Jónas Sigurður Magnússon fæddist 3. ágúst 1955. Hann andaðist 20. desember 2019.

Útför hans fór fram 6. janúar 2020.

Látinn er fyrir aldur fram traustur starfsfélagi og félagsmálamaður, Jónas S. Magnússon rannsóknarlögreglumaður.

Jónas var hógvær maður að eðlisfari og traustur að vinna með í erfiðum og krefjandi málum þar sem oft þarf að bregðast skjótt og fumlaust við og af festu og yfirvegun.

Hann var sanngjarn við samborgarana þótt hann væri fastur fyrir gagnvart brotum og komst vel gegnum flókin og snúin mál með vönduðum vinnubrögðum.

Jónas starfaði í flestum deildum/vöktum LR og LRH og hafði ávallt gott traust hjá sínum samstarfsmönnum.

Hann var baráttumaður fyrir umbótum í launa- og réttindamálum lögreglumanna.

Var formaður Landssambands lögreglumanna til margra ára og lét því víða að sér kveða á nefndum vettvangi þótt hann færi ekki fram með háreysti til framgangs hinum ýmsu málum fyrir hönd lögreglumanna.

Jónas gaf lítið fyrir tyllidagayfirlýsingar og/eða bókanir til síðari skoðunar sem yfirleitt kemur lítið út úr, vildi frekar láta verkin tala með staðfestum samningum.

Vildi sem formaður LL hafa náð fram ýmsum fleiri framfaramálum fyrir lögreglumenn og minnka á þá álag sem víða er mikið, en hlutirnir gerast því miður oft hægt á eyrinni í þessum málaflokki sem víðar í kerfinu.

Hann vissi sem var og ítrekaði að slíkt gæti dregið dilk á eftir sér með ýmsum hætti og hefur það sýnt sig á ýmsan hátt sem ekki verður rakið hér.

Jónasar verður sárt saknað í félagahópnum sem víðar, en mikið hefur verið um að lögreglumenn á besta aldri hafi fallið frá og/eða misst heilsuna.

Það skýrir hugsanlega það mikla álag sem hvílir oft á lögreglumönnum í kröfuhörðu starfi sem Jónas barðist ötullega fyrir umbótum á til bættra launa, aukinna réttinda og fleiri þarfra framfaramála.

Þessar fátæklegu línur í minningu Jónasar verða að nægja að sinni vegna tímaskorts til sendingar, en minning um traustan og góðan starfsfélaga, baráttumann og vin mun lifa með þökk fyrir góðar samstarfs- og samverustundir.

Við fjallavötnin fagurblá

er friður, tign og ró.

Í flötinn mæna fjöllin há

með fannir, klappir, skóg.

Þar líða álftir langt í geim

með ljúfum söngva klið,

og lindir ótal ljóða glatt

í ljósrar næturfrið.

(Hulda.)

Innilegar samúðarkveðjur til eiginkonu, barna, fjölskyldu og vina Jónasar.

Megi Guð gefa þeim ljós og styrk til framtíðar.

Ómar G. Jónsson.

Það voru mér sorgartíðindi að fregna andlát vinar míns Jónasar Magnússonar. Ég vissi af alvarlegum veikindum hans, en engu að síður var ég ekki, fremur en svo margir aðrir, undir það búinn að taka þessari harmafregn.

Leiðir okkar Jónasar lágu saman á vettvangi BSRB. Reyndar kynntumst við að einhverju marki á stundu þegar hreint ekki var útséð um það hvort leiðir okkar myndu yfirleitt liggja saman eða sitt í hvora áttina eins mótsagnakennt og það nú hljómar.

Þannig var að á tíunda áratug síðustu aldar íhuguðu samtök lögreglumanna, sem reyndar þau höfðu gert fyrr og svo aftur síðar, að ganga úr BSRB, þannig að þau stæðu utan heildasamtaka.

Efnt var til funda um land allt og málin rædd í þaula. Niðurstaða lögreglumanna varð sú að fara hvergi.

Þarna kynntist ég Jónasi, í maraþonumræðu, af hans hálfu alltaf málefnalegri og yfirvegaðri. Ef það væri rétt að segja að Jónas hafi þarna uppgötvað BSRB þá var það líka gagnkvæmt, að BSRB uppgötvaði Jónas Magnússon.

Á komandi árum var hann ítrekað valinn til vandasamra verka fyrir hönd heildarsamtakanna.

Hann bar ábyrgð á fjármálum sem gjaldkeri BSRB um margra ára skeið og hann gegndi lykilhlutverki í orlofsbyggðum bandalagsins. Í þessum trúnaðarstörfum var hann vakinn og sofinn. Lagði hann oft mikið á sig til að sinna skyldum sínum og þá langt umfram það sem flestir menn hefðu gert.

Ekki síst átti þetta við í verkefnum sem tengdust orlofsbyggðunum. Ég þekki það vel til verka Jónasar Magnússonar, sem formaður BSRB á þessum árum, að ég veit betur en flestir, hve mikið samtökin eiga honum að þakka.

Jónas tók einarða afstöðu til þeirra álitamála sem upp komu en það vissu allir og fundu að afstaða hans byggðist jafnan á rökum og svo einnig sanngirni. Þetta varð til þess að Jónas naut víðtæks stuðnings innan BSRB og var treyst af félögum sínum.

Á þessari stundu er það þó vináttan sem er mér efst í huga.

Nönnu, börnum, tengdabörnum og barnabörnum sendi ég innilegar samúðarkveðjur á erfiðri stundu.

Megi minningarnar um góðan dreng lifa og ylja ykkur um ókominn tíma.

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi formaður BSRB.