Helgi Hjálmtýsson
Helgi Hjálmtýsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Helga Hjálmtýsson: "Þetta sjóslys var áfall fyrir þjóðina. Bæði vegna þess hve ungir áhafnarmeðlimir Sæfara voru og vegna þess að þetta var áttunda skipið af Vestfjörðum sem fórst á sjö ára tímabili með þrjátíu og þremur mönnum."

Hinn 10. janúar 1970 fórst Sæfari BA 143 út af Vestfjörðum og með honum sex ungir og efnilegir menn. Hreiðar Árnason frá Bíldudal, skipstjóri, 24 ára, lét eftir sig sambýliskonu og nýfæddan son, Björn Maron Jónsson frá Bíldudal, stýrimaður, 20 ára, Gunnar Einarsson frá Reykjavík, búsettur á Bíldudal, vélstjóri, 24 ára, lét eftir sig eiginkonu, Erlendur Magnússon frá Bíldudal, vélstjóri, 20 ára, Gunnar Sævar Gunnarsson frá Eyjarhólum í Mýrdal, matsveinn, nýorðinn 36 ára og Guðmundur Hrómundur Hjálmtýsson frá Bíldudal, háseti, 18 ára.

Sæfari hafði verið á togveiðum á haustvertíðinni en í byrjun árs 1970 var ráðin ný áhöfn á bátinn. Flestir í áhöfninni voru frá Bíldudal eða tengdust staðnum. Miklir erfiðleikar voru í atvinnulífi og útgerð á Bíldudal á þessum tíma og litla vinnu að hafa. Margir Bílddælingar voru því á Suðureyri, bæði karlar og konur, og margir sjómanna á Tálknafirði.

Sæfarinn fór síðast til veiða föstudaginn 9. janúar og það var fimmti túrinn á línuveiðum. Tálknfirðingur var í sambandi við Sæfarann um kl. 2.30 aðfaranótt laugardagsins. Var hann þá staddur um 20-30 mílur norðvestur af Kópanesi. Skipverjar voru að draga inn línuna, áttu tólf bjóð eftir og reiknuðu með að vera komnir um hádegi inn til Tálknafjarðar. Þetta er það seinasta sem vitað er um áhöfn Sæfara BA 143.

Veður var hið versta þennan laugardag, stormur, allt að 10 vindstigum, eða 26 m/s, og gekk á með éljum. Sjómönnum bar saman um að lítil ísing hefði verið á því svæði sem Sæfarinn var á en hún hefði aukist eftir því sem nær dró landi. Breska eftirlitsskipið Orsini var á svipuðu svæði og aðfaranótt laugardagsins kl. 3.00 sendi það frá sér eftirfarandi veðurlýsingu: NA-9 vindstig og snjókoma, 4 stiga frost.

Þegar komið var fram undir hádegi á laugardeginum varð starfsmönnum Slysavarnafélags Íslands ljóst að Sæfarinn hafði ekki tilkynnt sig og um hádegisbilið fóru Tálknfirðingur og Tungufell frá Tálknafirði út til leitar. Fljótlega fylgdu þeim aðrir Vestfjarðabátar og upp úr því hófst afar umfangsmikil og skipulögð leit að Sæfaranum við erfiðar og krefjandi aðstæður, lítið skyggni og vont veður. Leitað var á sjó, úr lofti og á landi.

Tvær varnarliðsvélar frá Keflavík tóku þátt í leitinni ásamt SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, og einkaflugvél Helga Jónssonar flaug meðfram strandlengjunni. Um 20 togarar og skip sigldu í breiðfylkingu með tveggja til þriggja mílna millibili á fimm sjómílna hraða yfir hafsvæðið úti fyrir Vestfjörðum undir stjórn Ægis sem var kominn á vettvang að kvöldi laugardagsins. Björgunarsveitarfólk gekk fjörur allt frá Barðanum að Bjargtöngum. Það bætti ekki úr skák að veður fór versnandi eftir því sem leitinni miðaði áfram. Öll þessi framkvæmd bar engan árangur, ekkert fannst sem tengja mátti við Sæfarann utan endabauju á línu sem báturinn hafði skilið eftir í sjó daginn áður. Skipverjar voru taldir af 15. janúar.

Sæfari BA 143 var í eigu Hraðfrystihúss Tálknafjarðar hf. sem hafði fengið hann nýjan. Hann var 101 tonna stálskip smíðað í Brandenburg í Austur-Þýskalandi árið 1960. Fleiri skip sömu gerðar voru á sjó hérlendis á þessum tíma. Þannig hafði Svanurinn frá Súðavík fengið á sig brotsjó árið áður, lagst á stjórnborðshliðina og sokkið en áhöfnin bjargaðist. Einar Hálfdáns frá Bolungarvík fékk á sig brot á landstími, lagðist á möstrin en áhöfnin taldi að línubelgir sem bundnir voru í rekkverkið sem fór á kaf hafi stuðlað að því að báturinn rétti sig við og það náðist að keyra hann upp aftur. Svanurinn og Einar Hálfdáns voru samskonar skip og Sæfarinn. Einar Hálfdáns sökk árið 1977 en þá bar hann nafnið Gullfaxi. Gullfaxi var með fullfermi á lensi en lagðist óvænt á stjórnborðshliðina, fór á hvolf og sökk á skömmum tíma en áhöfnin bjargaðist.

Þetta sjóslys var áfall fyrir þjóðina. Bæði vegna þess hve ungir áhafnarmeðlimir Sæfara voru og vegna þess að þetta var áttunda skipið af Vestfjörðum sem fórst á sjö ára tímabili með þrjátíu og þremur mönnum. Umræður fóru fram á Alþingi um hvað væri til ráða til að sporna við þessum tíðu slysum og mannskaða.

Áfall fjölskyldna skipverja og vina var, eins og gefur að skilja, mikið, að missa þessa menn í blóma lífsins, en ekki síður vegna þess að enginn þeirra fannst þrátt fyrir viðamikla leit. Það var því viss huggun fólgin í því þegar nöfn þeirra voru færð á Minningaröldurnar í Fossvogi í Reykjavík á sjómannadag 1. júní 2003 og þeirra minnst. Aðstandendur og vinir ætla nú að hittast við Minningaröldurnar laugardaginn 11. janúar og minnast þess að 50 ár eru liðin frá því að þessir hugrökku, ungu menn létu líf sitt og þakka fyrir störf leitaraðila og björgunarsveitafólks.

Höfundur er markaðs- og kynningarfulltrúi.