Eins og veðurhamurinn var á þriðjudagskvöld leið mér vel að sitja við gluggann, hlusta á vindinn og blaða í ljóðabókum.

Eins og veðurhamurinn var á þriðjudagskvöld leið mér vel að sitja við gluggann, hlusta á vindinn og blaða í ljóðabókum. Fyrst festi ég mig við Svörtuloft Guðmundar á Sandi:

Lítur, þegar um sollinn sjá

syngur í bylgjuhvoftum,

inn í heima opna tvá

undir Svörtuloftum.

Faðir minn gaf mér ungum Illgresi og síðan hefur Örn Arnarson verið eitt af mínum skáldum:

Nepjan þennan næðingsdag

nísti inn að beini.

Sit ég eftir sólarlag

sunnan undir steini.

„Veðuruggur“ heitir eitt kvæða Arnar og mætti á nútímamáli heita „gul eða rauðgul veðurviðvörun“. Kvæðinu lýkur svo:

Ömurlegum ómi í dag

ymur símaþráður.

Sama rómi sama lag

söng hann löngum áður.

Nú er engum hugarhægð

að horfa út um glugga.

Jökulbunga, frosti fægð,

felst í veðurskugga.

Himinninn er í hálfa gátt.

Heyrist þökum riðið.

Skýjatröll úr austurátt

æða fram á sviðið.

Nú er öllum djöflum dátt.

Dregur af mönnum gaman.

Himinglæva og austanátt

ætla að dansa saman.

Uggir mig um allra hag,

sem eiga mök við græði.

Stormurinn kaldi líksöngslag

leikur á símaþræði.

Halla Eyjólfsdóttir orti og kallaði „Tækifærisvísur“:

Þó að blási móti mér

má ég vel því una;

storminn lægir, bátinn ber

beint í lendinguna.

Þó að ill og ósvífin

óhöpp sýnist voði,

eru þau sem óveðrin

aðeins vorsins boði.

Kristján Fjallaskáld orti þegar hann frétti trúlofun Sveins kaupmanns Guðmundsens og Kristínar Siemsen:

Sveinn á Búðum fái fjúk,

fékk hann hana Stínu,

öndin spriklar öfundsjúk

innan í brjósti mínu.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is