Birgir Marinósson fæddist í Engihlíð á Árskógsströnd 27. október 1939. Hann lést á Dvalarheimilinu Hlíð Akureyri 26. desember 2019.

Foreldrar hans voru Guðmunda Ingibjörg Einarsdóttir, húsfreyja og ljósmóðir, f. 1905, d. 1999, og Marinó Steinn Þorsteinsson bóndi, f. 1903, d. 1971. Systkini Birgis: Valgerður, f. 1927, d. 1963, Ása, f. 1932, Þorsteinn, f. 1934, og Hildur, f. 1941. Birgir eignaðist fjögur börn með fyrri konu sinni, Böðvínu Maríu Böðvarsdóttur: Böðvar, f. 1963, Arnar, f. 1965, Elvar, f. 1966, og Birgittu Maríu, f. 1970. Barnabörn Birgis eru 12. Seinni kona Birgis er Anna María Jóhannsdóttir, f. 3. janúar 1940. Foreldrar hennar voru Fanney Oddgeirsdóttir, f. 1917, d. 2009, og Jóhann Konráðsson, f. 1917, d. 1982. Dætur Önnu Maríu frá fyrra hjónabandi eru Fanney Harðardóttir og Inga Björk Harðardóttir og barnabörnin eru fimm. Birgir ólst upp í Engihlíð við almenn bústörf og sjósókn. Lauk námi í Héraðsskólanum á Laugum í S-Þing. 1959 og Samvinnuskólanum á Bifröst árið 1961. Skrifstofumaður hjá Ullarverksmiðjunni Gefjun 1961-1966, bóndi í Engihlíð 1966-1968 og kennari við barnaskólann í Árskógi 1966-1973. Kennari við Glerárskóla 1973-1976 og Oddeyrarskóla 1976-1977. Starfsmannastjóri hjá Iðnaðardeild SÍS og síðar Álafossi 1977-1991. Rak eftir það eigin bókhaldsþjónustu meðan heilsan leyfði. Birgir hefur tekið mikinn þátt í félagslífi margra félaga, þar á meðal í stjórn Ungmennafélagsins Reynis og Ungmennasambands Eyjafjarðar. Hann stundaði íþróttir á yngri árum og keppti einnig í mörgum greinum. Hann hefur spilað í mörgum hljómsveitum og stofnaði þá fyrstu þegar hann var á Bifröst, Hljómsveit Birgis Marinóssonar, var seinna í hljómsveit Pálma Stefánssonar og fleirum. Hann spilaði á harmoniku, gítar og víbrator. Birgir átti létt með að yrkja og gaf út þrjár ljóðabækur auk þess að yrkja fjölda af tækifærisvísum og ljóðum.

Útför Birgis fór fram í kyrrþey 2. janúar 2020 frá Höfðakapellu Akureyri og var þar farið eftir óskum hans.

Elskulegur bróðir hefur nú kvatt okkur eftir að hafa barist við ólæknandi sjúkdóm um tíma. Okkur langar til að þakka honum samfylgdina allt frá æskuárunum og fram á þennan dag. Við systkinin ólumst upp í Engihlíð við venjuleg bústörf. Rafmagn kom ekki í sveitina fyrr en haustið 1955 og þurfti því að handmjólka kýrnar fram að þeim tíma og við heyskap voru notaðir hestar fyrir sláttu- og rakstrarvélar. Við þurftum oft að takast á við ýmis ábyrgðarstörf heima þegar foreldrarnir voru fjarverandi við önnur störf. Birgir var snemma líflegur og fjörugur strákur og stundum svolítið stríðinn, en okkur kom þó öllum mjög vel saman. Birgir stundaði nám í þrjá vetur á Laugum í S.-Þing. og lauk þar námi 1959. Þar stofnaði hann sína fyrstu hljómsveit. Eftir það lá leiðin á Bifröst og útskrifaðist hann þaðan 1961. Þar stofnaði hann hljómsveit sem starfaði svo áfram eftir að skólagöngu lauk. Eftir þetta var hann óstöðvandi, spilaði og söng, ýmist í eigin hljómsveit eða annarra. Áhuginn var þarna. En hann hafði líka áhuga á fleiru, bæði veiðiskap á sjó og landi og á íþróttum, bæði frjálsum og fótbolta. Hann keppti oft í frjálsum, einkum hlaupum. Hann átti mjög auðvelt með að setja saman vísur og sagði að hann hefði enga skáldhæfileika, þetta væri 95% æfing. Eftir hann eru til ótal lausavísur og bragir, sem ekki hefur verið gefið út og sumt glatað, en hann hefur gefið út þrjár ljóðabækur: Lausar kvarnir 1971, Ljós og skugga 1982, Létt ljóð seinna og smásögur 1972. Hann átti líka létt með að semja lög og hafa mörg þeirra komið út á plötum. Tvö eru kannski þekktust: Glókollur og Á heimleið og á hann þar textana líka.

Birgir eða Biggi Mar. eins og hann var oft nefndur hefur alla tíð verið mjög virkur í öllu félagslífi, sem byrjaði í heimasveit í UMF Reyni, síðan UMSE, þá í skólunum og seinna á Akureyri þar sem hann starfaði í mörgum félögum og hélt uppi líflegu félagslífi. Ekki er mögulegt í þessum skrifum að telja það upp frekar, en margt má finna á netinu. Ekki hefur þó lífið alltaf leikið við bróður okkar og margir erfiðleikar steðjað að í tímanna rás. Valgerður systir okkar missti sitt fyrsta barn nokkurra daga gamalt. Hún lést svo 35 ára gömul frá eiginmanni og fimm börnum. Þetta fannst okkur ekki réttlátt. Í fjölskyldulífi sínu hefur Birgir barist við ýmsa erfiðleika á lífsleiðinni og hefur það tekið á. Hann hefur eignast góða vini á lífsleiðinni, skólafélaga frá Laugum og frá Bifröst þar sem nokkrir koma saman oft árlega. Hann á nokkra trúfasta og góða vini frá tónlistinni. Þetta ber að þakka. Við þökkum líka yndislegu starfsfólki Skógarhlíðar fyrir frábæra umönnun og góðvild í garð Birgis. Hann hefur fengið góðan stuðning frá eiginkonu sinni Önnu Maríu í baráttunni við þann sjúkdóm sem smátt og smátt hefur sogað til sín allan mátt úr vöðvum líkamans, þótt hugurinn væri skýr allt til enda. Við sendum Önnu Maríu, börnum þeirra Birgis og fjölskyldunum öllum innilegar samúðarkveðjur. Hvíl þú í friði, elsku bróðir.

Þín systkin,

Ása, Þorsteinn og Hildur.

Góður vinur minn til fjölda ára, Birgir Marinósson, eða Biggi Mar, er fallinn frá eftir nokkuð langvarandi og erfið veikindi. Við Biggi kynntumst á Héraðsskólanum á Laugum í Reykjadal haustið 1957, fljótlega tókst með okkur góð vinátta sem haldið hefur síðan. Biggi var einn þeirra sem gátu eiginlega allt. Hann var góður námsmaður, spilaði á harmonikku sem var nú ekki ónýtt í héraðsskóla á þessum árum. Síðar á ævinni stofnaði hann hljómsveit sem lék fyrir dansi víða um land. Hann samdi bæði lög og texta við þau sem mörg hver urðu geysivinsæl. Hver man ekki Glókoll „Sofðu nú sonur minn kær“ sem dunaði í flestum óskalagaþáttum og var margoft vinsælasta lagið þá vikuna. Hann var fjölhæfur í íþróttum, spilaði fótbolta og blak svo eitthvað sé nefnt, átti gott með að umgangast aðra og var af þeim sökum m.a. valinn formaður skólafélagsins. Á þess vegum stóð hann fyrir útvist og keppnum af ýmsu tagi, eins og hlaupi í kringum tjörnina, sem kallað var að hlaupa litla rúntinn, eða tæpa 400 m og býsna erfiður. Sá stóri var örugglega a.m.k. þrisvar sinnum lengri enda voru bara þeir forframaðri sem lögðu í hann. Hluti af verkefnum formanns var samskipti við skólastjóra og kennara, en eins og þeir vita sem dvalið hafa í heimavistarskóla fer allnokkur tími kennara og skólastjóra í að passa upp á hæfilega fjarlægð á milli kynjanna. Minnist þess að einhverju sinni var mikil umræða á milli Inga Tryggva, kennara og Bigga um lýsingu á skólaböllum. Ingi vildi helst hafa kastara í hverju horni en Biggi saklausar glóðarperur. Svo langt gekk umræðan að tendruð voru ljós af ýmsum styrkleika og síðan var strák og stelpu stillt upp og þau látin leggja vanga að vanga og síðan metið af færustu mönnum, þá voru ekki komnir sérfræðingar á öllum sviðum eins og nú er, hvort þessa vituðu nánd mætti greina nógu skýrt frá ákveðnum stað í stofunni. Eftir töluverðar tilraunir náðist samkomulag milli þeirra félaga um lýsinguna. Nú eru öll vandamál af þessu tagi úr sögunni, um það upplýsti mig okkar ágæti íþróttakennari Óskar Ágústsson fyrir svona 50 árum, þá átti ég leið um Laugar og hitti Óskar úti fyrir, við tókum tal saman eins og venja er til sveita. Hann sagði mér í óspurðum að nú væri búið að leysa farsællega öll samskiptamál kynjanna. Ég varð eitt spurningarmerki og spurði. Hvernig, með hökuna niður á bringu af undrun. Óskar glotti stríðnislega og sagði. Við lofum bara strákunum að sofa hjá stelpunum.

Flókið mál leyst á einfaldan hátt eins og hans var háttur. Er sannfærður um að vinnur minn Birgir og jafnvel ég hefðum unað vistinni á Laugum enn betur ef þetta fyrirkomulag samskipta kynjanna hefði verið við lýði á okkar sældarárum þar.

Að lokum þakka ég vini mínum allar góðu stundirnar sem við áttum saman á þessu tilverustigi mannsandans og bið honum fararheilla á leið sinni til sumarlandsins eilífa.

Aðstandendum votta ég samúð mína.

Helgi Laxdal.