Áform eru um að reisa vindorkugarð í landi Sólheima í Dalabyggð og gætu 27 vindmyllur risið á svæðinu í tveimur áföngum með hámarksafköst upp á 115 MW. Fyrirtækið Quadran Iceland Development ehf.

Áform eru um að reisa vindorkugarð í landi Sólheima í Dalabyggð og gætu 27 vindmyllur risið á svæðinu í tveimur áföngum með hámarksafköst upp á 115 MW. Fyrirtækið Quadran Iceland Development ehf. hefur lagt fram tillögu til Skipulagsstofnunar að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum vindorkugarðsins.

Samkvæmt matstillögu er verkefninu við Sólheima skipt í tvo áfanga. Í þeim fyrri yrðu 20 vindmyllur með hámarksafköst upp á 85 MW. Í öðrum áfanga sjö vindmyllur til viðbótar með hámarksafköst upp á 30 MW. Áfangi 2 yrði í biðstöðu þar til afkastagetan næst í raforkukerfinu.

Nálæg tenging við raforkukerfi

Í tillögunni segir að svæðið búi að góðu aðgengi við vegakerfi og sé með nálæga tengingu við raforkukerfi. Þar kemur fram að æskilegast væri ef verkefnið tengdist kerfinu í gegnum háspennulínur sem eru þegar til staðar á milli aðveitustöðva að Glerárskógum og Hrútatungu.

Framkvæmdasvæðið á Laxárdalsheiði er skilgreint sem mikilvægt svæði fyrir fuglalíf og líffræðilega fjölbreytni að því er kemur fram í tillögunni. Við fyrstu athuganir á svæðinu og úttekt á fuglalífi út frá völdum athugunarstað snemma í maí 2019 hafi verið tiltölulega lítill fjöldi fugla skráður og fáar tegundir.

Í matinu er ætlunin að kanna fuglalíf á svæðinu sérstaklega. Veðurmastur var reist þar í fyrrasumar og var sjálfvirk myndavél sett upp í mastrinu til að safna upplýsingum um virkni fuglategunda á svæðinu. aij@mbl.is