Ólafur Ragnarsson fæddist 29. ágúst 1938 í Keflavík. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum 19. desember 2019.

Foreldrar Ólafs voru Egill Ragnar Ásmundsson, f. 24.6. 1918, d. 29.4. 1996, og Auður Ólafsdóttir. f. 5.9. 1917, d. 13.6. 2002, þau slitu samvistum. Ragnar giftist síðar Halldóru Jónu Jónsdóttur, f. 17.10. 1922, d. 12.3. 2010. Systkini samfeðra eru: Elín Jóna, f. 1949; Ragnhildur Helga, f. 1952; Brynjar, f. 1953. Systkini sammæðra eru Kristbjörg Ósk Árný Markúsdóttir, f. 1935; Ragna Moyer, f. 1943; Guðmundur Þór Guðmundsson, f. 1944; Peter Olaf Wooton, f. 1949; og Edwin Karl Wooton, f. 1952.

Eldri dóttir Ólafs er Ragnhildur Halldóra, f. 24.5. 1965. Móðir hennar var Ingibjörg Sigurðardóttir, f. 13.6. 1939, d. 17.8. 2006. Ólafur og Ingibjörg slitu samvistum. Dætur Ragnhildar Halldóru eru: a) Linda Andrea, f. 1992, eiginkona hennar er Tinna Karen Gunnarsdóttir. Dóttir þeirra er Hedvig Lóa. b) Ingibjörg Sara, f. 1997. Sambýlismaður Ragnhildar Halldóru er Birgir Ingi Guðmundsson og á hann þrjú börn.

Yngri dóttir Ólafs og fyrrverandi konu hans, Guðbjargar Pálmadóttur, f. 23.12. 1941, er Rósa, f. 21.1. 1971. Börn Rósu eru: a) Ólafur Freyr, f. 1990, sambýliskona hans er Helena Sigurðardóttir. Dóttir þeirra er Sara Sól. b) Guðjón Már, f. 1997, sambýliskona hans er Erna Sif Sveinsdóttir. c) Elín Ósk, f. 1998. Sambýlismaður Rósu er Valur Bjarnason og á hann tvö börn.

Ólafur ólst að mestu leyti upp hjá föður sínum og fósturmóður í Borgarnesi. Stundaði hann nám við Barnaskóla Borgarness. Hann fór ungur á sjó og lauk fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1963 og síðar farmannaprófi við sama skóla 1980. Ólafur var háseti og stýrimaður á farskipum, bátum og togurum frá árinu 1953. Eftir 1980 var hann stýrimaður á farskipum, m.a. hjá Ríkisskipum. Hann var yfirstýrimaður og afleysingaskipstjóri á ms. Esju og ms. Heklu árin 1978-1988 og síðan skipstjóri á norsku skipi 1988. Einnig var Ólafur stýrimaður á Hofsjökli um skeið. Ólafur var á dönskum og sænskum skipum en lengst af var hann yfirstýrimaður á fraktskipum H. Folmer í Kaupmannahöfn eða á árunum 1990-2004. Undir lok starfsævi sinnar var hann stýrimaður á Valberg, eftirlitsbát með kapallögnum í Norðursjó. Ólafur fluttist 2005 til Vestmannaeyja og bjó þar til dánardags. Ólafur var alla tíð mikill áhugamaður um skip og sjómennsku, og safnaði í gegnum árin miklum upplýsinum um það efni. Var hann hafsjór fróðleiks af ýmsum toga og hélt lengi úti heimasíðunni www.fraktskip.123.is þar sem finna má ýmiss konar fróðleik, eins skrifaði hann í blöð og tímarit, m.a. Heima er best.

Útför Ólafs fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum, í dag, 11. janúar 2020, klukkan 13.

Látinn er í Eyjum gamall sjómaður og mikill sögumaður, Ólafur Ragnarsson.

Ólafur var skipstjórnarmenntaður, tók fiskimanninn 1963 og seinna farmanninn árið 1980. Áður hafði hann verið lengi til sjós, en hann byrjaði 14 ára 1953 sem messagutti á Eldborginni sem sigldi milli Reykjavíkur og Borgarness, en síðan tóku við hinir og þessir bátar og skip. Þá var hann lengi á gömlu síðutogurunum. Eftir að hann lauk stýrimannaskólanum var hann lengst af stýrimaður en einnig skipstjóri á fjölmörgum farskipum. Upp úr 1990 flutti hann til Svíþjóðar og sigldi í á annan áratug á dönskum skipum.

Ólafur hafði mikinn áhuga á öllu sem viðkom bátum og skipum og eftir hann liggur mikið efni á því sviði. Á seinni árum skrifaði hann mikið í tímaritið Heima er best um sjómennskuna eftir miðja öldina og má þar finna lýsingar og frásagnir af lífinu á sjónum á þessum tíma.

Margir minnast samtala þeirra Jónasar Jónassonar útvarpsmanns, en ekki dugðu færri en þrír klukkutímalangir þættir með Ólafi. Þá hélt hann úti skipasíðu Óla Ragg á netinu um hugðarefni sín og er þar samankominn mikill fróðleikur. Skipasíðan er mikið lesin og margir skipakarlarnir sem fylgdust með skrifum hans.

Eftir að sjómennsku lauk upp úr 2004-5 kaus hann að flytja til Eyja, en þar hafði hann áður búið um skeið. Hann sagði að það hefði verið hans besta ákvörðun og mikil gæfa að flytja aftur til Vestmannaeyja.

Ólafur var þekktur í Vestmannaeyjum fyrir viðburðaríka farmennsku og hafði ég heyrt af þessum sjóhundi, enda voru sögur hans margar hverjar þekktar af þeim sem höfðu gaman af ævintýralegum uppákomum á sjónum. Hann kunni frá mörgu skemmtilegu að segja frá viðburðaríkum ferli sínum á sjónum um áratuga skeið.

Ég kynntist ekki Ólafi fyrr en við vorum saman á framboðslista fyrir síðustu alþingiskosningar og var mikill styrkur að hafa hann með á lista. Á okkar samstarf féll aldrei skuggi þau ár sem við áttum þar samleið. Þakka ég honum mikinn og dýrmætan stuðning á vettvangi stjórnmálanna og þáði ég af honum mörg holl ráð og gagnlegar ábendingar. Ég hugsa með hlýhug til reynslumikils og óvenjulegs manns.

Ég sendi dætrum hans, fjölskyldu og öðrum ástvinum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Karl Gauti Hjaltason.