Rútuslys Hópbifreið með um 50 háskólanema fór út af skammt sunnan Blönduóss í gær. Þrír voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur en þyrlan lenti við Landspítalann í Fossvogi á níunda tímanum. Ekki var vitað um afdrif þeirra við úrvinnslu fréttarinnar seint í gærkvöldi.
Rútuslys Hópbifreið með um 50 háskólanema fór út af skammt sunnan Blönduóss í gær. Þrír voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur en þyrlan lenti við Landspítalann í Fossvogi á níunda tímanum. Ekki var vitað um afdrif þeirra við úrvinnslu fréttarinnar seint í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Jón Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rósa Margrét Tryggvadóttir Þorgerður Anna Gunnarsdóttir Afleiðingar vonskuveðurs í gær voru verulegar víða á landinu, en nokkuð var um slys og vegum víða lokað. Fjórar rútur lentu í slysum eða óhöppum í gær, þar af var eitt alvarlegt.

Rósa Margrét Tryggvadóttir

Þorgerður Anna Gunnarsdóttir

Afleiðingar vonskuveðurs í gær voru verulegar víða á landinu, en nokkuð var um slys og vegum víða lokað. Fjórar rútur lentu í slysum eða óhöppum í gær, þar af var eitt alvarlegt. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna rútu sem fór út af þjóðveginum skammt sunnan Blönduóss síðdegis í gær. Voru tvær rútur á samfloti þegar önnur þeirra valt en í þeim voru háskólanemar á leið í skíðaferð til Akureyrar. Voru á 50 nemar um borð í rútunni sem valt.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is í gærkvöldi leit ekki út fyrir að neinn væri í lífshættu en farþegarnir voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi og í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í kjölfar slyssins, auk þess sem þrír voru fluttir með þyrlunni til Reykjavíkur.Var samhæfingarstöðin í Skógarhlíð virkjuð og allir viðbragðsaðilar boðaðir á slysstað. Hilmar Hilmarsson, varðstjóri lögreglunnar á Norðurlandi vestra, sem var einn af þeim fyrstu á vettvang í gærkvöldi, segir í samtali við Morgunblaðið að menn hafi gert ráð fyrir hinu versta þegar komið var að rútunni. Það hafi verið mikil mildi að ekki hafi farið verr. Þau sem sluppu óslösuð eða með minni háttar áverka frá rútuslysinu fengu næturskjól á Blönduósi.

Gámur losnaði af vörubíl

Annað rútuslys átti sér stað í mikilli hálku og roki á þjóðvegi eitt við Blönduhlíð í Skagafirði, nærri Silfrastöðum, á fjórða tímanum í gær þegar rúta með 21 grunnskólabarni á aldrinum 14 til 16 ára hafnaði utan vegar. Engum varð meint af. Hópurinn var einnig á leið til Akureyrar þegar slysið átti sér stað.

Engin meiðsl urðu á farþegum þegar lítil rúta með 15 farþega fór út af veginum í Þrengslum. Sama var uppi á teningnum þegar önnur smárúta lenti í vanda á Lyngdalsheiði. Þetta staðfesti Davíð Már Bjarnason hjá Landsbjörg í samtali við mbl.is í gær en björgunarsveitafólki tókst að koma rútunum til aðstoðar.

Þá varð alvarlegt slys á Vesturlandsvegi fyrir hádegi í gær þegar ruslagámur losnaði af flutningabifreið og lenti á tveimur bílum. Lenti gámurinn á vörubíl og lítilli fólksflutningabifreið sem komu úr gagnstæðri átt við vöruflutningabifreiðina. Voru ökumenn bifreiðanna tveggja fluttir á gjörgæslu og voru þar enn þegar blaðið fór í prentun. Ekki er vitað hvað olli því að gámurinn losnaði af flutningabifreiðinni, en mjög hvasst var í Kollafirði í gær. Appelsínugul viðvörun var í gildi fyrri part dags á Suðurlandi í gær, en Þrengslum, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði og veginum um Kjósarskarð var lokað í gær vegna veðurs.

Samkvæmt athugasemd veðurfræðings Veðurstofu Íslands er von á batnandi veðri um helgina en veður á að að skána upp úr hádegi í dag.

Á að draga úr vindi og úrkomu í dag og kólna og er von á suðvestan 5-13 undir kvöld og éli en léttskýjað á Norður- og Austurlandi.