umfram lausafé sem bankarnir búa yfir, er jafnan geymt hjá Seðlabankanum á þessum vöxtum. „Það má segja að það fé sé jaðarinn á lausafjárstöðu þeirra. Allir bankarnir eiga í dag meira lausafé en þeir þurfa alla jafna á að halda frá degi til dags, og þessu umframmagni er þá rúllað inn á Seðlabankann. Fyrir bragðið þurfa þeir þá ekki að slá hver annan um lán á þessum krónumarkaði. En svo koma undantekningar, þar sem einhvern bankanna skortir lausafé, og þá koma hreyfingar eins og í september sl. þegar urðu eins milljarðs króna viðskipti á krónumarkaðnum, og í júlí 12 milljarðar.“

Gætu orðið útlánsvextir aftur

Eins og Jón Bjarki útskýrir þá voru stýrivextir Seðlabankans útlánavextir fyrir hrun, en þá voru bankarnir að taka umtalsverð skammtímalán hjá Seðlabankanum. Þeir hafi hinsvegar viljað komast hjá því eins og þeir gátu að slá lán hjá Seðlabankanum. Því var krónumarkaðurinn mun líflegri frá degi til dags fyrir hrun að sögn Jóns Bjarka. Frá hruni hafa bankarnir hinsvegar haft umframlausafé. Jón Bjarki segir að ef sú staða breytist séu líkur á að stýrivextirnir verði aftur útlánavextir. „Þá mun lifna yfir markaðnum á ný.“