Finnbogi Sigurður Jónsson fæddist í Hörgshlíð í Reykjafjarðarhreppi, N-Ísafjarðarsýslu 26. október 1956. Hann lést á heimili sínu, Hörgshlíð, 30. desember 2019.

Foreldrar hans voru Ásdís Sigrún Finnbogadóttir, f. 6.4. 1921, d. 3.7. 1994, og Jón Jakobsson, f. 11.10. 1913, d. 12.7. 1986. Þau bjuggu lengst af í Hörgshlíð í Mjóafirði við Djúp. Systkini Finnboga eru: Gerður, f. 17.7. 1941, Heiðrún, f. 27.6. 1942, d. 25.10. 2016, Kristjana Dagbjört, f. 6.10. 1945, Jakob Þorgeir, f. 1.8. 1949, Margrét Þórdís, f. 3.7. 1954, og Magnea, f. 29.1. 1960, d. 28.10. 2005.

Finnbogi bjó og starfaði alla sína tíð í Hörgshlíð fyrir utan nokkra vetur um tvítugt þegar hann vann á Ísafirði, lengst af í hraðfrystihúsinu Norðurtanganum, en einnig lítillega við byggingarvinnu. Finnbogi bjó með móður sinni eftir að faðir hans féll frá en síðustu 26 ár hefur hann búið einn. Auk bústarfa sinnti Finnbogi viðhaldi og eftirliti með Sængurfossvirkjun fyrir Orkubú Vestfjarða. Ættingjar og vinir sóttu í að koma í Hörgshlíð, hjálpa til og eiga samverustundir með bóndanum.

Finnbogi Sigurður verður jarðsunginn frá Vatnsfjarðarkirkju við Djúp í dag, 11. janúar 2020, og hefst athöfnin klukkan 13.

Bogi frændi okkar, Finnbogi Jónsson, bóndi í Hörgshlíð, hefur sagt skilið við þessa jarðvist og það eins og hendi væri veifað á einu augabragði. Hver maður sem fellur í fámennri sveit skilur eftir sig stórt skarð.

Alltaf var nægur tími til að spá í hlutina. Það lá aldrei svo á að ekki mætti gera eitthvað annað áður sem var meira forvitnilegt. Við hugsum oft til þess í dag hvernig það hefur verið fyrir hann að verða orðinn einbúi tæplega 37 ára gamall.

Við vorum mikið hjá Boga þegar við vorum börn og unglingar, stóðum oft þrír úti undir stjörnubjörtum himni á leið í út í fjós og virtum fyrir okkur það sem þar sást. Oft með stjörnukort í höndunum.

Það vildi til að kýr eru rólegar og kýrnar hans Boga voru ekki fastar á klukkunni frekar en eigandi þeirra. Við vorum mikið hjá Boga, helst á sumrin, á okkar unglingsárum. Einnig var kennaraverkfallið 1995 mjög skemmtilegur tími. Við vorum nær allt verkfallið hjá frænda okkar.

Þá var gríðarlega snjóþungur vetur og upp í 12 dagar sem Djúpið var ekki mokað. Hlaut maður ákveðna eldskírn í að bjarga sér og gátum við ekki eytt verkfallinu á betri stað.

Þá var Mjóifjörðurinn líka mun fjölmennari og barnaskóli á svæðinu.

Við, óhörðnuðu unglingarnir og Unnar frændi okkar, lærðum margt á þessum stutta tíma enda reyndi á samvinnu og samskipti íbúa í fallega firðinum sem nú var frekar einangraður og á kafi í snjó til að hjól samfélagsins gætu snúist í þessum krefjandi aðstæðum.

Þó nóg væri að gera kenndi Bogi manni að njóta augnabliksins.

Það sem ekki gerðist í dag var hægt að gera á morgun og jörðin hélt hringsnúningi sínum óhikað og engum varð meint af.

Það var ekkert verið að sýnast neitt.

Alltaf tími fyrir eina filterslausa Camel. Foreldrar okkar nefndu stundum að eftir þriggja mánaða sumardvöl hjá frænda, hefði þurft hálfan mánuð til að að koma okkur á sama snúning og tilheyrði kaupstaðarlífinu.

Þó er það spurning hvort við vorum á of lágum snúningi eða kaupstaðafólkið á of háum.

Við sem stóðum Boga næst söknum hans sárt. Hann hafði eitthvað í sínu fari sem varð til þess að þeir sem kynntust honum að einhverju leyti hugsuðu ætíð hlýtt til hans og vildu sem flest fyrir hann gera. Bogi átti enga óvini og börn voru alltaf hænd að honum. Líklega vegna þess að hann hafði alltaf tíma.

Börnin okkar syrgja frænda sinn. Hetjuna sem átti sveitina þar sem allt var svo einfalt og afslappað.

Þar sem þau gátu gengið frjáls um og sinnt skepnum og náttúrunni af fúsum og frjálsum vilja.

Þó maður viti að öll endum við lífdaga okkar einn daginn þá er maður aldrei tilbúinn þegar aðrir kveðja lífið. Það verður skrýtið og erfitt að vita til þess að líklega verðin enginn lengur að staðaldri í Hörgshlíð þó við óskum þess að einhver kæmi til sögunnar og sæi til þess annars.

Engu að síður munum við sem eftir erum reyna að halda ljósunum logandi þar um ókomna framtíð.

Og virða fyrir okkur fjörðinn fagra og Botnsfjallið, Fellið og Kotmúlann, fallegustu fjöll sem finna má. Fjöllin okkar.

Ingvar Jakobsson og Ingi Þórarinn Friðriksson.

Það er skrýtið að frændi minn, Finnbogi í Hörgshlíð, sé fallinn frá.

Kvöldið áður en hann kvaddi töluðum við saman í síma og ákváðum að heyrast morguninn eftir og spá í hvernig við myndum ná í nokkrar kindur sem hann átti við Keldu.

Engin hringing kom þann morgun.

Eftir að ég hafði hringt í hann oft og mörgum sinnum og hann svaraði ekki var farið að gá að honum.

Skömmu síðar var ég komin inn í Hörgshlíð og farin að beita hann hjartahnoði samkvæmt læknisráði.

Ég sá það samt undir eins og ég kom að hann var farinn, búinn að kveðja þennan heim.

Ég þakka honum fyrir alla samveruna og samvinnuna svo og fyrir þolinmæði hans við rexi og pexi í mér sem hann tók alltaf með jafnaðargeði eins og honum var tamt. Hans verður sárt saknað.

Jóhanna Kristjánsdóttir

í Svansvík.