Nýir tímar Nýjustu straumar voru kynntir á CES-ráðstefnunni sem stendur yfir í Las Vegas. Ólöglegt niðurhal er á undanhaldi en streymisveitur í sókn.
Nýir tímar Nýjustu straumar voru kynntir á CES-ráðstefnunni sem stendur yfir í Las Vegas. Ólöglegt niðurhal er á undanhaldi en streymisveitur í sókn. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Það var hárrétt ákvörðun að fara í þessa vegferð enda voru á sínum tíma yfir 50 þúsund einstaklingar skráðir notendur á þessum vef.

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Það var hárrétt ákvörðun að fara í þessa vegferð enda voru á sínum tíma yfir 50 þúsund einstaklingar skráðir notendur á þessum vef. Við settum eflaust einhvers konar heimsmet í ólöglegu niðurhali miðað við fólksfjölda svo það var mikilvægt að bregðast við,“ segir Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Stefs, samtaka tónskálda og eigenda flutningsréttar.

Skráarskiptisíðan Deildu.net lifir enn góðu lífi á netinu þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi fyrir rúmu ári staðfest lögbann sem Stef fór fram á að lagt yrði við því að netveitufyrirtæki veittu viðskiptavinum sínum aðgang að ýmsum skráarskiptasíðum. Lögbannið var upphaflega sett í október 2015. Umferðin virðist þó hafa minnkað umtalsvert frá mektarárum Deildu. Í gær mátti til að mynda finna þar spennuþættina Brot sem nú eru sýndir á RÚV. Aðeins höfðu um sex hundruð manns náð sér í hvern þátt.

Munum aldrei geta lokað öllum holum

Hvað veldur þessu? Lamaði lögbannið starfsemina eða hefur sjónvarpsneysla breyst svo mikið á liðnum árum að fólk sækir nú frekar í löglegar veitur og greiðir fyrir þær?

„Umhverfið er mjög breytt. Það er komið mikið úrval af löglegum veitum en ég held að það verði alltaf einhverjar ólöglegar leiðir til hliðar. Það verða alltaf einhverjir sem eru ekki tilbúnir að borga þó að gjaldið sé lágt og finna því aðrar leiðir. Þannig er það líka með annað í þjóðfélaginu, það eru alltaf einhverjir sem virða ekki hámarkshraða þó að flestir geri það. Við munum aldrei geta lokað öllum holum,“ segir Guðrún.

Hún segir að nýjar rannsóknir í Evrópulöndum leiði í ljós að þótt ólöglegt niðurhal sé enn stórt vandamál í sumum löndum fari það minnkandi. Tölur sýni að ólöglegt niðurhal hafi minnkað um 15% milli áranna 2017 og 2018 í það heila. Mest minnkaði það í tónlist, um 32%, þá í ólöglegu niðurhali á kvikmyndum, um 19%, og á sjónvarpsefni um 8%.

Hallgrímur Kristinsson, stjórnarformaður Frísk, félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði, tekur undir með Guðrúnu og segir að nokkrar ástæður liggi að baki þessum breytingum.

Íslensku veiturnar góðar

„Mynstrið er aðeins að breytast. Þeim sem stunda ólöglegt niðurhal hefur aðeins fækkað en þó er hér enn gífurlega hátt hlutfall í samanburði við önnur lönd. Þeir sem stunda ólöglegt niðurhal gera einnig minna af því, eintökum á hvern og einn hefur fækkað umtalsvert,“ segir hann.

Hallgrímur segir að lögbannið hafi virkað og hinn almenni neytandi líti á það sem vesen að þurfa að leita uppi skráarskiptasíður sem séu sífellt á flótta. „Svo hefur aðgangur að löglegu veitunum batnað mikið. Íslensku aðilarnir, Síminn, Sýn og Rúv, hafa staðið sig mjög vel. Það hjálpar, engin spurning.“

Fengu lögbann á IPTV

Það að mynstur sjónvarpsneyslu hjá fólki hefur breyst þýðir jafnframt að nýjar leiðir eru nú farnar í að koma sér fram hjá því að greiða fyrir áhorfið. Nú er mjög horft til ólöglegra sjónvarpsútsendinga, IPTV. Skýrsla sem unnin var af rétthöfum sjónvarpsefnis í Evrópu sýnir að 3,6% fólks í Evrópu kýs að ná í sjónvarpssendingar með ólöglegum hætti. Guðrún og Hallgrímur telja að þessu þurfi að gefa meiri gaum.

„Við sjáum þessa breytingu bæði í Evrópu og hér,“ segir Hallgrímur. „Íslenskir aðilar markaðssetja þessa þjónustu og við höfum nýlega fengið lögbann á einn slíkan. Fókusinn okkar er á þessu núna.“ Málið sem Hallgrímur vísar til var höfðað af Sýn gegn IPTV Iceland sem bauð áskrifendum aðgang að um 500 sjónvarpsrásum fyrir 2.500 krónur á mánuði.