Davíð Óskar Ólafsson segir leikstjóra Brots hafa unnið mjög náið saman.
Davíð Óskar Ólafsson segir leikstjóra Brots hafa unnið mjög náið saman. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Davíð Óskar Ólafsson, sem leikstýrir tveimur þáttum af Broti og er einn af framleiðendum seríunnar, hefur tröllatrú á verkefninu og vonar að viðtökur erlendis verði til þess fallnar að opna fleiri dyr fyrir vandað íslenskt sjónvarpsefni. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Ég kom fyrst að þessu verkefni sem framleiðandi fyrir um tveimur árum og hef verið mjög virkur í öllu ferlinu síðan. Það var því mjög skemmtilegt að fá tækifæri til að spreyta sig sem leikstjóri líka,“ segir Davíð Óskar Ólafsson en hann leikstýrir þáttum þrjú og fjögur í glæpaseríunni Broti og er sá seinni á dagskrá RÚV í kvöld, sunnudagskvöld.

Það er Þórður Pálsson kvikmyndaleikstjóri sem á hugmyndina að Broti en hann leikstýrir sjálfur fjórum þáttum af átta. Þriðji leikstjórinn er Þóra Hilmarsdóttir. „Þórður talaði upphaflega við framleiðslufyrirtækið Truenorth en þar sem við hjá Mystery Productions höfum verið í samstarfi við þá undanfarin fjögur ár þá kom ég snemma inn í verkefnið sem framleiðandi. Meðal þess sem ég tók þátt í var að þróa söguna ásamt fleirum sem var mjög skemmtileg vinna. Eins hæfileikaríkur og Þórður er þá er hann að stíga sín fyrstu skref í faginu og þess vegna var ákveðið að fá fleiri leikstjóra að borðinu, eins og tíðkast með sjónvarpsseríur, bæði hér heima og erlendis. Nokkrir leikstjórar hafa til dæmis skipt Ófærðarseríunum á milli sín,“ segir Davíð.

Ýmsir komu til álita en það var yfir hádegisverði á Múlakaffi að Þórður og Davíð horfðu hvor á annan og mæltu svo til samstundis: En þú? En ég? „Eftir á að hyggja blasti það við. Ég var búinn að vera á kafi í verkefninu í tvö ár, þekkti efnið út og inn og vissi nákvæmlega hvert Þórður vildi fara með það. Mér leið aldrei eins og ég væri að leikstýra annarra manna verkefni,“ segir Davíð, sem leikstýrði meðal annars kvikmyndinni Bakk ásamt Gunnari Hanssyni árið 2015.

Á að vera afþreying

Davíð segir það alls ekki hafa verið flókið að vera með bæði leikstjóra- og framleiðandahattinn í Broti enda hafi aðstandendur seríunnar frá upphafi gengið í takt og vitað hverju þeir vildu ná fram með henni. „Brot á að vera afþreying. Popp og kók. Tempóið er hraðara en við þekkjum úr íslenskum glæpaseríum og okkur fleytt hratt gegnum söguna.“

Að sögn Davíðs unnu leikstjórarnir þrír náið saman. „Við sátum ófáar klukkustundirnar saman og krufðum hvern þátt fyrir sig. Þetta var samstillt átak og við Þóra komum með hugmyndir fyrir þættina sem Þórður leikstýrði og öfugt. Þetta var virkilega gaman og gefandi. Þegar verklagið er með þessum hætti kemur hver leikstjóri gjarnan með sinn tökumann en í Broti hvíldi sú vinna öll á herðum Árna Filippussonar. Það kom því oft og tíðum í hans hlut að passa upp á sjónrænu hliðina og Árni skilaði frábæru verki.“

Davíð kveðst hæstánægður með heildarútkomuna. „Við erum með mjög sterkt efni í höndunum, ekki síst vegna þess hversu vel við nostruðum við söguna og góður tími var tekinn í æfingar með leikurunum. Tökur frestuðust um einn og hálfan mánuð, sem var pirrandi á þeim tíma, en þegar upp er staðið varð það bara til þess að gera þættina enn þá betri. Enn meiri tími gafst til æfinga og undirbúnings.“

Eins og fram hefur komið hefjast sýningar á Broti í Bretlandi og Danmörku áður en sýningum lýkur hér heima, annaðhvort í janúar eða snemma í febrúar. „DR og BBC stefna að því að vera búin að klára seríuna áður en hún kemur inn á Netflix sem má setja hana í loftið frá og með 1. mars. Það verður mjög spennandi að sjá hvernig þáttunum verður tekið erlendis.“

Allir vissu af Valhalla

BBC kynnti þættina sérstaklega á vefsíðu sinni í desember og segir Davíð það hafa haft mikil áhrif. „Ég var nýlega á fundi með stórum aðilum úr sjónvarpsbransanum í London og þar vissu allir um hvað maður var að tala þegar Brot, eða The Valhalla Murders, eins og serían kallast ytra, bar á góma.“

Davíð er ekki í minnsta vafa um að mikil sóknarfæri séu fyrir íslenskt sjónvarpsefni erlendis, einkum glæpaþætti. „Ófærð og Fangar hafa plægt akurinn og nú er það undir okkur komið að hamra járnið og skila áfram góðu og söluvænlegu efni, eins og Danir hafa gert undanfarin ár og misseri. Vonandi opnar Brot fleiri dyr, ekki bara fyrir okkur sem að þáttunum stöndum, heldur íslenskt sjónvarpsefni almennt.“

Davíð segir seríur eins og Brot þurfa að sækja um helming fjármagnsins til útlanda, eigi að halda í þau viðmið sem sett hafi verið með Óærð og Föngum. Í dag sé það vel raunhæft en alls ekki sjálfgefið. „Auðvitað viljum við frekar leggja upp seríu og sækja svo ráðstöfunarféð í stað þess að laga seríu að ráðstöfunarfénu. Þýskaland og Frakkland eru stærstu markaðirnir en eðli málsins samkvæmt kaupa þau lönd ekki margar íslenskar seríur á ári. Þess vegna þarf að leita annað og það gengur alltaf betur og betur. Netflix fjármagnar til dæmis 40% af Broti og ný sería Baltasars Kormáks, Katla, verður að óbreyttu fyrsta íslenska serían sem Netflix fjármagnar að fullu. Það þýðir samt ekki að einhver gullöld sé runnin upp varðandi fjármögnun á íslensku sjónvarpsefni erlendis. Þetta er enn þá hark. Og verður. Möguleikarnir eru hins vegar orðnir fleiri en áður. Það hefur breyst. Annars má þetta auðvitað ekki verða of auðvelt; er það ekki eðli okkar Íslendinga að vilja hafa fyrir hlutunum?“

Bjartsýnn á gengi Gullregns

Það er skammt stórra högga á milli hjá Davíð og Mystery Productions en nýjasta myndin sem fyrirtækið framleiðir, Gullregn eftir Ragnar Bragason, var frumsýnd á föstudaginn. Hann er bjartsýnn á viðtökur. „Á forsýningunni sat ég úti í sal í fyrsta skipti á mynd sem ég framleiði og viðtökur voru vonum framar; mikið var hlegið og meira en maður bjóst við. Gullregn gæti hæglega gert góða hluti.“

Spurður um útrás þess verkefnis upplýsir Davíð að leit standi nú yfir að sölufyrirtæki. „Við vildum bíða þangað til myndin yrði tilbúin áður en við héldum af stað í þá vegferð en erum nú byrjaðir að senda hana á erlend sölufyrirtæki. Annar möguleiki er sá að við gerum þetta sjálfir. Við sjáum hvað setur.“

Næsta sjónvarpsverkefni Mystery er væntanlega Fangar 2. Handrit er svo gott sem tilbúið, að sögn Davíðs, og unnið er að því að klára fjármögnun. Þá eru þrjár kvikmyndir í pípunum hjá fyrirtækinu: Konur eftir skáldsögu Steinars Braga í leikstjórn Þóru Hilmarsdóttur; The Hidden í leikstjórn Þórhalls Sævarssonar en sú mynd verður á ensku en tekin upp hér á landi; og loks er það mynd eftir Davíð sjálfan, sem hefur vinnuheitið Midnight en ekki liggur fyrir hvort hún verður á íslensku eða ensku.