Kristinn Björnsson flensari fæddist í Keflavík 23. júlí 1949. Hann lést hinn 22. desember 2019.

Foreldrar Kristins voru Björn Stefánsson, f. 11. janúar 1925, og Helga Kristinsdóttir, f. 22. ágúst 1927. Systkini hans eru Stefán, f. 11. ágúst 1947, Erna, f. 14. júní 1951, Guðný, f. 17. janúar 1955, og Höskuldur, f. 24. desember 1963.

Kristinn kvæntist Þorbjörgu Unni Magnúsdóttur, f. 29. janúar 1954, hinn 3. nóvember 1974. Börn þeirra eru: 1) Sigríður Björk, f. 7. júlí 1971, eiginmaður Ægir Jóhannsson og eiga þau saman dæturnar Evu Björgu og Eydísi Sunnu og soninn Marvin Daða. 2) Brynjar Atli, f. 29. ágúst 1976, sambýliskona er Karen Svava Guðlaugsdóttir. Börn Brynjars og Sigríðar Þorsteinsdóttur eru Birkir Atli, Arnar Freyr og Tinna Björg. Sonur Karenar er Haukur Ari. Kristinn trúlofaðist Kristínu Sigfúsdóttur 3. september árið 1988. Þau slitu samvistum. Börn þeirra eru: 3) Sigfús Helgi, f. 3. apríl 1989, eiginkona Hulda Ólöf Einarsdóttir og börn þeirra eru Pétur Jóhannes, Rebekka Klara og Sigþór Draupnir. 4) Helga Margrét, f. 5. mars 1992, sambýlismaður Sveinn Karlsson og eiga þau saman dótturina Aríu Rós. 5) Kristín Hlíf, f. 4. febrúar 1996. Langafabörn Kristins eru fjögur. Þá bjó Kristinn í 12 ár með Páleyju Geirdal.

Kristinn fór á unga aldri í sveit austur í Kelduskóg við Berufjörð og varði þar nokkrum afdrifaríkum sumrum. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1969. Frá unglingsaldri stundaði Kristinn sjómennsku og hóf ungur að starfa í Hvalstöðinni. Kristinn sótti flestar eða allar hvalvertíðir frá árinu 1969 til og með ársins 2018, lengst af sem flensari.

Kristinn verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju í Hvalfjarðarsveit í dag, 10. janúar 2020, og hefst athöfnin klukkan 12.

Elsku pabbi, það er sárt að þurfa að kveðja þig en á sama tíma er mikill léttir að vita til þess að þú fáir loksins að hvílast í friði.

Þú varst minn besti vinur þegar ég var lítil og eigum við margar góðar minningar saman. Minningin sem situr hvað mest í höfðinu á mér er þegar við vorum í matarboði hjá vinafólki fjölskyldunnar, þú komst til mín og spurðir hvort við ættum ekki að stelast í burtu og fara í sund. Mér fannst það mjög svo spennandi hugmynd og samþykkti það auðvitað með bros á vör. Húsbílaferðalögin sem við fórum í voru ótal mörg, ég naut ferðalaganna okkar í litla húsbílnum, sem rúmaði varla þrjár manneskjur. En við létum það virka, þótt ég hafi þurft að sofa á gólfinu.

Með tímanum var besti vinur minn farinn að fjarlægjast mig mikið, það er erfitt að horfa upp á árin sem hefðu getað verið svo góð og full af hlýjum minningum hverfa og verða að djúpum og myrkum raunveruleika þar sem fíknin var yfirvaldið. Elsku pabbi, í dag minnist ég þín, góða mannsins sem þú varst. Mannsins sem naut hverrar morgunstundar með kaffi, ristuðu brauði, og vindli. Mannsins sem hlúði að kartöflugarðinum sínum eins og eigin barni.

Þú varst góður maður, elskaður af mörgum og vildir engum illt, en varst fastur í ljótum heimi þar sem góðmennskan þín passaði engan veginn inn.

Pabbi minn, nú hefur þú tekið þitt seinasta skref og hefur sagt bless við heiminn, bæði þann góða og illa. Minningin þín mun þó lifa áfram um ókomna tíð. Hvar sem þú ert veit ég að amma og afi tóku vel á móti þér.

Sofðu rótt elsku pabbi minn, ég elska þig og sakna þín alltaf.

Kristín Hlíf Kristinsdóttir.

Mín fyrsta minning um pabba er þegar hann gaf mér reiðhjól rétt fyrir þriggja ára afmælið mitt. Foreldrar mínir slitu samvistum áður en mundi eftir mér og voru pabbahelgar eitthvað stopulli en þekkist nú til dags. Oftast var farið með pabba til frændfólks og ömmu og afa til Keflavíkur. Síðar kynnist pabbi henni Stínu og fer að búa með henni í Hvalfirðinum, meiri regla komst á líf hans og hann eignaðist með henni þrjú börn. Seinna æxlaðist það þannig að við fórum að vinna saman, fyrst á sláturvertíð og síðar vorum við saman á sjó. Þá hafði hann samband og vildi fá mig sem kokk á bát, hafði trú á drengnum, sem á þeim tíma var vart fær um að sjóða vatn. Enda fór það svo að eldamennskan lenti að mestu á honum. Þar má segja að ég hafi kynnst honum hvað mest og best.

Pabbi var vel liðinn í vinnu, enda margt til lista lagt, þægilegur í umgengni og duglegur. Hann var víðlesinn og fróður og spáði allnokkuð í hinn dulræna heim. Stórveislur og fjölmenni voru ekki hans uppáhald, hann undi sér betur maður á mann. Hann hafði unnið í um 20 ár í hvalstöðinni þegar hvalveiðum var hætt 1989. Þegar veiðarnar byrjuðu aftur 2009 ljómaði hann og rifjaði upp gamla takta, var þar síðustu vertíð 2018 og hafði þá haft starfsheitið flensari í um 50 ár. Alla tíð barðist pabbi við sína fíkn, stundum komu góðir kaflar og stundum lægðir. Síðast hitti ég hann á 70 ára afmæli hans og áttum við þá góða stund, en sjá mátti á honum þreytumerki. Margar góðar minningar á ég um þig pabbi og ég sakna þín. Þangað til næst.

Þinn sonur,

Brynjar Atli.

Elsku pabbi.

Þegar ég sest hérna niður til þess að skrifa minningargrein um þig átta ég mig á því hversu lítið ég þekkti þig í raun. Þú varst ekki maður margmennis né varstu mikið fyrir athygli. Það verður líka seint sagt að þú hafir verið framfærinn en bóngóður og greiðvikinn varstu og nutu margir góðs af því. Þú varst vel lesinn og fróður um marga hluti og man ég hvað ég var stolt af þér þegar ég hlustaði á þig í spurningakeppni í útvarpinu þar sem þú komst alla leiðina í úrslitin.

Þið mamma skilduð þegar ég var 7 ára. Þú hafðir þá þegar valið þér lífsförunaut sem fylgdi þér allt til enda. Fíknin er harður húsbóndi og refsar grimmt. Fyrir því fékkst þú oft að finna en þú áttir góð tímabil inn á milli. Samskipti okkar voru ekki mikil eftir skilnaðinn en ósjaldan litum við inn hjá þér í Hvalstöðinni á leiðinni til ömmu og afa í sveitinni og fengum að sjá þig við þá iðju sem þú naust þín best við, sem flensara. Við Binni bróðir fengum líka oft að fara með þér til ömmu og afa í Keflavík og minnist ég þess tíma með hlýju. Um 10 árum eftir að þið mamma skilduð varst þú svo lánsamur að kynnast henni Stínu og eignast með henni þrjú börn, systkini mín, sem ég er svo þakklát fyrir í dag. Sá tími sem þið Stína áttuð saman var góður og samskipti okkar urðu meiri um tíma.

Undir lokin hafðir þú misst sjónar á því sem skiptir mestu máli í lífinu og því fór sem fór. Ég skil vel að þú hafir gefist upp, brekkan var orðin of brött og erfitt að sjá upp á tindinn. Ég lifði lengi í voninni um að þú myndir leita þér hjálpar og ná þér á strik en sú von er úti núna. Þér líður vonandi betur á þeim stað sem þú ert núna, væntanlega hjá ömmu og afa sem alltaf stóðu þér við hlið og voru svo sannarlega betri en enginn.

Þegar dags er þrotið stjá

þróttur burtu flúinn.

Fátt er sælla en sofna þá

syfjaður og lúinn.

(Rögnvaldur Björnsson)

Sjáumst seinna.

Sigríður Björk.

Elskulegi faðir minn hefur nú kvatt fyrir fullt og allt er hann tók þá ákvörðun sjálfur að segja skilið við lífið. Orð fá því varla lýst hve heitt ég elskaði pabba, og ég elskaði hann bara meir með degi hverjum. Pabbi minn var yfirburða góður og hjartahlýr maður, rólegur og ávallt samur við sig, hvernig sem vindurinn blés. Hann var garðálfur í meira lagi, ákveðinn, athafnasamur og mikill þúsundþjalasmiður.

Þegar ég hugsa um allar okkar góðu minningar þá eiga þær sér oftar en ekki stað undir berum himni, úti að huga að garðinum heima eða í ferðalögum. Oft dúkkar upp í huga mér sú minning þegar fjölskyldan mín og vinafólk okkar fórum saman norður í bústaðaferð eitt sumarið, laust eftir aldamótin. Þar ákváðum við að fara í boltaleikinn „Yfir“ yfir bústaðinn. Þegar pabbi greip boltann sem ég kastaði yfir þá hljóp hann af stað kringum húsið, svo ótrúlega léttur á fæti, og reyndi að ná mér. Ég man ennþá adrenalínið, hvað ég öskraði skrækt og hve mikið hann hló. Mikil ósköp sem mér þótti þetta gaman. Í minningunni var allt bjart, hlýtt og grænt. Svona minnist ég pabba, og þetta er sá yndislegi maður sem ég er að kveðja.

Þó er eins og pabbi sé á við tvo menn, því hann hafði þó nokkra djöfla að draga, sem fóru verulega að halda aftur af honum seinustu ár ævi hans. Pabbi var kominn inn í myrkan heim sem hann var allt of góður fyrir og fann þar hvergi fótfestu. Myrkan heim þar sem einungis fórnarlömb fíknar og Bakkusar dvelja. Þar fannst honum hann samt vera knúinn til að veita hjálparhönd í allar áttir, sem þó skilaði hvergi neinum árangri sem slíkum. Þrátt fyrir allt var hann ávallt samur við sig og skipti aldrei skapi, og var með eindæmum áreiðanlegur að því leytinu til. En hann vildi komast burt úr þessu öllu og sá sér aðeins eina útgönguleið, og greip þá tækifærið þegar það gafst.

En hann pabbi sagði ávallt ýmist satt eða ekki neitt. Þegar ég hugsa aftur í tímann man ég ekki til þess að pabbi hafi nokkurn tímann logið af neinu viti. Og ef hann reyndi að plata þá var hann afburða lélegur lygari og alltaf sást beint í gegnum lygina. Því sagði hann frá öllu umbúðalaust ef hann var spurður. Þetta er dásamlegur kostur sem fáir geta státað af, að vera eins hreinn og beinn og hugsast getur, að geta ómögulega verið óheiðarlegur. Það er pabbi.

Pabbi minn, ég elska þig út í hið óendanlega og ég vona að við sjáumst aftur síðar. Far þú nú blessaður.

Helga Margrét Kristinsdóttir.

Kæri pabbi. Dagarnir sem liðið hafa frá fráfalli þínu hafa verið mér erfiðir. Mér hafa verið hugleiknar góðar stundir sem við upplifðum saman, erfiðar stundir og allt þar á milli. Án þess að skafa af erfiðu stundunum – þú veist til hvers ég vísa – þá get ég samviskusamlega sagt að það eru góðu stundirnar sem sitja eftir. Ég minnist þess þegar við spiluðum tölvuleiki saman þegar ég var ungur strákur. Þú prentaðir út leiðbeiningar um hvernig mætti klára tiltekinn, sérlega flókinn tölvuleik – og það þegar internetið þurfti að hringja sig í samband. Þú leyfðir mér að fylgja þér í garðvinnunni og sýndir mér þolinmæði þegar ég gekk ógætilega til verks. Þú last fyrir mig og hvattir mig áfram í námi. Þú sagðir mér sögur af því þegar þú fórst ungur austur í sveit og veittir mér hugrekki til að feta í þín fótspor með því að fara sjálfur austur í sveit. Eins og þú sagðir mér sögur úr sveitinni, segi ég mínum börnum sögur úr sveitinni. Þrátt fyrir að þú hafir aldrei verið sérlega opinn, þá hafðir þú þinn hátt á við að koma þínum sjónarmiðum og óskum á framfæri. Þetta lærðist mér þegar ég náði unglingsaldri og skammarstrikin fóru að vera afdrifaríkari en í garðvinnunni forðum daga. Ég kunni alltaf að meta hvernig þú komst orðum að hlutunum í rólegheitum, ég bar virðingu fyrir þeim orðum og lærði af þeim, jafnvel þó lærdómurinn tæki stundum dágóða stund.

Eftir því sem ég fullorðnaðist stóðst þú sem fyrr við bakið á mér. Þú komst mér í vinnu þar sem þú hafðir tök á, þú last yfir ritgerðirnar og verkefnin mín og þú laumaðir að mér bókum sem þú mæltir með. Þín nálgun í uppeldinu á þessum árum var varfærnisleg, laus við yfirlæti og ýtni. Það kunni ég að meta, verandi heldur óstýrilátur um tíma. Þegar ég var að hefja búskap studdir þú mig fjárhagslega eftir getu og sömuleiðis þegar kom að barneignum. Við grínuðumst stundum með að þú hafir, með þínum hætti, fjárfest í fjölskyldunni okkar. Sú fjárfesting bar ríkulegan ávöxt. Svo, í seinni tíð, er mér minnisstætt þegar þú sast hjá mér eftir að ég fór í bakaðgerðina. Við spjölluðum saman og þögðum saman, hvort tveggja veitti mér ánægju.

Þú sérð það því, pabbi, að minningar mínar af tíma okkar saman eru jákvæðar. Jákvæðu minningarnar eru það sem skiptir máli. Ég lærði svo margt af þér, með beinum eða óbeinum hætti. Þolinmæði, rósemd og jafnaðarlyndi. Þannig man ég þig og þannig vil ég halda minningu þinni á lofti. Minning þín lifir með mér og öðrum afkomendum þínum, og ég held henni lifandi með því að kenna börnunum mínum það sem þú kenndir mér. Takk fyrir tímann okkar saman, pabbi. Hvíldu í friði.

Sigfús Helgi Kristinsson

Elsku tengdapabbi minn. Það er óhætt að segja að stórt skarð hafi verið höggvið í hjörtu okkar hinn 22. desember þegar við fengum þær þungu fregnir að þú værir fallinn frá. Ég er búin að hugsa svo mikið um hvernig okkar samskipti og tengsl voru frá því að ég kom inn í fjölskylduna þína fyrir tæpum tíu árum. Það var gaman að fá að hitta þig í fyrsta sinn með Sigfúsi sem kærastan hans því ekki varstu að hitta mig í fyrsta sinn þá þar sem þú þekktir einhver deili á mér úr fjölskyldu fyrrverandi sambýliskonu þinnar. Þú tókst mér mjög vel allt frá fyrsta degi og áttum við fljótt mörg og góð samtöl um alls konar málefni. Þú varst mjög áhugasamur í spjalli við mig um sveitina mína og sagðir mér einnig frá því þegar þú varst í sveit sem ungur pjakkur. Það var mjög gaman að hlusta á sögurnar þínar og allan þann fróðleik sem þú hafðir að geyma. Þú varst ansi handlaginn og komst oftar en ekki til að hjálpa okkur Sigfúsi við ýmiskonar viðhald á okkar heimili. Eitt af þessum skiptum komstu færandi hendi með stóra silfraða verkfæratösku handa okkur því þér leist ekkert á hve mikill skortur var á verkfærum á heimilinu. Þú varst sjaldnast langt undan þegar á reyndi og var engin undantekning þegar við Sigfús klifum þá erfiðu brekku að fara í gegnum allan þann kostnað og erfiðleika sem glasameðferðir fela í sér. Sigþór Draupnir ber mikinn brag frá þér og er gangandi kraftaverkið okkar. Ég vil þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur og hvernig þú bæði tókst mér og börnunum opnum örmum inn í fjölskylduna og gerðir okkur að þinni. Börnin minnast afa síns eins með kærleik í hjarta.

Þín tengdadóttir og barnabörn,

Hulda, Pétur Jóhannes,

Rebekka Klara og

Sigþór Draupnir.

Fallin er frá sómamaður, Kiddi Björns, eins og hann var ávallt kallaður. Kiddi var sambýlismaður minn til 17 ára og faðir barnanna minna. Störfuðum við bæði í Hvalstöðinni þegar við tókum að rugla saman reytum okkar. Hann sem flensari á plani, einn sá færasti á landinu. Lífsbaráttan hjá okkur var hefðbundin. Við byggðum okkur hús í Hlíðarbænum og átti Kiddi mörg handtökin þar. Keypt var fokhelt og gert og græjað eftir því sem tími leyfði. Meðan á þessum framkvæmdum stóð bjuggum við í bragga í Hvalstöðinni sem Kristján og Birna Loftsbörn lánuðu okkur. Kiddi var handlaginn; hafði gaman af að smíða en garðrækt var jafnframt hans yndi. Hann var ekki mjög mannblendinn, rólegur mjög, greindur og víðlesinn, en fór alltaf sínar eigin leiðir, hvort sem mér líkað það eða ekki. Ef ég vildi gera eitthvað öðruvísi og hann ekki sammála notað hann ávallt tækifærið ef ég var að vinna og ekki heima og kláraði dæmið eins og hann var búinn að ákveða að hafa þetta. Garðrækt var mikið áhugamál og átti hann það til að vera með allskonar tilraunir í garðinum. Eitt vorið var frekar blautt og rigningasamt, ég skildi ekkert í þessum vonda fnyk sem blossaði upp þegar upp stytti. Ég fór eitthvað að spyrjast fyrir hverju þetta sætti og, jú, jú, komst að ástæðunni fyrir rest. Þá hafði minn maður fengið sér bæði hænsnaskít og refaskít, blandað þessu í eitt, og útkoman var þessi líka hræðilegi fnykur allt sumarið. Hvalstöðin átti hug hans allan og starfaði hann þar í allmörg ár sem flensari á plani og ekki bara það heldur náði hann á þessum árum öllum að fanga tvær heimasætur úr Hvalfjarðarsveit; fyrst hana Obbu og eignaðist tvö börn með henni, síðan mig og eignuðumst við þrjú börn. Óhætt er að segja að Hvalstöðin og Hvalfjarðarsveit hafi skipað stórt hlutverk í hans lífi.

Elsku Kiddi minn, nú er þessu lífshlaupi lokið hjá þér á þessari jörð. Vonandi ertu kominn á bjartari og betri stað, vinur. Ég mun reyna að passa sameiginlega fjársjóðinn okkar, börnin okkar.

Hvíl í friði

Þín fyrrverandi sambýliskona og barnsmóðir,

Kristín Sigfúsdóttir.