Kjartan Már Kjartansson
Kjartan Már Kjartansson — Oddgeir Karlsson
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þetta hefur gengið betur en bjartsýnustu menn þorðu að vona,“ segir Kjartan M. Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta hefur gengið betur en bjartsýnustu menn þorðu að vona,“ segir Kjartan M. Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

Í gær var tilkynnt að Reykjanesbær væri laus undan sérstöku eftirliti eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, tveimur árum fyrr en upphaflega var stefnt að.

„Við þurfum áfram að sýna aðhald í rekstri og láta áætlanir standast en þetta sparar okkur tíma, skriffinnsku og fleira,“ segir Kjartan í samtali við Morgunblaðið.

Í framhaldi af þessum tíðindum mun bæjarstjórn leggjast yfir framtíðaráætlanir bæjarfélagsins að sögn Kjartans. Hann segir að ýmis stór verkefni hafi mátt sitja á hakanum og íbúar hafi þurft að taka á sig auknar álögur.

„Nú geta bæjarfulltrúar farið að horfa á þætti sem áður voru negldir mjög fast niður. Við vorum til dæmis bundin af því að skila ákveðinni upphæð í formi fasteignaskatts. Nú ætti að vera tækifæri til að lækka álögur á íbúa ef árferðið versnar ekki mikið,“ segir Kjartan.

Íbúar Reykjanesbæjar hafa síðustu ár mátt bera þyngri byrðar en flestir aðrir vegna fjárhagsörðugleika sveitarfélagsins. Umræddur fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði var þegar mest lét 0,5% en var svo lækkaður í þrepum. Samkvæmt fjárhagsáætlun bæjarins fyrir þetta ár var skatturinn lækkaður úr 0,36% í 0,32%. Sveitarfélagið fékk auk þess heimild til að setja aukaálag á útsvar um hríð. Í stað 14,52% hámarksútvars eins og víða er máttu íbúar sætta sig við 15,05% útsvar. Þessar auka álögur voru dregnar til baka fyrir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2018.

„Við erum mest að horfa til fasteignaskattsins enda hefur fasteignaverð og fasteignamat hækkað svo mikið hér. Ég er sannfærður um að fasteignaskatturinn verður lækkaður á næsta ári,“ segir Kjartan.