Sérsveitin Starfsmenn Húsasmiðjunnar í sveitinni hituðu upp fyrir ferðina. Fremst frá vinstri eru Einar Sveinsson, fararstjóri annarra starfsmanna, Árni Stefánsson forstjóri og Finnur Guðmundsson, framkvæmdastjóri fagsölusviðs. Benjamín Árni Hallgrímsson, Benni bongó, er með húfu, fyrir miðri mynd.
Sérsveitin Starfsmenn Húsasmiðjunnar í sveitinni hituðu upp fyrir ferðina. Fremst frá vinstri eru Einar Sveinsson, fararstjóri annarra starfsmanna, Árni Stefánsson forstjóri og Finnur Guðmundsson, framkvæmdastjóri fagsölusviðs. Benjamín Árni Hallgrímsson, Benni bongó, er með húfu, fyrir miðri mynd.
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Sérsveitin, stuðningsmannahópur íslenska landsliðsins í handbolta, er mætt til Malmö í Svíþjóð og gefur tóninn á leik Íslands og Danmerkur í Evrópukeppninni í dag.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Sérsveitin, stuðningsmannahópur íslenska landsliðsins í handbolta, er mætt til Malmö í Svíþjóð og gefur tóninn á leik Íslands og Danmerkur í Evrópukeppninni í dag. „Stemningin er gríðarleg, við erum brött og jákvæð, tökum Pollýönnu á þetta og þetta reddast,“ segir Benjamín Árni Hallbjörnsson, gjarnan kallaður Benni bongó. Hann er talsmaður hópsins og fyrrverandi formaður Tólfunnar, stuðningsmannahóps landsliðsins í fótbolta.

Sveitin var stofnuð 2018 og fór á fyrsta stórmótið fyrir ári. Tíu manns fóru til Þýskalands og ellefu eru í hópnum núna. „Við öðluðumst smá reynslu á HM í München og erum spennt,“ segir Benni. Hann bætir við að fjöldi Íslendinga verði á leikjum liðsins, sennilega um 1.000 manns, og þeir verði að sjálfsögðu í Sérsveitinni. „Allir stuðningsmenn íslenska landsliðsins eru í Sérsveitinni á leikdag,“ leggur hann áherslu á.

Planið er að fylgja landsliðinu eftir í riðlakeppninni og sjá svo til. „Ég hef fulla trú á því að liðið fari áfram í milliriðil og gangi því vel þar getur vel verið að við gerum okkur ferð á leik um sæti,“ segir Benni. „Aðalatriðið er að njóta leikjanna í riðlakeppninni og styðja vel við bakið á strákunum í þessum erfiðu leikjum.“ Hann bætir við að Danir séu með eitt besta lið í heimi. Mikill meirihluti áhorfenda á leiknum í dag verði á þeirra bandi og því þurfi Sérsveitin að láta vel í sér heyra til þess að stuðningurinn skili sér inn á völlinn.

Benni bendir á að liðið sé í mótun og því hengi menn ekki haus þó að eitthvað klikki. „Við erum að byggja til framtíðar og það þýðir ekki að henda sér í neikvæðni ef úrslitin eru ekki góð því við verðum að trúa á þessa gæja. Sérsveitin fer í alla leiki til þess að vinna og á góðum degi getum við unnið hvaða lið sem er, jafnvel Dani, þó að alveg megi búast við tapi. En ég vil vinna leikina á móti Rússum og Ungverjum með þremur mörkum.“

Helsta áhugamálið

Nokkrir liðsmenn Sérsveitarinnar vinna hjá Húsasmiðjunni sem styrkir hana til fararinnar. Einar Sveinsson er fararstjóri nokkurra annarra starfsmanna fyrirtækisins í Malmö. Hann hefur lengi tengst handboltanum, lék lengi með Þrótti, var dómari um árabil og hefur verið eftirlitsmaður HSÍ undanfarin ár.

Einar hefur farið á mörg stórmót og er hokinn af handboltareynslu. „Ég fór fyrst á HM í Árósum 1978, var á svörtu dögunum í Danmörku,“ rifjar hann upp. Síðan fylgdi hann Sigurði, bróður sínum, á HM í Sviss 1986 og í B-keppnina í Frakklandi 1989. Hann var svo á EM í Þrándheimi 2008 og HM í München í fyrra. „Handbolti hefur verið mitt helsta áhugamál síðan ég var unglingur og umhverfið hefur alltaf verið skemmtilegt,“ segir hann. Bætir við að B-keppnin 1989 hafi verið skemmtilegust og hann eigi von á mikilli gleði nú. „Ég hef tröllatrú á liðinu en riðillinn er ótrúlega erfiður. Samt hef ég trú á að við förum upp úr riðlinum og sigrum jafnvel Danina.“

Sérsveitin hitar upp á veitingastaðnum Paddy's í Malmö frá klukkan 12 í dag og þar verður meðal annars boðið upp á andlitsmálningu. Hægt er að fylgjast með gangi mála á samfélagsmiðlum (sersveitin.is, sersveitinstudningssveit á fésbókinni og sersveitin_official á instagram).