[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Verð á fiskmörkuðum hefur verið í hæstu hæðum fyrstu tíu daga ársins, enda hefur framboð verið lítið í þeirri brælutíð sem verið hefur frá áramótum.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Verð á fiskmörkuðum hefur verið í hæstu hæðum fyrstu tíu daga ársins, enda hefur framboð verið lítið í þeirri brælutíð sem verið hefur frá áramótum. Einstaka löndun hefur gefið mjög vel í aðra hönd og hæsta verð á slægðum þorski frá áramótum er 798 krónur á kíló að meðaltali.

„Hátt verð verður ekki skýrt með öðru en ótíðinni sem verið hefur allt í kringum landið. Um 40% af því sem við seljum á mörkuðunum er af smábátum og þeir hafa tæpast nokkuð róið á þessu ári. Það er fátítt að við sjáum tölur eins og síðustu daga,“ segir Eyjólfur Þór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Reiknistofu fiskmarkaða.

Aukið verðmæti þrátt fyrir minna magn

Alls hafa verið seld rúmlega þúsund tonn á mörkuðunum í ár, en 1.830 tonn á sama tíma í fyrra, að sögn Eyjólfs. Meðalverðið fyrir kíló af þorski frá áramótum hefur verið 551 króna, sem er 45% hærra en sömu daga í fyrra þegar verðið var 378 krónur. Í ár hafa verið seld 283 tonn af þorski á móti 668 tonnum í fyrra. Verð á ýsu hefur einnig verið hátt.

Alls voru seld 106 þúsund tonn á fiskmörkuðum í fyrra fyrir tæplega 28 milljarða króna. Nýliðið ár var það þriðja stærsta í verðmætum talið frá því að fiskmarkaðir hófu starfsemi 1992. Aðeins árin 2012 og 2013 var heildarupphæðin hærri, eins og sjá má á meðfylgjandi korti.

Árið var einnig stórt hvað magn áhrærir, en það var þó minna en árið á undan. Í því ljósi er athyglisvert að verðmæti hafi aukist. Í heildina var dróst magn saman í fyrra um 5,86% miðað við árið á undan. Verðmætin jukust um 14% og meðalverðið á fiskmörkuðum var 21% hærra 2019 en árið á undan.

Samdrátturinn var ekki síst í þorski og hefur hlutdeild fiskmarkaða lækkað í þorski miðað við afla í tegundinni.