„Þegar maður hefur staðið í deilum alla ævi er líklega kominn tími til að vera til friðs,“ segir Árni Bergmann sem verður 85 ára á árinu.
„Þegar maður hefur staðið í deilum alla ævi er líklega kominn tími til að vera til friðs,“ segir Árni Bergmann sem verður 85 ára á árinu. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heimurinn var um margt svarthvítur á tímum kalda stríðsins, við og þeir, frjálshyggja og sósíalismi, en þrjátíu ár eru nú liðin frá lokum þess. Við blasir ný og flóknari heimsmynd.

Heimurinn var um margt svarthvítur á tímum kalda stríðsins, við og þeir, frjálshyggja og sósíalismi, en þrjátíu ár eru nú liðin frá lokum þess. Við blasir ný og flóknari heimsmynd. Hvernig lágu hinar alræmdu átakalínur á tímum kalda stríðsins og hvernig blasir staðan í dag við Árna Bergmann, rithöfundi, þýðanda og fyrrverandi ritstjóra Þjóðviljans, sem hertist í eldi kalda stríðsins og fylgist enn vel með þjóð- og heimsmálum? Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Árni Bergmann man tímana tvenna þegar kemur að umræðum um stjórnmál, þjóðmál og menningu í þessu landi. Hann var barn að aldri þegar kalt stríð skall á í kjölfar heimsstyrjaldarinnar síðari og þegar hann sneri heim til Íslands með MA-gráðu í rússnesku frá Moskvuháskóla upp á vasann höfðu átakalínur skýrst ennfrekar, jafnt hér heima sem erlendis. Næstu áratugina var Árni í hringiðu þessarar umræðu og það kom því ekki á óvart að aðstandendur uppfærslu Þjóðleikhússins á Atómstöðinni eftir Halldór Laxness skyldu kalla þá Styrmi Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, til skrafs og ráðagerða fyrr í vetur enda eru líklega fáir núlifandi menn þess umkomnir að veita andrúmi kalda stríðsins af eins mikilli þekkingu og innsæi inn í hóp okkar sem yngri erum og munum þessa tíma ekki nema að litlu leyti og jafnvel alls ekki.

Segja má að frétt um þennan fund gömlu ritstjóranna með leikhúsfólkinu sé kveikjan að samtalinu sem hér fer á eftir en Árni brást ljúflega við beiðni minni um að horfa um öxl, á átakalínur kalda stríðsins, og bera þær saman við heimsmyndina eins og hún blasir við okkur í dag og horfa til framtíðar í heimi sem tekið hefur róttækum breytingum frá því hann gekk seinast út af Þjóðviljanum, þegar blaðið lagði upp laupana árið 1992. Ári eftir að Sovétríkin féllu.

Enn ein vetrarlægðin er komin á kreik þegar við Ragnar Axelsson ljósmyndari tökum hús á Árna í Mosfellsbænum þetta síðdegi en hlýtt og notalegt innandyra í Hulduhólum listhúsi. Manni verður ósjálfrátt hugsað til njósnarans sem kom inn úr kuldanum í einni frægustu spennusögu kalda stríðsins, eftir John Le Carré. Ekki svo að skilja að við RAX komum í annarlegum tilgangi; hér er allt uppi á borðinu. Við komum okkur fljótt að efninu enda stendur ekki á Árna þegar kalda stríðið er annars vegar. Hann leggur upp með tvö hugtök, ótta og vonir.

Klauf þjóðina í tvennt

„Bandaríski herinn og afstaðan til hans varð snemma að máli málanna hér á landi í kalda stríðinu og klauf þjóðina í tvennt,“ byrjar Árni og bætir við að sameiginlegur ótti hafi gripið marga; óttinn við nýja styrjöld, ekki síst vegna þess að kjarnorkuvopn voru komin fram á sjónarsviðið. „Seinni heimsstyrjöldinnni var nýlokið en ekki leið á löngu uns þjóðirnar sem sigruðu Hitler og nasismann voru komnar í hár saman. Það vakti mönnum ugg og óttinn við nýja styrjöld varð leiðandi stef gegnum mest allt kalda stríðið. Þessi höfuðótti var ólíkur eftir því hvort horft var á stöðuna frá vinstri eða hægri. Hægrimenn voru hræddir við Sovétríkin og valdarán þeirra í Austur-Evrópu en hinir róttæku óttuðust Bandaríkin og yfirráð þeirra sem þeir töldu að kæmu í veg fyrir að samfélög gætu breytt sér. Þessar átakalínur urðu snemma mjög skýrar,“ segir Árni.

Hér heima segir hann óttann við bandarísk áhrif hafa blandast saman við þjóðernisumræðuna enda Ísland nýorðið sjálfstætt lýðveldi og mörgu ósvarað um stöðu þess í heiminum. „Menn fóru að vinna hjá hernum, fyrst Bretum en síðan Bandaríkjamönnum, og vinstrimenn og margir fleiri reyndar voru ekki í neinum vafa um að það hefði haft djúpstæð áhrif á siðferði þjóðarinnar. Menn töldu að siðferðinu hefði stórlega hnignað hvað sem leið augljósum áhrifum hersins á atvinnulíf og velmegun í landinu. Talað var um hernám hugarfarsins og því haldið fram að Íslendingar væru orðnir háskalega háðir umsvifum hersins og fyrir vikið misst allan sjálfstæðan vilja og metnað. Magnús Kjartansson ritstjóri skrifaði oftar en ekki um þetta í Þjóðviljann og spáði því reyndar að hersetan sem Morgunblaðið kallaði framan af illa nauðsyn yrði svo sjálfsögð að jafnvel þótt Ameríkanar vildu sjálfir fara burt með her sinn síðar meir myndu ráðamenn þjóðarinnar grátbiðja þá um að vera áfram. Og sú spá rættist. Segja má að hífaður kunningi minn, sem kom einu sinni að máli við mig, hafi talað fyrir munn margra þegar hann sagði að herinn væri það versta sem hefði komið fyrir þessa þjóð; hann hefði gert okkur öll að aumingjum. En úr því hann væri hérna væri um að gera að láta hann borga!“

Haldnir sögulegri bjartsýni

– En við hvað tengdu menn vonir sínar og væntingar í kalda stríðinu? Var eitthvað sem sameinaði menn í því tilliti?

„Menn voru haldnir sögulegri bjartsýni,“ svarar Árni. „uppgangur var mikill og menn höfðu óbifandi trú á hagvexti, menntun og tækniframförum, svo fátt eitt sé nefnt, og tengdu þessa þætti vitaskuld við sína pólitík. Fjórflokkurinn réði lengst af lögum og lofum í íslenskum stjórnmálum og almenningur lagði traust sitt á pólitíska flokka; menn áttu þar heima og leiðtogar flokkanna voru eins og andlegir feður þeirra. Menn skipuðu sér í sveitir og áttu þar sitt heimili. Þessum sterku tökum flokkanna á þjóðlífinu fylgdi kannski hugsjónamennska og fórnfýsi – en líka spilling. Þegar menn komust til valda hikuðu þeir ekki við að mismuna fólki á vinnumarkaði og við ráðningu í embætti, eftir því hvar í flokki það stóð, og það sem meira var, gert var ráð fyrir þessu. Þetta stuðlaði að þröngsýni og neikvæðni. Það var sama hvaðan var horft, pólitískir andstæðingar gátu ekki undir neinum kringumstæðum haft rétt fyrir sér. Fyrir vikið varð kaldastríðsumræðan afskaplega grimm.“

Að sögn Árna var ýmsum brögðum beitt og nefnir hann í því sambandi Gallup-könnun sem gerð var árið 1955. „Niðurstöður hennar voru leyndarmál sem komst ekki upp fyrr en áratugum síðar. Könnunin leiddi sumsé í ljós að nálægt 60% þjóðarinnar væru á móti herstöðinni. En það mátti auðvitað ekki spyrjast út,“ segir hann en þegar könnunin var gerð sat í landinu ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forystu Ólafs Thors.

„Í Atómstöðinni, sem kom út 1948, og í blaðagreinum talar Halldór Laxness um landráðamenn sem svipt hafi þjóðina gleðinni yfir því að vera þjóð en herstöðvarsinnar voru ekki síst iðnir við að hamast gegn öllum sem voru tvístígandi og settu sér það takmark að pólarisera þjóðina. Enginn mátti vera á móti báðum fylkingum; menn urðu að vera með annað hvort frelsinu sem Ameríkanar vildu helst einoka eða sósíalismanum sem Sovétmenn töldu hvergi til í raun nema hjá þeim. Við þetta skapaðist ákveðin nauðhyggja og ekki mátti gagnrýna það aflið sem stóð mönnum nær því þá væru þeir að hjálpa handhöfum hins illa.“

Auðvitað hljóp skoðanaofstopinn einatt með menn í gönur, að sögn Árna, en það helgaðist ekki síst af því að menn tóku sínar lífsskoðanir af meiri alvöru en gengur og gerist þegar víglínur eru óskýrari. Skoðanaleysið er eitt það alversta sem til er, segir persóna í einni skáldsögu Halldórs Laxness og eflaust hafa margir verið tilbúnir að skrifa upp á það.“

Nauðhyggjan gaf eftir

Árni segir nauðhyggjuna hafa gefið eftir með tímanum. „Það tók svona tuttugu ár að vinda ofan af henni en með ókyrrðinni hjá unga fólkinu í heiminum, frá 1968 til 1970, fara menn að verða varir við vaxandi gagnrýni vinstrimanna á Sovétríkin vegna mannréttindamála og yfirgangs þeirra í Austur-Evrópu og hjá borgaralega þenkjandi mönnum á Bandaríkin vegna Víetnamstríðsins og fleira. Þannig komu menn sér smám saman út úr nauðhyggjunni án þess að nýjar línur yrðu alveg hreinar. Ég man eftir að hafa hitt Matthías Johannessen, skáld og ritstjóra Morgunblaðsins, á götu á þessum tíma og hann kvaðst mjög feginn því að „nú hafið þið meira svigrúm til að gagnrýna Sovétríkin og við til að gagnrýna Ameríkana“.“

Glíman tók á sig ýmsar myndir og til marks um andrúmsloftið víkur Árni máli sínu að ónefndum karlaklúbbi sem enn er starfandi. Mælt var með inngöngu hans í klúbbinn en samkvæmt reglum þurftu allir meðlimir að vera inngöngunni samþykkir. Svo var ekki í tilviki Árna og var honum því hafnað. Sama máli gegndi um Sigurð A. Magnússon, rithöfund og Morgunblaðsmann á svipuðum tíma. „Menn voru dauðhræddir að hrófla við einhverju ímynduðu jafnvægi. Á endanum var þó gerð málamiðlum um að hleypa okkur Sigurði inn á sama fundi,“ segir Árni og brosir.

Þótt átakalínur væru svona skýrar hafði nálægðin í litlu samfélagi tilhneigingu til að milda nokkuð andstæður. „Við Íslendingar erum ýmist frændur, skólabræður eða úr sama sveitarfélaginu. Nú eða höldum með sama íþróttafélaginu. Þannig er persónuleiki hvers og eins nokkurskonar tryggðakerfi og menn spiluðu úr þessu eftir bestu getu. Hver af þessum tryggðaböndum eru sterkust? Þau pólitísku, fjölskyldan, uppruninn nú eða bara Valur eða KR? Það er svo margt sem getur skipað manni í sveitir í þessu lífi.“

Eins og menn þekkja þá drógust menningin og bókmenntirnar inn í nauðhyggjuna. „Margir áttu erfitt með að viðurkenna Halldór Laxness áður en hann fékk Nóbelsverðlaunin. Eftir það vildu allir vera vinir hans. Strákar sem voru með mér í heimavist í Reykholti og síðar á Laugarvatni vildu alls ekki lesa bækurnar hans þótt þeir hefðu mætur á skáldskap vegna þess að þeim þótti hann fara með níð um bændamenninguna og fleira gott,“ segir Árni en þess má til gamans geta að hann var fyrsti stúdentinn sem brautskráður var frá Laugarvatni enda fremstur í stafrófinu í fyrsta útskriftarhópnum, 1954.

Úrkynjun gegn lævísi

Annað gilti um gamla góða ljóðið sem tók óvænt upp á þeim ósköpum að slíta sig úr fjötrum stuðla og höfuðstafa. Atómskáldskapur kallaðist hið nýja form, kennt við téða skáldsögu Laxness.

„Í þeim efnum skipuðu menn sér í grunninn ekki í sveitir eftir pólitískum skoðunum, heldur kynslóðum,“ segir Árni. „Eldra fólk vildi halda áfram að yrkja eftir viðurkenndum bragháttum en yngra fólkið sagði „rímbullinu“ stríð á hendur. Einhver brögð voru þó að því að þeir sem voru á móti atómskáldskap tengdu ljóðbyltinguna við andstæðinga sína í pólitík. Hann var þá borgaraleg úrkynjun ellegar kommúnísk lausung og lævísi.“

Árni er ekki frá því að pólitískar ástríður sem tengdu sig við skáldskap hafi að sumu leyti aukið áhuga þjóðarinnar á ljóðlist og bókmenntum yfirhöfuð. Þetta hafi þýtt að skáldin urðu ekki bara föst í venjulegum skáldaríg og vinaklíkum, heldur urðu þau þátttakendur í stærra drama sem varðaði meðal annars pólitík. Það er hlustað á okkur! gátu þau sagt.

Fjölmiðlar voru kapítuli út af fyrir sig í kalda stríðinu, hver flokkur átti sitt málgagn og var ófáum dálksentimetrum varið daglega í rökræður (lesist: yfirhalningu) við önnur blöð. Fátt gefur manni betri tilfinningu fyrir tíðarandanum en að fletta gömlum dagblöðum og sjá hvernig hnútukastið gekk ritstjórna á milli. Auðvelt er að ímynda sér að menn hafi klæjað í fingurna á morgni hverjum að koma höggi á hinn pólitíska andstæðing. Þá upplifðu blöðin einstaka tíðindi eða viðburði í þjóðlífinu gjarnan með gjörólíkum hætti. Bros færist yfir andlit Árna þegar þetta ber á góma. „Keflavíkurgöngurnar eru líklega besta dæmið um þetta,“ segir hann. „Meðan Þjóðviljinn skrifaði um og sýndi á myndum mikinn mannfjölda og stórkostlega sigurgöngu leigði Morgunblaðið sér flugvél og birti mynd sem sýndi úr lofti örfáar hræður á gangi á víðavangi. Og hnykkti á með kveðskap um göngumenn sem fengju borgað í rúblum fyrir sín gönuhlaup.“

– Nú eru liðin þrjátíu ár frá lokum kalda stríðsins og heimsmyndin allt önnur en hér hefur verið lýst. Hvernig horfir hin nýja heimsmynd við þér?

„Það er alveg rétt, heimsmyndin er allt önnur eftir þær miklu sviptingar sem áttu sér stað í kalda stríðinu; Sovétríkin hrundu og sósíaldemókratar á Vesturlöndum með þeim svo undarlegt sem það nú sýnist. Byltingin í Rússlandi var lyftistöng fyrir einmitt sósíaldemókrata á sínum tíma enda útbreidd skoðun að yrðu menn ekki við a.m.k. sumum kröfum hinnar svokölluðu alþýðu væri voðinn vís. Þegar Sovétríkin voru hrunin var enginn hræddur við neitt lengur og þótti sem ekki væri um neitt að deila. Alla vega um tíma. Nú trúa menn ekki lengur á hagvöxt sem byggist á sívaxandi framleiðslu og neyslu og orkunýtingu. Hvaða hagvöxt? spyrja menn í dag. Er innistæða fyrir honum? Við búum við þá skrýtnu þversögn að til er allskyns tölfræði um það að ástandið í heiminum sé skárra en oftast áður. Aldrei hafa færri búið við sára fátækt og þrátt fyrir reglulegar fréttir um stríð og skærur hafa aldrei færri týnt lífi í styrjöldum en á þeim tímum sem við lifum á núna. En samt er mörgum dimmt fyrir sjónum,“ segir Árni.

„Menn hafa lengi búið við þá trú að börnin okkar komi til með að eiga betra líf en við. Nú er hins vegar svo komið að sú trú er mjög löskuð; margir óttast að börnin okkar komi ekki til með að eiga betra líf en við heldur búa við lakari hlut. Margt kemur þar til, svo sem umræðan um loftslagsmál og vandann sem mannkyni er á höndum af þeim sökum. Við það bætist ótti við nýja kreppu en bjartsýni þeirra sem trúa á hina ósýnilegu hönd markaðarins sigldi í strand með bankahruninu árið 2008. Margir óttast líka græðgi þessa 1% sem stöðugt verður valdameira og ríkara. Fyrir liggur að alþjóðleg stórfyrirtæki eru löngu orðin valdameiri en flest þjóðríki og þess vegna er almenningur í vaxandi mæli varnarlausari en áður. Sumir óttast líka sjálfa tæknina; að allt sem heitir atvinnuöryggi tilheyri fortíðinni. Er til eitthvað lengur sem heitir ævistarf? Ég nefni tölvulærða sem dæmi; margir þeirra fá bara verktakavinnu í dag. Alvörusamningar við launafólk heyra víða sögunni til.“

Átti sér enga framtíð

Við þetta bætist menningarlegur ótti. „Ég man eftir samtali sem ég átti kringum 1990 við þáverandi sendiherra Frakka á Íslandi. Að hans dómi átti Frakkland sér enga framtíð á þeim tíma; öllum stæði á sama um þjóðríkið og tunguna. Mér brá dálítið við þetta; ef Frakkar eru slegnir slíkum framtíðarótta, hvað megum við þá segja, þessi agnarsmáa þjóð? Þá sjaldan við Matthías Johannessen hittumst á seinni árum þá tölum við ekki síst um þetta. Hvað verður um íslenska tungu og menningu? Hvað verður ef stór hluti nýrra kynslóða finnst það jafnvel sér til trafala að nota íslenska tungu?“

– Fer þá lítið fyrir voninni?

„Til eru menn sem trúa á snilld mannsandans í tæknilegum efnum og orkumálum. Menn sem trúa á „cold fusion“, sjálfkeyrandi bíla og fleiri tæknigaldra. Kannski er það eitthvað til að byggja á. Ástandið er heldur ekki eins slæmt og það sýnist í fjölmiðlum, þar sem góðar fréttir eru varla til, nema helst þegar við vinnum landsleik. Manndráp eru miklu meira spennandi frétt, ekki síst þegar stórveldi eiga í hlut, og leggja undir sig fréttavíddirnar dögum saman. Ekki alls fyrir löngu var ég tepptur á hóteli í Hollandi og horfði á sjónvarpið meðan ég beið. Allar stöðvar voru með sömu fréttirnar utan úr heimi, eina eða tvær, og svo eina lókal frétt. Það er eins og allir séu að bíða eftir því sama, eins og þegar Reagan og Gorbatsjov réðu ráðum sínum í Höfða um árið. Sjálfur reyni ég að stilla mig um að sökkva mér í svartagallsraus, allt var betra í gamla daga og þar fram eftir götunum, auðvitað er margt betra í dag. Það er hins vegar áberandi að þegar menn villast af leið þá eru hagkerfin svo öflug að menn skilja eftir sig feikna djúp spor og raska svo mörgu. Ég er að verða 85 ára og þegar maður er kominn á þann aldur þá fara margir hlutir að fjarlægjast. Einu sinni heimsótti ég Göggu vinkonu mína Lund á elliheimili, hún var þá komin um nírætt og hafði á orði að þarna úti væru heilir heimar sem kæmu henni ekki við lengur. Á þeim tíma fannst mér þetta djúpt í árinni tekið hjá Göggu og sór að temja mér aldrei þetta viðhorf. En eflaust var margt til í þessu hjá henni. Þegar maður hefur staðið í deilum alla ævi er líklega kominn tími til að vera til friðs.“

Hann brosir.

– Varla er starfi þínu þó lokið?

„Nei, ætli það. Ég gaf seint út mína fyrstu bók, orðinn hálffimmtugur, en hef skrifað einar fimm eftir sjötugt. Núna er ég búinn að skrifa eina til um eitt af stærstu vandamálum mannkynsins í allri sögu þess. Ég segi ekki meira um það í bili enda hefur enginn lesið þá bók nema börnin mín og einn sagnfræðingur er núna með hana til skoðunar. Það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem ég tekst á við áleitnar spurningar, samanber bókina Glíman við Guð sem ég gaf út fyrir rúmum tíu árum. Meðan maður paufast eitthvað er maður meira lifandi. Ég hef alltaf verið að lesa allan skrattann og manni hættir til að fara út og suður í lestrinum þegar maður velur sér ekkert fast viðfangsefni. Verkefnin styrkja sjálfsagann og ólíklegustu bækur og ritgerðir koma að haldi í glímunni við þau. Maður tekur svo víða eftir tengingum við það sem sett er í fókus á hverjum tíma.“

Var aldrei duglegur í skömmunum

– Þegar þú horfir um öxl var hægt að nálgast átökin í kalda stríðinu með öðrum hætti?

„Sjálfur var ég aldrei duglegur í skömmunum. Þegar ég var nýkominn heim frá Moskvu og byrjaður á Þjóðviljanum lenti ég í ritdeilu við Sigurð A. Magnússon, þáverandi ritstjóra Lesbókar Morgunblaðsins, og skrifuðum við greinar á víxl um afstöðubókmenntir, gagnrýni á skoðanir og fleira. Báðir hlutum við hrós fyrir að salla ekki hvor annan niður með offorsi, Moggafíflið og Þjóðviljafíflið, sem var líklega nýlunda á þeim árum.“

Hann brosir.

Árna þykir ekki auðvelt að skilgreina sig í þessum nýja heimi. „Ég tel mig til dæmis vera þjóðernissinna, eins og svo margir af minni kynslóð, en frábið mér þá orðræðu að það sé næsti bær við rasisma, eins og menn vilja stundum vera láta. Það er sitthvað, þjóðrækni og þjóðremba. Ég er líka Rússi vegna námsferils og minna fjölskyldutengsla og að sumu leyti gyðingur. Þá hef ég lengi haft mikið dálæti á bæði Írlandi og Ítalíu og þykir vænt um öll þessi lönd sem ég nefni. Svona er maður alltaf að spila úr sínu tryggðakerfi.“

– Þú segist vera Rússi. Hvar stendurðu gagnvart Sovétríkjunum í dag?

„Ég áttaði mig snemma á því að Sovétríkin voru ekkert fyrirmyndarríki fyrir mig. Á sama tíma átti ég þarna marga vini og mat stöðuna gjarnan út frá þeirra hagsmunum. Það birti aðeins yfir Sovétríkjunum í tíð Krúshjovs og ég var á margan hátt ánægður með Gorbatsjov sem ásetti sér að koma á miklum breytingum í sögu Rússlands án blóðsúthellinga. En hann tapaði á endanum. Mínar tilfinningar gagnvart hruni Sovétríkjanna voru blendnar enda á ég marga vini í Eystrasaltsríkjunum og gladdist fyrir þeirra hönd. Þeir voru endurheimtu sjálfstæði fegnir.“

– Á næsta ári verða þrjátíu ár liðin frá falli Sovétríkjanna. Hvernig finnst þér Rússum hafa reitt af síðan?

„Rússar eru mjög misjafnlega settir, aðallega eftir því hvað varð um börnin þeirra eftir umskiptin. Sumir sjá eftir vissu afkomuöryggi Sovéttímans meðan aðrir, sem voru heppnari, eru tiltölulega ánægðir. Annars hafa Rússar verið frekar óheppnir gegnum söguna; það er eins og þeir fái alltaf versta tilbrigðið af stjórnarfari sem hugsast getur. Sósíalisminn endaði hjá þeim í Stalín og Gúlagi og kapítalisminn endar í auðmannastjórn í kringum Pútín og mjög mikilli misskiptingu lífsgæða. Í dag fagna ég öllum jákvæðum fréttum frá Rússlandi en veit að staðan er snúin. Sumir eru hrifnir af Pútín af því að hann stendur uppi í hárinu á Bandaríkjamönnum. Það er ein arfleifð kalda stríðsins. Eins og þegar menn standa með Saddam Hussein eða Kínverjum af sömu ástæðum. Óvinir óvinar míns eru vinir mínir, segir gamalt spakmæli. Í mínum huga er það vanhugsað.“

– Sem leiðir okkur að Donald Trump. Hvernig líst þér á hann?

„Þar eru allir svo mikið sammála að ég get ómögulega fengið mig til að hóa í lætin. Ég skal þó láta þig hafa eina vísu sem ég orti:

Um æðikollinn Donald Duck,

mig dreymir nú sem a strike of luck.

Og flott það væri ef Forrest Gump

fengi öll völd en ekki Trump.“

Beðinn um að horfa yfir hið pólitíska svið kveðst Árni seint verða sáttur við orðinn hlut og mannkynssöguna yfirhöfuð. Það verði alltaf ærið verkefni að huga að misskiptingu lífsgæða. „Það er mikil ringulreið og ráðleysi í herbúðum vinstrimanna í heiminum. Þeir þurfa að bregðast við ofurvaldi þessara örfáu ofboðslega ríku og verja velferðarkerfið en finna ekki lausnir sem um munar. Mönnum virðist fyrirmunað að koma sér upp sterkri og samstilltri pólitík, eins og sést á hnignun sósíaldemókrata í Evrópu. Þeir bundu einatt traust sitt við menntun sem lyftir öllum bátum en þegar allir eru komnir í háskóla er ekki pláss fyrir alla í góðum störfum. Og þeir sem ekki komast að eru eftir skildir og geta auðveldlega orðið fóbíum og lýðskrumi að bráð. Það er ekki bjart umleikis í þessum herbúðum.“

Flokkar eru klofnir

– Hvernig finnst þér vinstri-grænum hafa vegnað í stjórnarsamstarfinu?

„Ég veit það ekki. Satt best að segja. Ég hef fyrir þónokkru komist að þeirri niðurstöðu að maður geti ekki fundið pólitíska hreyfingu sem maður er fullkomlega ánægður með. Við erum að sumu leyti haldin þeim misskilningi að stjórnmálamenn geti gert meira en þeir hafa afl til. Staðreyndin er hins vegar sú að flokkar eru klofnir og hafa ekki sömu völd og áður; sumir hafa ekki nema brot af því fylgi sem þeir gátu áratugum saman gengið að vísu. Það er gott og gilt að setja umhverfismál á oddinn, eins velferðarmál, en hvorki hér né annars staðar er sterk og vel mótuð stefna í boði. Vel má vera að menn séu til dæmis sammála um að draga úr óþarfa neyslu og framleiðslu. En hvernig á að gera það? Það er óleystur vandi. Hver á til dæmis að segja hvað er óþarft og hvað ekki? Við gömlu vinstrimennirnir vildum verða við eðlilegum og nauðsynlegum þörfum manna og eftir klukkan fimm á daginn áttu menn að geta verið með sínum nánustu eða stundað list og menningu, eins og segir í Dúfnaveislunni. Við flöskuðum á hinn bóginn á því að ekkert er til sem heitir eðlilegar þarfir. Þær er hægt að framleiða og gróðursetja eins og annað. Þegar ég var að vaxa úr grasi þótti ekki sjálfsagt að eiga bíl en núna þurfa allir að eiga bíl, helst tvo. Einu sinni sem oftar var ég á kvöldvakt á Þjóðviljanum með Magnúsi Kjartanssyni og þá spurði hann mig: Af hverjum erum við að þræla okkur hérna út fram á nótt? Er það til þess að allir verkamenn landsins geti eignast bíl?“

– Ein spurning að lokum. Ef kosið yrði til Alþingis á morgun, hvaða flokk myndir þú kjósa? Myndirðu ef til vill ekki greiða atkvæði?

„Jú, ég myndi kjósa. Ég hef þó hvergi gert vart við mig í pólitík lengi, nema hvað ég hef messað svolítið yfir gömlum vinstri-grænum um rússnesku byltinguna og fleiri dæmi úr sögunni. Ætli ég kjósi ekki þann flokk sem hefur flest fólk innanstokks sem hugsar svipað og ég.“

Hvaða flokkur skyldi það vera?