Ásgeir Magnús Sæmundsson fæddist 29. nóvember 1964. Hann andaðist 15. desember 2019. Útför hans fór fram 9. janúar 2020.

Ásgeir var mágur minn. Thea systir hans og ég urðum par um aldamótin og um leið urðum við Ásgeir góðir vinir. Okkur fannst gaman að hittast og spjalla, tala með skoskum hreim, fíflast og herma eftir. Hann var poppstjarna í áttunni og ég sá hann flytja nokkur lög af plötunni Er ást í tunglinu í útgáfupartíi á Hard Rock Cafe árið sem hún kom út. Við kynntumst ekki þá en mér fannst hann töff og tónlistin var æðisleg. Þegar við kynntumst var Ásgeir ekki mikið að vinna við tónlist. Hann var duglegur matreiðslumeistari og var smátt og smátt að komast að því að það ætti betur við hann að sinna matreiðslunni í dagvinnu því veitingahúsabransanum fylgdi óregla og óöryggi. Ásgeir vildi hafa allt á hreinu. Stelpurnar hans, þær Sonja og Ása, voru honum allt og auðvitað Anna Sigrún. Lífið getur verið snúið og um tíma voru samskiptin minni en maður hefði viljað.

En þegar Ásgeir var kominn á beinni braut var auðveldara að taka upp þráðinn, hittast í veislum eða yfir Liverpool-leik og ræða málin. Við ræddum mest um tónlist og alltaf fann ég að Ásgeir langaði að sinna henni betur.

Hann hafði náðargáfu og reyndist auðvelt að kalla fram fallega melódíu, öðruvísi hljóma og spennandi sánd. Svo kom að því að hann fann kraft til að koma meiru í verk. Ég var mjög stoltur þegar vinir mínir og samstarfsfélagar á Xinu 977 sögðust vera búnir að leiða saman hljómsveitina Kiriyama family og Ásgeir til að koma fram á tónleikum Xins á Menningarnótt 2012. Ásgeir var mjög spenntur og dálítið stressaður fyrir þessari flottu áskorun sem hann rúllaði auðvitað upp og sló í gegn á sviðinu sem hann deildi þetta kvöld með Russell Crowe og Patti Smith! Sama ár sló lagið hans Froðan í gegn á ný í flottri útgáfu Ragga Bjarna og Jóns Jónssonar og Ásgeir tók nokkur gigg með Baraflokknum sem honum fannst gaman enda þar með gömlum vinum og kærum frænda, Ásgeiri Jónssyni, söngvara Baraflokksins. Ásgeir gaf út lagið Frá Topp'oní tær árið 2013 þar sem hann söng um að svífa út á dansgólfið til heiðurs foreldum sínum, Ásu og Sæma rokk.

Árið 2016 fengum við Ásgeir svo tækifæri til að vinna saman þegar hann tók áskorun minni um að mæta með hljómsveit í Garðpartí Bylgjunnar í Hljómskálagarðinum á Menningarnótt. Hann setti saman nýtt Hunangstungl með góðum drengjum. Þeir voru vel þéttir og spiluðu Froðuna, Rauðan bíl, Sterann og fleiri frábær lög.

Ásgeir var alla tíð með framúrskarandi tónlistarfólk í kring um sig og var vinsæll og virtur í bransanum.

Það var því dásamlegt að fylgjast með og fá fréttir af nýrri tónlist sem hann var að vinna með sínum elstu vinum allt til síðasta dags. Á 55 ára afmælisdaginn kom út lagið Sooner than later sem var fagnað með köku og kaffi heima hjá Ásgeiri og Önnu. Daginn eftir sat hann með okkur feðgum yfir Liverpool-leik og við gátum haldið áfram að fagna. Fimmtán dögum síðar kvöddum við Ásgeir. Við áttum yndislegan bróður, mág og frænda.

Lögin hans og ótal fallegar minningar lifa. Guð passi og verndi Önnu Sigrúnu, Sonju, Andra, Ásu og Anton. Blessuð sé minning Ásgeirs.

Jóhann Örn Ólafsson.

Það er fátt í lífinu sem er dýrmætara en að eiga góðan vin. Sérstaklega á þeim tímabilum á ævinni sem móta mann mest. Ljúfsár unglingsárin rifjast þess vegna fyrst upp fyrir mér þegar ég minnist vinar míns Geira Sæm. Ég kynntist Geira á Hallærisplaninu snemma á níunda áratugnum en þá höfðum við Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson eða Þoddi eins og við kölluðum hann tekið það stóra skref í átt að manndómnum að taka strætó úr Árbænum niður í bæ til að blanda geði við krakka úr öðrum hverfum.

Fjöldinn var ótrúlegur sem gekk hring eftir hring eftir Austurstrætinu að húsinu sem nú hýsir Café Paris, þaðan í átt að Austurvelli og meðfram honum aftur á Hallærisplanið sem heitir Ingólfstorg í dag. Einhvers konar Mekka í bland við brennivín í kók. Þegar ég hitti Geira fyrst var hann í síðum frakka með langan trefil sem náði alla leið niður á tær. Ég gleymi ekki þessu augnabliki því þetta var í fyrsta skipti sem ég hitti manneskju sem hafði eitthvað við sig sem erfitt er að festa fingurinn á. Jú, kannski einhvers konar ofursjarma og meðfædda stjörnueiginleika.

Hann var tveimur árum eldri en við og virtist miklu, miklu veraldarvanari.

Einhvern veginn tókst okkur Þodda að safna kjarki til að segja honum að við værum með hljómsveit í Árbænum sem héti Exodus en Exodus var eiginlega bara við tveir og Oddur Finnbogason á trommur. Geiri svaraði um hæl að hann ætti rafmagnsgítar og þekkti stelpu sem væri góð að syngja.

Næsta dag voru Geiri og Björk Guðmundsdóttir mætt upp í bílskúrinn í Hábæ vopnuð svörtum rafmagnsgítar og þverflautu. Þar með þurftum við Þoddi að sýna hvað í okkur bjó og spila lögin okkar sem voru undir sterkum áhrifum af prog-rokki, Stravinsky og David Bowie. Geiri og Björk byrjuðu strax að spila með og það þarf vart að taka það fram að þau voru bæði ráðin á staðnum. Þar með hófst tímabil þar sem varla leið sá dagur sem við Geiri og Þoddi vorum ekki að bralla eitthvað saman. Geiri var uppátækjasamur og þegar honum datt eitthvað í hug kom ekki annað til greina en að framkvæma það. Þannig enduðum til dæmis við tveir unglingarnir á David Bowie-tónleikum í Gautaborg sem var ekki beint eitthvað sem ég var búinn að sjá fyrir. Sæmi og Ása, foreldrar Geira, létu okkur í té stóran skúr í garðinum til að æfa okkur og kvörtuðu ekki í eitt einasta skipti undan hávaða en þar vorum við þrír félagarnir öllum stundum spilandi eða eldandi og má segja að skúrinn í Sörlaskjólinu hafi verið heimili okkar á þessum árum.

Svo flutti ég til Ameríku og leiðir skildi en það var alltaf jafn kært á milli okkar. Eftir að Geiri veiktist í vor fórum við að hittast oftar og ég er mjög þakklátur fyrir þær stundir. Ég dáðist að því hvernig hann tókst á við þessa miklu baráttu með æðruleysi, reisn og húmornum sem aldrei var langt undan.

Takk elsku Geiri fyrir vináttuna, tónlistina og hláturinn. Ég votta Önnu, Sonju, Ásgerði, Sæma og Ásu og fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð.

Skúli Sverrisson.