Garpur Jón Eggert á Íslandi 2016.
Garpur Jón Eggert á Íslandi 2016. — Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Ferðalaginu miðar vel,“ segir Jón Eggert Guðmundsson hjólreiðamaður sem nú er á ferð þvert yfir Bandaríkin frá Flórída.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Ferðalaginu miðar vel,“ segir Jón Eggert Guðmundsson hjólreiðamaður sem nú er á ferð þvert yfir Bandaríkin frá Flórída. Hann lagði upp frá Talahassee í Flórida á gamlársdag og stefnir á San Diego í Kaliforníu við Kyrrahafsströnd. Þarna á milli eru um 5.000 kílómetra þegar farin er leiðin sem er kölluð Southern Tier route og er þekkt meðal hjólreiðamanna sem lengstu leggi velja.

Í byrjun mars

„Ég stefni á að vera kominn á leiðarenda fyrstu vikuna í marsmánuði. Núna er ég kominn langleiðina í gegnum Flórídaríki og nálgast landamærin yfir til Alabama. Er búinn að hjóla um 300 kílómetra og ferðin hefur gengið þokkalega utan hvað hægri pedalinn á hjólinu hjá mér brotnaði á fyrstu dögum ferðar. Ég hef því tekið fótstigin áfram á vinstri pedalanum einum á um það bil 200 kílómetra leið. En mér skilst að reiðhjólaverslun sé ekki langt frá þeim stað sem ég nálgast nú, svo þá ætti ég að fá stykkið sem þarf,“ segir Jón Eggert þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær.

Upphafleg ætlan Jóns Eggerts var að enda ferð sína í La Paz í Mexíkó. Nú er staðan hins vegar sú að bandarísk stjórnvöld biðja fólk um að forðast ferðir þangað vegna óeirða. „Ég mun fylgjast með ástandinu í Mexíkó meðan ég er á ferðalaginu; en eftir Alabama-ríki fer ég í gegnum Lúísíana, svo Texas, því næst Arizona, Nýju Mexíkó og loks Kaliforníu. Breytist ástandið til hins betra skelli ég mér auðvitað til Mexíkó. Ef ekki þá er ég sáttur við að enda ferðina í San Diego í Kaliforníu,“ segir Jón Eggert sem lætur vel af sér á ferðalagi þessu. Hann svo sem ekki heldur óvanur svona verkefnum.

Þríþraut og austurströnd

Á sl. ári reyndi hann við opinbert heimsmet Guinness yfir lengstu þríþrautina og hljóp þá 1.456 km, hjólaði 5.700 km og synti 240 km frá 9. febrúar til 26. ágúst, án þess að missa dag. Síðasta vor fór Jón Eggert svo í hjólaferð suður með allri austurströnd Bandaríkjanna, frá Halifax í Kanada og til Miami í Flórída þar sem hann býr.