Noregur mun á þessu ári taka við 200 flóttamönnum sem Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) hafa flutt frá Líbíu til Rúmeníu. Einnig stendur til að taka við 600 flóttamönnum úr flóttamannabúðum í Rúanda.

Noregur mun á þessu ári taka við 200 flóttamönnum sem Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) hafa flutt frá Líbíu til Rúmeníu. Einnig stendur til að taka við 600 flóttamönnum úr flóttamannabúðum í Rúanda. Þetta hefur Aftenposten eftir Jøran Kallmyr, dóms- og innflytjendamálaráðherra Noregs, sem segir flóttamennina koma til landsins í fjórum áföngum.

Vill ekki skapa hvata

Fyrir árið 2020 hafa norsk stjórnvöld samþykkt að taka við þrjú þúsund kvótaflóttamönnum, en norska ríkið hefur ítrekað hafnað beiðni Evrópusambandsins um að taka við farandfólki sem komið hefur til Evrópu yfir Miðjarðarhaf með bátum.

Telur ráðherrann slíkt hvetja til ólöglegra og hættulegra fólksflutninga. „Við teljum það óforsvaranlegt að lokka fólk yfir Miðjarðarhaf. Þau eru að mestu leyti ekki flóttamenn, heldur farandfólk af efnahagslegum ástæðum,“ segir ráðherrann. „Ef við eigum að ná stjórn á stöðunni á Miðjarðarhafi verðum við að aðstoða. Með samstarfi við SÞ getum við hjálpað fleirum og þeim sem glíma við erfiðustu aðstæðurnar.“

Kallmyr segir talsverðan fjölda þeirra sem hafa farið með bátum yfir hafið til Evrópu ólíklegan til þess að fá dvalarleyfi í Noregi. „Það er verið að tala um unga afríska karlmenn sem vilja fæða fjölskyldur sínar. Ef þeir eru ekki á flótta frá heimalandi sínu munu þeir ekki fá dvalarleyfi og verða sendir til baka.“

Hins vegar hafa flóttamennirnir sem hafast við í flóttamannabúðum SÞ þegar verið metnir og skilgreindir sem einstaklingar í leit að alþjóðlegri vernd. „Þetta gerir það að verkum að hægt er að framkvæma hælismat áður en þeir koma til Noregs,“ útskýrir Kallmyr.