„Dansinn hefur haldið mér á hreyfingu en ég hef líka verið í boot-camp, crossfit og svo hef ég kennt spinning lengi. Ég féll mest fyrir spinning, fyrir utan dansinn,“ segir Sandra Björg.
„Dansinn hefur haldið mér á hreyfingu en ég hef líka verið í boot-camp, crossfit og svo hef ég kennt spinning lengi. Ég féll mest fyrir spinning, fyrir utan dansinn,“ segir Sandra Björg. — Ljósmynd/Helgi Ómarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hin tæplega þrítuga Sandra Björg Helgadóttir hefur komið víða við þegar heilsan er annars vegar. Dans, spinning, crossfit, jóga, líkamsrækt og andleg heilsa er efst á blaði. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Sandra Björg Helgadóttir er sannarlega jákvæð og orkumikil kona sem veit hvað hún vill. Hún féllst á að hitta blaðamann í vikunni og segja frá sínum hugðarefnum; líkamlegri og andlegri heilsu. Sandra er með BS-próf í iðnaðarverkfræði og hyggur á MBA-nám í haust en þessa dagana þjálfar hún fólk, dansar og heldur námskeið og fyrirlestra.

„Eftir námið vann ég lengi hjá Ölgerðinni í viðskiptatengdum verkefnum, lengst af í markaðsdeildinni, og fann að það átti betur við mig en það sem ég lærði í verkfræðinni, þótt námið sé vissulega góður grunnur. Ég hætti hjá Ölgerðinni fyrir jól, en hafði reyndar hætt áður fyrir tveimur árum, þegar ég stofnaði Absolute Training. Sú sem tók við af mér varð svo fljótlega ólétt svo ég fór til baka í Ölgerðina eftir árs pásu. Síðasta árið var ég því í 200% vinnu,“ segir Sandra og hlær.

Hræðileg í fótbolta

Sandra segist hafa stundað hreyfingu allt sitt líf. „Mamma og pabbi voru dugleg að láta okkur systkinin prófa allt. Mamma gæti örugglega sagt þér hversu vandræðalegt það var að standa á hliðarlínunni og horfa á mig spila fótbolta. Ég var hræðileg í fótbolta,“ segir hún og brosir.

„Ég er mjög léleg í svona átökum, eins og átökum um boltann. Ég lét andstæðinginn gjarnan bara hafa hann,“ segir hún hlæjandi.

„Ég dáist að foreldrum mínum fyrir að hafa látið mig prófa mig áfram endalaust en það var ekki fyrr en ég fór í fimleika og dans að ég fann mína hillu. Ég bjó sem barn í Danmörku og fór þar níu ára gömul í fimleika. Þegar ég kom heim ellefu ára var það dansinn sem heillaði og ég fann mig vel hjá Stellu Rósinkranz og hef elt hana síðan ég var unglingur. Hún er einn flottasti dansari sem við eigum,“ segir hún.

„Ég hef verið að æfa hjá henni og kenna síðan 2008. Ég var að byrja aftur að kenna dans núna í nóvember eftir smá pásu. Ég og vinkona mín Tara Sif Birgisdóttir kennum námskeið sem heitir Dans Fit og er kennt í Dansstúdíói World Class. Við erum með sömu rútínu í byrjun, upphitun, en kennum svo alltaf nýjan dans í hverri viku. Þá er dansað í fjörutíu mínútur og svitnað!“ segir hún.

„Dansinn hefur haldið mér á hreyfingu en ég hef líka verið í herþjálfun, crossfit og svo hef ég kennt spinning lengi. Ég féll mest fyrir spinning, fyrir utan dansinn.“

Hvað er svona gaman við það að sitja á hjóli inni í sal?

„Fyrir mér er það tónlistin og takturinn. Ég er alin upp við mikla tónlist. En ég man að þegar ég fór í fyrsta spinningtímann minn hugsaði ég að ég færi aldrei aftur. Ég held að flestir upplifi það. Maður þarf að komast yfir það tímabil að hata spinning, því fyrst hatar maður það en fær svo fíknina,“ segir hún og hlær.

Endar með tryllingi

Dansinn hefur alltaf verið eitt af því skemmtilegasta sem Sandra veit og var hún því ekki lengi að ákveða að skella sér í prufur hjá Rigg-viðburðum þegar auglýst var eftir dönsurum í Tinu Turner-heiðurssýningu sem sett var upp í Hörpu og á Akureyri vorið 2015. „Við vorum á endanum fjórar sem vorum valdar til að dansa. Þetta var sýning með fimm söngkonum og fjórum dönsurum og heilli hljómsveit,“ segir Sandra, en ein af söngkonunum, Bryndís Ásmundsdóttir, hélt áfram að koma fram í einkaveislum og syngja lög Tinu. Sandra og Tara Sif fylgja henni sem dansarar.

„Við höfum verið á árshátíðum, þorrablótum, brúðkaupum og alls kyns veislum að skemmta í fjögur, fimm ár. Þetta hefur gengið mjög vel og er það skemmtilegasta sem ég geri í lífinu! Á tímabili var ég farin að vinna allt of mikið og setti mér þá reglu að vinna ekki um helgar, en þetta er eina undantekningin. Þetta er ekki eins og vinna af því þetta er svo gaman. Bryndís er svo ótrúleg að hún fær alla með sér í stuð; það endar alltaf með að það tryllist allt, jafnvel á elliheimilum,“ segir hún og hlær.

„Hún nær öllum upp úr sætinu; algjör orkusprengja. Á næstu mánuðum erum við bókaðar í átta sýningar, þannig að það er nóg að gera.“

Andleg og líkamleg heilsa

Góð líkamleg heilsa er gulli betri en Sandra vildi finna leið til að geta unnið með líkamlega og andlega heilsu samtímis. Hún fann því upp á prógrammi sem hún kallar absolute training. „Það er þjálfun í líkamlegri og andlegri heilsu og ég kenni það í World Class í Smáralind en það eru einnig tímar víðar á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri og Höfn. Þetta eru fjögurra vikna námskeið, þrisvar í viku í sextíu mínútur. Það sem er öðruvísi við þessa tíma er að við tökum fyrsta korterið í andlegu heilsuna. Þá vinnum við að markmiðasetningu og hver og einn sest niður með blað og penna og svarar spurningum eða vinnur í markmiðum sínum. Þetta er í raun eins og hóp-einkaþjálfun því það eru aldrei fleiri en tuttugu í hóp og oft bara tíu til fimmtán. Þetta er opið fyrir bæði kynin en miklu fleiri konur mæta en karlar,“ segir hún.

„Rauði þráðurinn í þessu er markmiðasetning. Við setjum okkur markmið fyrir fjórar vikur en einnig fyrir hverja viku. Svo eru ýmis umræðuefni á dagskrá. Það fá allir stílabók og penna og fólk fær að skrifa og einnig deila með öðrum því sem það skrifar. Það er ótrúlegt að þrátt fyrir alla tækni hafa rannsóknir sýnt að það að skrifa hlutina niður með penna eða blýanti á blað virðist virka best þegar fólk vinnur í markmiðum sínum. Það virkar betur en einhver öpp!“ segir Sandra.

„Ég hef kennt þetta núna í eitt og hálft ár og það gengur mjög vel. Þess vegna var ákveðið að kenna þetta prógramm víðar. Þetta er 52 vikna prógramm þannig að það er nýtt viðfangsefni í hverri viku. Í einni viku er til dæmis tekið fyrir hugtakið tíminn; í hvað eyðir fólk tímanum? Í byrjun árs tölum við um venjur og rútínur. Síðar fjöllum við um mistök og hvernig læra má af þeim. Þetta eru bara örfá dæmi,“ segir hún.

Eftir fímmtán mínútur af hugmyndavinnu er farið af stað í hreyfingu. Sandra segir prógrammið fjölbreytt og henti öllum þar sem hver og einn geti unnið á sínum hraða. „Ég er með hjól, róður, hlaup og sipp og svo styrkinn á móti. Þá notum við ýmsar stangir og lóð. Ég skipti þessi upp og hver og einn vinnur í ákveðinn tíma, þannig að allir geta verið með því fólk fer þetta á sínum hraða. Ef fólk ræður ekki við ákveðnar æfingar sníð ég þær að þörfum hvers og eins,“ segir hún og bendir á að betri upplýsingar megi finna á absolutetraining.is.

Fyrirmyndir í crossfit

Líkamsræktarkennslan og dansinn er nánast fullt starf hjá Söndru þessa dagana. „Suma daga vakna ég hálfsex og kem heim átta á kvöldin. Ég kenni þrisvar í viku fimm tíma á dag, þannig að það er frekar mikið. Hina dagana er ég að vinna hjá KVAN. Þar eru sjálfstyrkingarnámskeið í boði fyrir ungt fólk en einnig námskeið fyrir grunnskólakennara og starfsmenn fyrirtækja. Ég vinn þarna sem verktaki og er oft með fyrirlestra fyrir ungt fólk í grunnskóla eða menntaskóla. Svo hef ég einnig verið með námskeið fyrir ungt fólk til að byggja upp sjálfstraust, vera betri í samskiptum og vinna í tjáningu,“ segir hún.

Sandra hefur einnig mikinn áhuga á crossfit sem hún hefur æft en kærasti hennar og sambýlismaður, Hilmar Arnarson, er einmitt crossfitkennari og hefur keppt erlendis í greininni. Hann er einnig með verkfræðimenntun og vinnur í Ölgerðinni. „Við erum mjög samtaka,“ segir Sandra og hlær.

„Ég hef æft crossfit í gegnum tíðina og finnst Annie Mist og Katrín Tanja flottar og svo miklar fyrirmyndir. Ég lít mjög upp til þeirra og þær veita mér mikinn innblástur í æfingum. En upp á síðkastið hef ég einblínt á absolute training.“

Að bæta við þekkinguna

Nú ert þú greinilega markmiðadrifin manneskja. Hver eru markmiðin fyrir 2020?

„Þau eru nokkur, meðal annars að sinna Absolute Training betur. Og af því ég fann í fyrra hvernig streitan fór að segja til sín ákvað ég að setja andlega heilsu í forgang. Ekki taka of mörg verkefni að mér. Ég ætla til Balí núna í febrúar og taka jógakennaranám en það hefur lengi verið markmið hjá mér. Það tekur þrjár vikur. Ég hef ekki verið nógu dugleg að fara sjálf á ný námskeið af því það hefur verið svo mikið að gera en það er eitt af því sem ég ætla að gera á árinu; bæta við mig þekkingu í þjálfun. Svo verð ég þrítug í sumar og Hilmar líka og okkur langar jafnvel að keppa í Ironman eða einhverju álíka á árinu. Það markmið er í vinnslu,“ segir Sandra.

„Draumurinn er svo að opna einhvers staðar Absolute Training erlendis. Þá myndum við kenna erlendum þjálfurum sem gætu þá kennt prógrammið í sínum heimalöndum. Ég stefni líka á að fara á hugleiðslunámskeið. Og ef ég kemst inn í MBA-námið flyt ég út til LA í haust,“ segir þessi orkumikla unga kona að lokum.