Kristinn Borgar Indriði Jónsson fæddist 28. nóvember 1944. Hann lést 7. desember 2019.

Útför Kristins fór fram 22. desember 2019.

Það er tómlegt að koma heim að Skarði núna og það eru þung sporin.

Elsku hjartans stoð mín og styrkur, hann Kiddi minn er fallinn frá, allt of snemma og fljótt, gerðist allt á svo stuttum tíma, frá því hann veiktist.

Ég vil þakka honum þessum sterka heiðarlega og góða manni fyrir allan þann styrk, virðingu og ást sem hann sýndi mér frá frá þeim degi sem við hittumst fyrst og alla tíð eftir það. Við byrjuðum búskap á Skarði 1971 ásamt frænda hans og meðeiganda Ólafi, og þar sem þörf var á að fara út í eyjar, þurftu þeir að kaupa sér bát, en það var draumastarfið að komast á sjóinn og sigla um Breiðafjörðinn. Hann var öruggur og mjög næmur að sigla í þessum skerjótta firði, enda þekkti hann nánast hvert einasta sker á þeim leiðum sem hann þurfti að fara, og okkur fannst við alltaf fær í flestan sjó þegar hann sat við stýrið, enda var hann farsæll sjómaður og var óþreytandi að kenna börnum okkar siglingarleiðir og fræða þau um ættarsöguna, sem er mjög löng, þar sem hann var 27. ættliðurinn.

Kiddi var mjög einlægur og heiðarlegur maður, kunni ekki að segja ósatt, hann mátti ekkert aumt sjá, hvort heldur það voru menn eða dýr, þá reyndi hann að hjálpa ef það væri eitthvað sem hann gæti gert, alveg eins og forfeður hans höfðu gert, það eru víða til í heimildum fallegar sögur af því.

Hann var sérlega gestrisinn og vildi helst fá alla sem komu inn í kaffi, og fá eitthvað með því, tók ekki annað í mál.

Hann var mjög hjálplegur ef eitthvað kom upp á hjá fólki sem hann gat hjálpað með og oftast voru það bilaðir bílar, sprungin dekk og fleira, þá henti hann frá sér því sem hann var að gera og fór strax í að hjálpa.

Ég og börnin okkar og fjölskyldur okkar eigum eftir að sakna þessarar elsku, sem var svo góður eiginmaður, faðir og afi.

Og ég þakka þér, ástin mín eina, fyrir allt sem þú varst mér, sem var ekki lítið.

Þú gafst mér skýin og fjöllin

og guð til að styrkja mig.

Eg fann ei, hvað lífið var fagurt,

fyrr en eg elskaði þig.

Ég fæddist til ljóssins og lífsins,

er lærði eg að unna þér,

og ást mín fær ekki fölnað

fyrr en með sjálfum mér.

(Sigurður Nordal)

Þórunn Hilmarsdóttir.

Elsku pabbi minn, mikið er sárt að þurfa kveðja þig.

Mikill maður með stóran persónuleika, ákveðinn, óhræddur, hjálpsamur og góður í gegn eru kjörorðin þín.

Breiðafjörður átti stóran hlut í þér þar sem þú sigldir um skerjóttan fjörðinn í alls konar veðri, öruggur og óhræddur sama hvað veðrið bauð upp á þann daginn. Ég var 4 ára þegar ég fór fyrst með þér á sjó og naut hverrar sekúndu eftir því sem árin liðu að vera með þér hvort sem það var að sigla eða tína æðardún í eyjunum fögru. Ég trúi varla að síðasta sjóferðin þín hafi verið í sumar.

Þú hefur kennt mér svo margt sem ég mun hafa í farteskinu um ókomna tíð.

Þegar ég hugsa um þig kemur upp í hugann hversu hreinn og beinn þú varst. Sagðir þína meiningu hvort sem það féll fólki eður ei, kunnir ekki að segja ósatt. Heiðarlegur með afbrigðum og réttir hjálparhönd hvar sem hana vantaði.

Þegar greiningin um illvígan sjúkdóm kom í október var ég viss um að við hin fengjum samt meiri tíma með þér en 6 vikur. Þú sjálfur varst ekki tilbúinn fyrir þessar fregnir því þú ættir svo mikið ógert. Það yrði að koma Móra á flot fyrir sumarið, gera við vélina. Tala nú ekki um hitt og þetta varðandi bíla sem þú ætlaðir að gera og flinkur eftir því að gera við.

Sofðu rótt, pabbi minn, og þakka þér fyrir allt. Þú verður mér í hjartastað um ókomin ár. Þú ert kominn í hlýjuna hjá öllum hinum Skarðverjunum og öðrum ættingjum og vinum.

Þú komst til að kveðja í gær.

Þú kvaddir og allt varð svo hljótt.

Á glugganum frostrósin grær.

Ég gat ekkert sofið í nótt.

Hvert andvarp frá einmana sál.

Hvert orð sem var myndað án hljóms,

nú greindist sem gaddfreðið mál

í gervi hins lífvana blóms.

En stormurinn brýst inn í bæ

með brimgný frá klettóttri strönd.

En reiðum og rjúkandi sæ

hann réttir oft ögrandi hönd.

Því krýp ég og bæn mína bið,

þá bæn sem í hjartanu er skráð.

Ó, þyrmdu honum, gefðu honum grið.

Hver gæti mér orð þessi láð?

(Freymóður Jóhannesson)

Þín,

Ingibjörg Dögg.

Elsku afi.

Ég á svo margar góðar minningar um þig, allar þær stundir sem ég átti heima á Skarði.

Heima á Skarði. Þú sem gafst mér annað heimili hér.

Mínir bestu tímar voru á bænum með þér.

Að fara í bátinn og sigla með þér eru mínar uppáhaldsminningar.

Það er erfitt að hugsa til þess að við munum ekki fara aftur saman á sjó, en þegar ég horfi yfir sjóinn get ég minnst þeirra stunda sem við sigldum yfir í eyjarnar og hve þolinmóður þú varst alltaf að svara öllum skrítnu spurningunum sem ég hafði fyrir þig.

Þú kenndir mér að tína dún og að eiga kindur og ekki vera hrædd, það eru til lausnir við öllu.

Mér finnst svo erfitt að kveðja þig, elsku afi minn. Ég mun alltaf minnast þín með bros á vör að keyra Econoline-inn niður gamla veginn í Bröttubrekku í alls kyns veðri, öruggur um að komast heill heim. Ég mun ávallt minnast þeirra stunda sem við áttum í eyjunum í dúntínslu og ekki síst hve vel þú naust þess að sigla um Breiðafjörðinn.

Þótt erfitt sé að kveðja þig og við kvöddumst of snemma, þá veit ég að þú ert á góðum stað í faðmi langafa Jóns og langömmu Ingu. Í hjarta mínu finn ég að þú ert hjá okkur heima á Skarði og passar upp á alla ástvini þína og þá sérstaklega ömmu.

Góða nótt, elsku afi.

Haltu áfram að dreifa hamingju og ást í þeim heimi sem þú hvílir í núna og ég mun dreifa því hér og um heiminn þegar ég ferðast og hugsa til þín.

Hvar sem ég í heiminum er,

hugsa ég til þín.

Allt frá þér, sem þú gafst mér,

mun ég minnast þín.

Yfir Breiðafjörðinn langan og breiðan,

ég sjóinn sé, eyjar og sker.

Hugsa ég um bátinn hraðskreiðan,

sem afi minn skipstjórinn fer.

Hildur Edda Hilmarsdóttir.