[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Vetrarólympíuleikar ungmenna voru settir í Lausanne í Sviss í gærkvöldi.

*Vetrarólympíuleikar ungmenna voru settir í Lausanne í Sviss í gærkvöldi. Ísland á fjóra keppendur á leikunum: Einar Árna Gíslason og Lindu Rós Hannesdóttur í skíðagöngu og Gauta Guðmundsson og Aðalbjörgu Lillý Hauksdóttur í alpagreinum en Aðalbjörg var fánaberi Íslands á leikunum. Grímur Rúnarsson og Dagmar Ýr Sigurjónsdóttir eru þjálfarar í alpagreinum og þau Sigrún Anna Auðardóttir og Vadim Gusev í göngunni.

Leikarnir standa yfir frá 9. til 22. janúar og eru keppendur 1.880 talsins. Leikarnir eru fyrir afreksfólk á aldrinum 15 til 18 ára.

* Tvíburarnir Dagur og Máni Austmann Hilmarssynir eru nú báðir orðnir leikmenn Leiknis í Breiðholti sem leikur í B-deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Máni gekk í gær í raðir Leiknis frá HK en hann spilaði átta leiki með HK í efstu deild síðasta sumar.

*Knattspyrnumaðurinn Diego Jóhannesson er að skipta um félag á Spáni eftir því sem fram kemur í fjölmiðlum þar í landi. Diego er samningsbundinn Real Oviedo sem leikur í spænsku B-deildinni en hann hefur spilað með liðinu frá árinu 2011. Samkvæmt fréttum er Diego að ganga til liðs við Cartagena á láni. Cartagena leikur í spænsku C-deildinni en þar er liðið í efsta sæti síns riðils og á góðri leið með að tryggja sér sæti í B-deildinni. Diego, sem er 26 ára gamall, hefur lítið komið við sögu hjá Real Oviedo, aðeins spilað fimm leiki af 22, en alls á hann að baki þrjá leiki fyrir íslenska landsliðið.

*Íslandsmeistarar KR í knattspyrnu gerðu í gær tveggja ára samning við markmanninn Guðjón Orra Sigurjónsson . Guðjón kemur til KR frá Stjörnunni þar sem hann hefur verið síðustu tvö ár. Guðjón hefur æft með KR í vetur og lék hann með liðinu á Bose-mótinu í síðasta mánuði. Hann lék tvo deildarleiki með Stjörnunni á síðasta tímabili, en var áður hjá ÍBV, KFS og Selfossi. Eyjamaðurinn mun berjast við Beiti Ólafsson um markmannsstöðuna hjá KR en Sindri Snær Jensson er hættur.

*Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir reiknar ekki með því að spila knattspyrnu næstu mánuðina en þetta kemur fram í samtali hennar við netmiðilinn Fótbolta.net í gær. Markmaðurinn öflugi er án félags eftir að hafa sagt upp samningi sínum við Þór/KA eftir síðasta tímabil. Bryndís Lára lék þrettán leiki í úrvalsdeildinni með Þór/KA á síðustu leiktíð en hún var að glíma við meiðsli í baki allt tímabilið.

„Eins og staðan er í dag þá snýst þetta númer eitt, tvö og þrjú um að ná heilsunni og vera verkjalaus. Ég sé mig ekki í fótbolta næstu vikur eða mánuði. Það gerist fyrst þegar ég er orðin verkjalaus,“ er meðal annars haft eftir Bryndísi á Fótbolta.net.