Frumraun Kay Smits leitar leiða framhjá markmanninum Andreas Wolff.
Frumraun Kay Smits leitar leiða framhjá markmanninum Andreas Wolff. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2020 Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Erlingur Richardsson var fyrsti Íslendingurinn á stóra sviðið í EM karla á handbolta, en hann stýrði Hollendingum í fyrsta leik þjóðarinnar á Evrópumóti gegn Þjóðverjum í C-riðli í Þrándheimi í gær.

EM 2020

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is Erlingur Richardsson var fyrsti Íslendingurinn á stóra sviðið í EM karla á handbolta, en hann stýrði Hollendingum í fyrsta leik þjóðarinnar á Evrópumóti gegn Þjóðverjum í C-riðli í Þrándheimi í gær. Hann mátti hins vegar þola 23:34-tap. Hollendingar stóðu lengi vel í þýska liðinu og var staðan 22:19 snemma í seinni hálfleik. Þá tóku Þjóðverjar hins vegar öll völd og unnu að lokum sannfærandi sigur.

Leikurinn var að mörgu leyti svipaður og vináttuleikur Íslands og Þýskalands í Manheim í undirbúningi fyrir mótið. Markmenn Þjóðverja vörðu vel og útileikmenn refsuðu fyrir mistök með hraðaupphlaupum. Líkt og íslenska liðið stóð það hollenska lengi vel í þýska liðinu, en það má ekki mikið út af bera gegn jafn sterku liði og því þýska. Erlingur getur tekið margt jákvætt með sér úr þessari frumraun í leik gegn Lettum á morgun. Þjóðverjar virðast vera með afar sterkt lið og verður spennandi að sjá þá mæta ríkjandi Evrópumeisturum Spánar á morgun.

Það tók Spánverja nokkurn tíma að komast í gang gegn Lettum, sem eru að leika á EM í fyrsta skipti. Staðan var 18:16 þegar nokkuð var liðið á seinni hálfleik, en þá duttu Spánverjarnir í gang og unnu að lokum sannfærandi sigur. Leikurinn var þægilegur fyrir Spánverja á þessum tímapunkti og fengu margir leikmenn að spreyta sig. Þeir verða væntanlega sterkari eftir því sem líður á mótið og verður afar áhugavert að sjá þá kljást við Þjóðverja.

Í A-riðli mættust Hvíta-Rússland og Serbía í Graz í Austurríki. Þar höfðu Hvít-Rússar betur, 35:30. Margir spá því að Hvít-Rússar gætu náð langt og byrjunin lofar sannarlega góðu. Í sama riðli hafði Króatía betur gegn Svartfjallalandi. Luka Cindric, samherji Arons Pálmarssonar hjá Barelona, átti stórleik fyrir Króata og skoraði sjö mörk og lagði auk þess upp fjölmörg á liðsfélaga sína. Það verður áhugavert að sjá hvernig Hvít-Rússum gengur gegn Króötum, en liðin mætast á morgun.