Textíllistakona Lilý Erla Adamsdóttir sér um að leiða smiðjuna.
Textíllistakona Lilý Erla Adamsdóttir sér um að leiða smiðjuna.
Fuglar himinsins hafa sannarlega blásið mörgum skáldum andagift í brjóst, þau hafa ort um þessa vini okkar sem flögra um loftin blá og gleðja okkur með söng sínum.

Fuglar himinsins hafa sannarlega blásið mörgum skáldum andagift í brjóst, þau hafa ort um þessa vini okkar sem flögra um loftin blá og gleðja okkur með söng sínum. Fegurð fugla og hreyfingar þeirra eru þess eðlis að þá má sjá í listaverkum frá örófi alda allt til dagsins í dag. Svo ekki sé nú talað um allar stórkostlegu fuglaljósmyndirnar þar sem margir leggja mikið á sig til að fanga ákveðin augnablik í lífi fiðruðu félaganna. Og enn verða fuglar okkur mannfólkinu hvatning til góðra verka, því í dag laugardag 11. janúar frá kl. 13-15 verður opin fuglasmiðja fyrir alla áhugasama á Náttúrufræðistofu Kópavogs. Fuglar munu þar veita innblástur fyrir teikningar og útsaum en textíllistakonan Lilý Erla Adamsdóttir ætlar að sjá um að leiða smiðjuna.

Í tilkynningu kemur fram að einföld útsaumsspor eins og blómsturspor og þræðispor verða æfð í ullarefni og hver og einn fær tækifæri til að skapa sinn eigin fegurðarfugl til að taka með sér heim. Nú er heldur betur lag fyrir skapandi fólk að stökkva til og fara með börnin eða vini í þessa fuglasmiðju og njóta þess að gera eitthvað skemmtilegt saman. Á tímum snjallsíma þar sem margir virðast fjarverandi með andlitið grafið ofan í lófatölvuna, sem símar eru, er þetta kjörið tækifæri til samveru. Fuglasmiðjan er liður í fjölskyldustundum á laugardögum á vegum Menningarhúsanna í Kópavogi. Vert er að taka fram að þátttaka er ókeypis og allir eru hjartanlega velkomnir.