Leif Magnús Grétarsson Thisland fæddist í Kristiansand í Noregi 22. janúar 2003. Hann lést af slysförum í Núpá í Eyjafirði 11. desember 2019.

Foreldrar hans eru Grétar Már Óskarsson, f. 4. desember 1980, sjómaður og vélamaður í Vestmannaeyjum, og Heidi Thisland Jensen, f. 4. janúar 1983 í Noregi, d. 20. mars 2011. Leif Magnús er elstur þriggja systkina, systur hans samfeðra eru Elísabet Erla, f. 5. júlí 2012, og Alexandra Árný, f. 11. nóvember 2013, móðir þeirra og fyrrverandi sambýliskona Grétars Más er Sigrún Agata Árnadóttir, f. 16. september 1987.

Móðuramma Leif Magnúsar er Jorun Thisland, f. 26. ágúst 1958, og móðurafi Stein Arne Jensen, f. 5. júní 1957 d. 13. okt 2003. Föðuramma er Torfhildur Helgadóttir, f. 11. júní 1959, og föðurafi Óskar P. Friðriksson, f. 19. júní 1958. Systkin Heidi eru Lisa Marie Jensen, f. 3. október 2000, og bræðurnir Andreas Jensen, f. 12. janúar 1990, og Arne Jensen, f. 11. júní 1995.

Systir Grétars er Valgerður Erla Óskarsdóttir, f. 30. maí 1986, og sambýlismaður hennar Brynjólfur Ásgeir Brynjólfsson, f. 15. ágúst 1988. Börn þeirra eru Malín Erla, f. 24. nóvember 2013, og Kári Kristinn, f. 10. júní 2017.

Leif Magnús var nemandi í Grunnskóla Vestmannaeyja. Hann hafði undanfarin ár þrátt fyrir ungan aldur stundað sveitastörf af kappi, aðallega á bæjunum Hvassafelli, Steinum og Drangshlíð undir Eyjafjöllum. Nú síðast á bænum Leyningi í Eyjafirði. Sveitastörf og vélavinna voru Leif Magnúsi mjög hugleikin. Þrátt fyrir ungan aldur átti hann tvær dráttarvélar og líklegt að hugur hans hafi stefnt til frekari landvinninga í sveitastöfum og landbúnaði.

Útför hans fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 10. janúar 2020, klukkan 15.

Elsku (Leif) Magnús.

Þetta var högg. Nei, þetta var kjaftshögg. Slys, kunnáttuleysi, klaufaskapur, kæruleysi. Stór orð eins og ef og af hverju eru orð sem ég hef mikið hugsað um, spyr út í loftið. En fæ ekkert svar. Þetta var slys,ekkert annað.

Þú þessi fallegi ungi glókollur. Rétt að stíga þín fyrstu skref út í lífið.

Ég man: Þegar við hittumst fyrst. Lítill teinréttur ljóshærður hrokkinkollur, feiminn, feginn að sleppa í burtu eftir að hafa verið kynntur fyrir þessari ókunnugu konu. Þegar við hittumst á fæðingardeildinni, bæði komin til að hitta nýjan fjölskyldumeðlim. Þú að hitta litla systur og ég að hitta lítið barnabarn. Þú varst svo stoltur af henni, straukst litla fingri blíðlega yfir enni hennar og brostir svo undurblítt til hennar. Þegar ég kom til Eyja, kastaði á þig kveðju þar sem þú sast spenntur í sófanum með toppinn ofan í augum og fjarstýringuna þar fyrir neðan. Ekki kom svarið heldur: „Þú ert að trufla mig.“ Þegar leikurinn var búinn komstu til mín og oftar en ekki fékk ég faðmlag. Þegar við vorum saman inni í stofu. Þú spurðir mig hvort ég vildi líka vera amma þín. Ég sagði að það væri meira en velkomið. Veistu hvað mér þótti vænt um þessa bón? Þegar þið Agga sátuð við eldhúsborðið og unnuð heimanámið. Þér fannst það svo leiðinlegt. Þú þoldir þetta ekki. En Agga gafst ekki upp og með þolinmæði og samningaviðræðum tókst ykkur þetta. Þegar þú komst í bæinn með snjóbrettið og þið Agga og systur þínar fóruð saman upp í Bláfjöll. Hvað það var yndislegt að horfa á ykkur brosandi, hamingjusöm. Þegar þú birtist á pallinum hjá okkur síðastliðið sumar. Svona líka fullorðinn, myndarlegur. Fórst hjá þér þegar ég rauk á þig og faðmaði þig. Ég hefði faðmað þig aftur ef ég hefði vitað að þetta væri síðasta sinn sem ég sæi þig.

Samúðarkveðja til þín elsku Grétar. Missir þinn er mikill. Hann gerði þig að föður. Hann var heppinn að eiga þig að. Samúðarkveðja til þín elsku Óskar. Þín vegna átti hann alltaf öryggi og athvarf. Samúðarkveðja til þín elsku Hildur. Hann gerði þig að ömmu. Hans vegna varst þú alltaf til staðar. Samúðarkveðja til þín elsku Valgerður. Hans vegna varst þú besta frænka sem hægt var að hugsa sér. Þolinmóð og stríðin. Samt blíð og kærleiksrík. Samúðarkveðja til þín elsku Agga mín. Þú áttir svo auðvelt með að styðja hann og hughreysta. Hann bar mikla virðingu fyrir þér. Hjá þér gat hann alltaf fengið ráð og stuðning. Haldið áfram að hafa Leibbahelgi. Samúðarkveðja til ykkar elsku Elísabet Erla og Alexandra Árný. Hans vegna fenguð þið stóra bróður. Ykkar vegna eignaðist hann systur. Haldið fast í minninguna um símtalið frá honum. Hann sýndi ykkur hvað hann elskaði ykkur og hvað hann var stoltur af ykkur. Það er þyngra en tárum taki að sjá á bak þessu fallega sambandi sem hefði orðið svo miklu meira, betra og fallegra.

Elsku drengurinn.

Farðu í friði hvert sem þú ferð og hvar sem þú verður vil ég að þú vitir að:

Ég mun hitta þig

þegar tíminn ákveður

hvenær okkar slóð

liggur saman

á ný

Erla Baldursdóttir.

Þú varst bara sjö ára þegar þú ráfaðir aleinn í skóginum við Mandal. Heimabæ móður þinnar í Noregi og þú leitaðir hennar. Hún hafði verið tekin frá þér, farin upp til ljóssins sem þú reyndir að finna á milli þéttra trjátoppanna. En það tók þig ekki nema níu ár að finna ljósið og mömmu þína, hrakinn og blautur. Þú elskaðir sveitina, túnin, heyið og heyskapinn á stórum vélum. Þú varst bara 15 ára, búinn að kaupa tvo traktora en fáir peyjar á þínum aldri geta stjórnað stærstu traktorum með heytætlur og rúlluvélar í eftirdragi. Ég man þegar ég koma fram að Mosunum í fyrra með þér, Páli Magnúsi heitnum og pabba þínum. Þú snaraðist út úr bílnum, tókst stórt skrúfjárn og tengdir milli pólanna á rafgeyminum og vélin hrökk í gang. Snaraðist fimlega upp stigann, inn í risa traktorinn, kúplaðir heytætlunni inn, settir í gír og vélin æddi af stað, glæsilegt. Ég horfði hugfanginn á eftir þér, þú hélst í stýrið og leist út um afturrúðuna til að athuga hvort allt væri í lagið og gjóaðir svo augunum til Ása frænda sem var eitt bros. Rosalega vorum við montnir á þessu augnabliki. Ég af þér og þú, náttúrubarn á heimavelli lífs þíns. Og í sumar þegar Leif og faðir hans tóku við Steinabúinu við fráfall Madda kom ég að þeim feðgum í heyskap. Grétar að raka heyi í garða og Leif Magnús rúllaði. Það stíflaðist í vélinni og minn maður sveiflaði sér út úr traktornum, lagðist undir rúlluvélina og reif úr henni heyið. Þarna var maður á ferðinni sem kunni sitt fag og sló ekki slöku við þó að langt væri liðið á kvöld eftir marga langa daga. Hann var bara 16 ára en kröfurnar sem gerðar voru til hans voru kröfur á fullorðinn mann. Það var óraunhæft, en hann var ákveðinn í að verða bóndi, átti tvo traktora og var klár í slaginn. Var alvörupeyi sem fór sína leið og ætlaði að meika það í sveitinni. En Leif átti ekki eins góða samleið með skólabókunum og sveitalífinu. Maður þarf ekki að kunna dönsku eða samfélagsfræði til að geta unnið á stærsta traktornum í sveitinni með rúlluvél í eftirdragi, eða aleinn að bera skít á tún fram á nótt. Gera við, vera maður og halda öllu gangandi. En það er ekki prófað í skólanum hvað maður kann í lífinu. Ekki frekar en í þinginu. Þá hefði minn maður dúxað alla grunnskóla. Grunnskólakerfið er ekki fyrir nemendur sem kunna meira á lífið en kennslubækurnar. Samt ætlaði Leif að koma heim og klára námið, hann var tilbúinn þegar hann tók þá ákvörðun sjálfur. Ég heyrði í honum rétt fyrir slysið og við ætluðum að hittast í Eyjum um jólin. Hann var kokhraustur og ætlaði að taka bílpróf í janúar og kaupa sér Mustang. Leif bar sig vel í símtalinu, en svo brast röddin. Hann var bara barn, blessaður litli frændi minn, óharðnaður og bjó að þyngri reynslu en barn á að bera. Ég sagði honum ekki frá því að við hinn endann á línunni láku líka tárin mín. Við kvöddumst sem vinir með tárvot augu. Síðasta kveðjan var blaut og köld eins og þegar Leif kvaddi þennan heim á leið inn í ljósið á milli trjátoppanna í Mandal.

Votta Grétari Má, systrum Leifs og fjölskyldunni samúð.

Ásmundur Friðriksson.

Við í sveitinni okkar undir Eyjafjöllum höfum fengið að reyna að tilveran er undarlegt ferðalag eins og Tómas Guðmundsson kvað fyrr á árum. Við erum gestir en ráðum ekki hvað langan tíma við fáum. Það bætast nýir hópar í skörðin en það kemur enginn í staðinn fyrir þá sem við missum. Og elsku Leif Magnúsi mínum honum lá svo reiðinnar ósköp á.

Ég kynntist Leif Magnúsi þegar hann fimm ára gamall kom með Grétari pabba sínum að Hvassafelli eftir að ég flutti þangað. Þá strax kotroskinn, glaður og stríðinn strákur. Grétar hafði verið hér á hlaðinu frá því hann var smá peyi, fyrst hjá Sigurjóni í Steinum og síðan hjá Magnúsi mínum á Hvassafelli. Grétar var Magnúsi miklu meira en vinnumaður því hann var honum eins og sonur og einn af hans bestu vinum. Ég held að það hafi fáum komið á óvart þegar Grétar ákvað skíra son sinn í höfuðið honum og ég veit að það var Magnúsi mikils virði.

Þeir feðgar voru mikið hjá okkur enda Grétar staðráðinn í því að drengurinn hans fengi að kynnast sveitalífinu eins og hann gerði sjálfur sem ungur drengur og maður. Það fór svo að stundum var skólinn ekki alveg kominn í sumar- eða vetrafrí þegar okkar maður var mættur í sveitina til að gera það sem honum þótti skemmtilegast.

Það kom mjög snemma í ljós hver voru áhugamál Leif Magnúsar, það voru dýr þá aðallega hestar, vélar og faratæki af öllum gerðum og hvað var í matinn. Rétt fyrir hádegi kíkti hann í eldhúsið til mín til að athuga hvað væri í pottunum. Ef það var eitthvað sem honum líkaði ekki fékk hann sér Eldfjallasúpu eða Sveitaborgara án sósu og tómata í Gamla fjósinu. En ef maturinn var góður hrósaði hann mér fyrir hann og jafnvel gaf mér leiðbeiningar um hvernig ég gæti bætt hann næst þegar ég eldaði. Hann hreinlega elskaði það að keyra traktora, tala um þá og skoða allt um þá á netinu. Svo kom hann með myndir til mín og fræddi mig um hestöfl, ventla, dekkjastærðir og annað álíka. Þó hann væri enn svo lítill að hann sá vart yfir stýrið á vélunum og að auki allt of ungur til að aka þeim þá komst ekkert annað að en að vera með. Hann var því afar ungur þegar hann var orðinn fullgildur vinnumaður hjá okkur á Hvassafelli. Keyrði áburð á túnin heilu og hálfu sólarhringana, pakkaði heyrúllum og keyrði þær heim í stæður. En Leif Magnús fór sínar eigin leiðir, ef honum líkaði verkefnin sem honum voru falin þá var hann hörkuduglegur, ef honum líkaði ekki við þau þá tók hann þau ekki að sér. Þannig var hann, elsku drengurinn minn.

Magnús minn og fóstri Leif Magnúsar kvaddi Hótel jörð skyndilega í sumar og ég veit að það var unga vinnumanninum okkar þungbært.

Síðasta samtal okkar Leif Magnúsar fór fram í símanum daginn sem hann dó. Hann sendi mér mynd af derhúfu og undir henni stóð „þessi er uppi á vegg í minningu Magnúsar okkar“. Nokkrum tímum síðar var hann kominn til nafna síns og til mömmu sinnar í sumarlandið.

Elsku Grétar Már, Elísabet Erla, Alexandra Árný og aðrir ástvinir, megi æðri máttur styrkja ykkur á erfiðum tímum.

Heiða Björg Scheving,

Hvassafelli.

Mig langar að minnast vinar míns, Leifs Magnúsar. Einn erfiðasti dagur lífs míns var þegar mamma sagði mér að Leif Magnús vinur minn væri týndur og sennilega dáinn. Ég hélt alltaf í vonina að hann fyndist á lífi en örlögin urðu því miður þessi. Við kynntumst þegar hann flutti til Eyja sem lítill strákur og byrjaði í bekknum mínum. Við urðum strax miklir vinir og hefur sú vinátta alltaf verið traust. Það var aldrei leiðinlegt í kringum Leif, honum datt ýmislegt sniðugt í hug og þá vildi hann helst framkvæma það strax. Það var alltaf auðvelt að biðja hann um greiða, hann sagði aldrei nei. Hann svaraði oftast þannig: Jón, við gerum þetta þá bara saman. Leif sagði alltaf að hann ætlaði að verða bóndi. Hann elskaði dýr og þau elskuðu hann. Hann var duglegur að senda mér og mömmu „snapp“ úr fjósinu, af refnum, beljunum og öllum þeim dýrum sem þar voru. Hann vissi allt um traktora og gat talað endalaust um þá og ég bara hlustaði. Hann var líka stríðinn og fannst alltaf jafn fyndið þegar mamma kom og sótti okkur í skólann, og þá sagði hann við hana þegar við vorum lögð af stað: Þú skutlar mér svo bara heim, og hló eins og honum einum var lagið, en hann bjó við hliðina á skólanum. Árið 2015 hafði hann fengið móðurlausan kettling sem var í fóstri hjá langafa hans og vildi hann endilega að ég fengi að eiga hann. Mamma var ekki til í það, en hann plataði hana í heimsókn að skoða kisuna og auðvitað kom Perla með henni heim. Hann var mjög mikið hjá okkur fjölskyldunni og fékk að gista hjá okkur þegar hann vildi. Við höfðum oft um helgar „maraþon“, horfðum á þætti og myndir alla helgina og þóttumst svo vera sofandi þegar mamma kom niður og kíkti á okkur. Við borðum snakk, pizzur sem hann elskaði og höfðum gaman. Hann var alltaf að gefa mér hluti og dót sem mér þykir óendanlega vænt um í dag, og geymi ég það eins og fjársjóð. Hann vildi aldrei þiggja neitt í staðinn nema vináttuna. Leif var vinur vina sinna og ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að vera vinur hans. Eftir að hann flutti í sveitina vorum við mikið í símasambandi og mikið er ég þakklátur fyrir að hafa talað við hann í síma daginn sem hann týndist, um áhugamál okkar beggja, ofurhetjur, bíómyndir og ýmislegt annað. Ég mun minnast þessa samtals alla ævi og vil ég þakka þér, Leif Magnús, fyrir okkar frábæru og einlægu vináttu.

Takk fyrir það sem þú kenndir mér og takk fyrir allt og allt.

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði.)

Þinn vinur að eilífu,

Jón Ævar Hólmgeirsson.