[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Óhætt er að áætla að tjón í desemberóveðrinu og kostnaður við það sé að minnsta kosti vel á annan milljarð króna, samkvæmt athugun blaðsins. Gæti orðið mun meiri þegar öll kurl eru komin til grafar og þá skipt milljörðum.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Óhætt er að áætla að tjón í desemberóveðrinu og kostnaður við það sé að minnsta kosti vel á annan milljarð króna, samkvæmt athugun blaðsins. Gæti orðið mun meiri þegar öll kurl eru komin til grafar og þá skipt milljörðum.

Stofnanir, sveitarfélög, tryggingafélög og fleiri eru að safna saman upplýsingum um tjón í veðurhamförunum í desember. Þá er starfshópur forsætisráðherra að safna saman upplýsingum og funda með fulltrúum fyrirtækja og sveitarfélaga.

Mesta tjónið varð á Norðurlandi, eins og kunnugt er og eins og sést á meðfylgjandi grafi eru stærstu tölurnar þar skemmdir á flutningskerfi og dreifikerfi raforku og afleiðingar þess fyrir einstaklinga og fyrirtæki, ekki síst bændur.

Vilja flýta framkvæmdum

Landsnet áætlar að kostnaður við viðgerðir á flutningskerfinu verði rúmar 300 milljónir kr. Inni í þeirri tölu er áætlaður kostnaður við viðgerðir á Laxárlínu og Fljótsdalslínu 4 sem enn hefur ekki verið ráðist í.

Rarik áætlar að heildarkostnaður vegna viðgerða á dreifikerfinu á Norðurlandi geti numið um 200 milljónum króna. Tryggvi Þór Haraldsson forstjóri tekur fram að ekki sé búið að ákveða hvernig staðið verði að síðustu viðgerðunum. Verið sé að meta hvort hagkvæmara sé að flýta framkvæmdum við að leggja tilteknar línu í jörð, frekar en að ljúka fullnaðarviðgerðum á loftlínum. Þetta á meðal annars við um línur í Hörgárdal og Svarfaðardal.

Náttúruhamfaratrygging hefur fengið um 20 tjónstilkynningar og er áætlað að heildartjón sem fellur innan vátryggingaverndar hennar nemi á bilinu 20 til 40 milljónum króna. Einkum er um að ræða tjón á hafnarmannvirkjun og tjón á fasteignum á nokkrum stöðum vegna sjávarflóða.

Almennu tryggingafélögin hafa fengið á fjórða hundrað tilkynningar um tjón. Í flestum tilvikum er tilkynnt um skemmdir á húsum og bílum, að því er fram kom í frétt Ríkisútvarpsins í fyrrakvöld, og er áætlað að heildartjónið hlaupi á hundruðum milljóna króna.

Dýr snjómokstur

Sveitarfélögin hafa orðið fyrir tjóni og þurft að leggja í aukinn kostnað. Nefna má sem dæmi að í Húnaþingi vestra urðu skemmdir á sjóvörnum, olíukostnaður vegna bilunar veitna stórjókst, dælur vatnsveitu biluðu vegna rafmagnstruflana og skemmdir urðu á slökkvibíl og fleiri tækjum. Þá hefur orðið mikill aukakostnaður við snjómokstur og kostnaður vegna aukavinnu starfsmanna veitna og sveitarfélagsins til að halda samfélaginu gangandi. Áætlað er að kostnaður vegna snjómoksturs í Sveitarfélaginu Skagafirði hafi að lágmarki verið 20 milljónir kr. í desember, mun meiri en í venjulegu ári.

Áætlað er að viðbótarkostnaður Vegagerðarinnar vegna snjómoksturs hafi verið um 180 milljónir. Að auki er tjón á hafnarmannvirkjum og sjóvörnum um 190 til 210 milljónir kr., gróft áætlað.

Tjón varð í fyrirtækjum og hjá einstaklingum, vegna rafmagnsleysis og erfiðleika með samgöngur. Nefna má áhrif á flugfélögin vegna röskunar á flugi og ferðaþjónustuna. Icelandair gefur ekki upp aukakostnað sinn.

Afurðatjón er að koma fram

Mesta tjónið hjá einstaklingum er þó vafalaust í sveitunum, hjá bændum. Talið er að liðlega 100 hross hafi drepist á Norðurlandi vestra. Einnig varð afurðatjón hjá kúabændum. Þeir þurftu að hella niður mjólk sem ekki var hægt að kæla í rafmagnsleysinu. Samkvæmt upplýsingu Auðhumlu, samvinnufélags mjólkurframleiðenda, minnkaði innvegin mjólk í samlög í óveðursvikunni um 43 þúsund lítra. Kom það aðallega fram í Húnaþingi og Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslu. Garðar Eiríksson framkvæmdastjóri segir að þegar ekki sé hægt að mjólka kýrnar um tíma tapi þær nyt og hætta á júgurbólgu aukist. Þetta afurðatap komi fram á lengri tíma. Erfitt sé að sjá það á tölum um innvegna mjólk því mjólkurframleiðslan sé að aukast á þessum tíma árs.

Gripa- og afurðatjón hleypur væntanlega á tveimur eða fleiri tugum milljóna. Bændur geta ekki tryggt sig gegn því. Til dæmis tekur sameiginleg rekstrarstöðvunartrygging Auðhumlu og bænda ekki til tapaðrar framleiðslu vegna rafmagnsleysis.

Bjargráðasjóði er ætlað að bæta tjón á girðingum sem talið er mikið. Það kemur hins vegar ekki í ljós fyrr en snjóa leysir. Til að gefa hugmynd um stærðargráðu tjónsins má nefna að Bjargráðasjóður greiddi 120 milljónir vegna tjóns í veðurhamförunum á Norðausturlandi 2012.

Átakshópur stjórnvalda fjalli einnig um tjón hjá bændum

Bændasamtök Íslands óskuðu eftir því við forsætisráðherra að átakshópur sem skipaður var til tiltekinna verkefna í kjölfar óveðursins fjalli einnig um leiðir til að mæta því tjóni sem bændur urðu fyrir í óveðrinu.

Einkum er átt við tjón sem varð vegna afurðataps hjá kúabændum af völdum rafmagnsleysis. Einnig þurfi að taka tillit til gripatjóns í óveðrinu og tjóns á girðingum.

Tekið er fram að bændur geti ekki tryggt sig á almennum markaði fyrir þessu tjóni. Bent er á í bréfinu að við sambærilegar aðstæður hafi stjórnvöld jafnan brugðist sérstaklega við, til dæmis með sérstökum fjárveitingum til Bjargráðasjóðs. Getið er um tjón vegna eldgosanna á Suðurlandi á árunum 2010 og 2011, fjárskaða vegna óvenjulegs tíðarfars árið 2012 og stórfellt tjón vegna kals í túnum á árinu 2016.